Færsluflokkur: Spaugileg

Frægir fótboltamenn

Dóttir mín vinnur á veitingastað.  Á föstudagskvöldið var hún að vinna og það kvöld voru sex hollenskir karlmenn við hennar borð.  Þetta voru kurteisustu menn og allt gékk bara ágætlega.  Við annað borð sátu Íslendingar og þegar líða tók á kvöldið þá segir einn þeirra við dóttur mína - veistu ekki hver þetta er þarna við borðið?  Þetta er hann Kallipalli - dóttir mín man ekki einu sinni nafnið  - hann er aflveg oboðslega frægur og flinkur fótboltamaður.  Þú ættir að fá hjá honum eiginhandaráritun.

Dóttir mín hugsað sig um smá stund, svona hvort hún ætti að gera það.  Biðja um eiginhandaráritun.  En hún fattaði strax að það yrði bara hallærislegt.  Í fyrsta lagi þá vissi hún ekkert hver þeirra sexmenninganna þessi frægi Kallipalli var.  í öðru lagi veit hún lítið um fótbolta og hafði enga vitneskju um flinkheit mannsins.  Í þriðja lagi vissi hún ekkert hvað hún ætti að gera við slíka eiginhandaráritun.  Svo hún ákvað bara að láta það vera og láta Hollendingana í friði.  Þetta sýnir svona í hnotskurn hve mikið við fylgjum með fótboltanum hérna á heimilinu.


Hlauptu Gúa, hlauptu

Já, já ég er alltof auðtrúa.  Ég set mig alltaf í stellingar hvert ár þegar fyrsti apríl rennur upp og ætla sko ekki að hlaupa apríl.  Þykist mjög góð þegar ég fatta eitthvert fyrsta apríl gabb hjá vinnufélögunum nú eða í fjölmiðlum.  En á hverju ári tekst samt alltaf eitthvað að koma mér á óvart og ég læt gabbast.  Ég hljóp apríl í vinnunni, var sagt að mæta á ákveðinn stað klukkan 10 og ég dreif mig á staðinn og komst ég að því að um aprílgabb var að ræða.  Sá svo í dag á mbl.is að hægt væri að fara að horfa á bíómyndir á mbl.is, og það væri hægt að horfa ókeypis í dag.  Frábært, hugsaði ég og tilkynnti bóndanum þetta kostaboð hjá mbl.is og að ég væri að hugsa um að horfa á einhverja góða mynd í kvöld.  Helduru ekki að þetta sé aprílgabb - sagði minn rólegi Austfirðingur.  Nú er ég búin að leita og leita inná mbl.is og finn hvergi þessar ókeypis bíómyndir - búin að hlaupa apríl í annað sinn og verð að játa mig gersigraða af aprílgöbbum þetta árið.  Og hann er svo sem ekki búinn enn.

Mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur

er lag sem hægt er að nota til að kenna krökkum nöfnin á vikudögunum.  Nú er framundan Bolludagur, Sprengidagur, Öskudagur .  Ég hef reynt að standa mína húsmóðurlegu plikt að ala upp afkvæmin í réttum hefðum og siðum sem tíðkast á þessum dögum. Si svona eins og að gera bollur, kaupa efni í fiskibollur og í hið árlega saltkjöt og baunir.  Börnin eru reyndar orðin það fullorðin að ég tel næsta víst að þau hafi ekki áhuga á að fara í Kringluna né á Laugarveginn til að syngja í búðunum á Öskudaginn fyrir nammi í poka. 

Ég verð þó að játa að ég hef ekki staðið mig í að halda úti öskupokahefðinni því ég hef ekki saumað öskupoka síðan í Borgarnesi í den.  Ekki það að þar stóð mamma mín sig vel því hún hjálpaði okkur krökkunum að gera öskupokana.  Mamma er flínk saumakona og gerði hún mjög fallega poka það er dálítið sérstakt hvað ég man það vel núna.  Það erfiðasta við að gera öskupoka var að beygja títiprjónana sem maður notaði til að festa pokana með, títiprjórnarnir áttu til að hrökkva í sundur.  Aldrei var sett nein aska í þessa poka, því hvar var ösku að fá?? Ekki voru nú grillin né arnarnir á heimilunum í Borgarnesi á þessum tíma ogseisei nei og hitað upp með olíukyndingu, ég held það nú.

Aðalstuðið var síðan að fara með öskupokaútgerðina út í Kaupfélagiog næla þeim svo lítið bar á  í fólk sem var þar á ferð, helst konur, þær voru yfirleitt það vel búnar í kápum sem gott var að næla í.   Síðan var voðalega gaman að fylgjast með fínu frúnum ganga um í Kaupfélaginu með pokana aftaná sér.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband