Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Að giska á

Mikil umræða er núna um starfsheiti og normalíseringum á þeim og litavali á fatnað barna.  Þetta með bleikt fyrir stelpur og blátt fyrir stráka er ekki alheimslögmál heldur staðbundið og ég held að það sé t.d. í Frakklandi þar sem litlar stelpur eru hafðar í bláu en stákarnir í bleiku.  Það er eitt atriði varðandi blessuð börnin sem maður hittir með foreldrum sínum út á götu eða í búðinni og börnin eru á fyrsta og öðru ári  - þar getur verið mjög erfitt sjá það út hvort um stelpu eða strák er að ræða.  Ég hef lent í því að hafa giskað vittlaust á kyn barns og það hefur ekki verið neitt sérstaklega vinsælt hjá foreldrunum. Mér hefur fundist það leitt að móðgja fólk með því að halda að strákurinn þeirra sé stelpa eða öfugt og hef ég enga löngun til þess að valda því hugarangri yfir því að barnið þeirra sé ekki nógu mikið í sitt kyn að það sé ekki hægt að sjá það strax.  Því er ég hokin af reynslu löngu hætt að giska á kyn barna, eins og ég er löngu hætt að giska á aldur fólks.  Ég harðneita að taka þátt í slíku þó að mér sé hart gengið.  Nógu mikið móðga ég fólk vitandi vits og óvart þó ég bæti ekki ekki þvílíku giski við.

Það er nefnilega það

Ætlaði að blogga lært blogg um fundarsköp en rakst á þetta próf á blogginu hennar Nönnu og varð að prófa að setja það hér inn.  Veit ekki hvort það tekst -

 


Þú fellur fyrir frinsum (froskur + prins).


Sé karlkynið flokkað í prinsa, froska, proska og frinsa leikur enginn vafi á hvaða manngerð/dýrategund þú fellur fyrir. Þú laðast að frinsum. Frinsinn líkist í flestu froskinum. Hann sýnir sjaldan rómantíska tilhneigð og getur átt það til að vera ansi óhugulsamurr. Láttu þér ekki bregða þótt frinsinn gleymi afmælisdeginum þínum, brúðkaupsdeginum eða jólagjöfinni. Þótt þú gengir með post-it miða á enninu sem á stæði ?ég vildi að frinsinn minn myndi koma mér á óvart og kaupa handa mér blómvönd? stæði blómavasinn tómur á stofuborðinu um ókomna tíð.

Þeir sem hyggja á samband við frins þrátt fyrir það geta endanlega kvatt sjónvarpsfjarstýringuna. Frinsar deila henni ekki með neinum. Búðu þig undir löng kvöld yfir íþróttum og Jean-Claude van Damme. Búðu þig einnig undir dimm kvöld því ekki láta þig dreyma um að frinsinn skipti um ljósaperu.

Finnist þér skemmtilegt að tína skítuga sokka eftir aðra upp af gólfinu átt þú sannarlega samleið með frinsinum. Þyki þér það hins vegar ekki hápunktur tilverunnar og þú gerist svo djörf að biðja frinsinn að hirða sjálfan upp eftir sig sokkana máttu eiga von á að hann hækki í iPodinum sínum og láti sem hann heyri ekki í þér.

Eini munurinn á frinsinum og froskinum er sá að einstaka sinnum bólar á prinslegum eiginleikum í fari frinsins er hann kemur þér á óvart með framtakssemi eða rómantísku uppátæki.

Fellur þú fyrir prinsum eða froskum?

Í tilefni dagsins í gær -

 

Gunnarshólmi 

Skein yfir landi sól á sumarvegi,
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.
Beljandi foss við hamrabúann hjalar
á hengiflugi undir jökulrótum,
þar sem að gullið geyma Frosti og Fjalar.
En hinum megin föstum standa fótum,
blásvörtum feldi búin, Tindafjöll
og grænu belti gyrð á dalamótum.
Með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll,
horfa þau yfir heiðarvötnin bláu,
sem falla niður fagran Rangárvöll,
þar sem að una byggðarbýlin smáu,
dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir.
Við norður rísa Heklu tindar háu.
Svell er á gnípu, eldur geisar undir.
Í ógna djúpi, hörðum vafin dróma,
skelfing og dauði dvelja langar stundir.
En spegilskyggnd í háu lofti ljóma
hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.
Þaðan má líta sælan sveitablóma,
því Markarfljót í fögrum skógardal
dunar á eyrum. Breiða þekur bakka
fullgróinn akur, fagurst engjaval
þaðan af breiðir hátt í hlíðarslakka
glitaða blæju, gróna blómum smám.
Klógulir ernir yfir veiði hlakka,
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í lofti birkiþrasta sveimur,
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
Þá er til ferðar fákum snúið tveimur,
úr rausnargarði háum undir Hlíð,
þangað sem heyrist öldufalla eimur,
því atgang þann ei hefta veður blíð,
sem voldug reisir Rán á Eyjasandi,
þar sem hún heyir heimsins langa stríð.
Um trausta strengi liggur fyrir landi
borðfögur skeið, með bundin segl við rá,
skínandi trjóna gín mót sjávar grandi.
Þar eiga tignir tveir að flytjast á,
bræður, af fögrum fósturjarðar ströndum
og langa stund ei litið aftur fá,
fjarlægum ala aldur sinn í löndum,
útlagar verða, vinar augum fjær.
Svo hafa forlög fært þeim dóm að höndum.
Nú er á brautu borinn vigur skær
frá Hlíðarenda hám, því Gunnar ríður
atgeirnum beitta búinn. Honum nær
dreyrrauðum hesti hleypir gumi, fríður
og bláu saxi gyrður, yfir grund.
Þar mátti kenna Kolskegg allur lýður.
Svo fara báðir bræður enn um stund.
Skeiðfráir jóar hverfa fram að fljóti.
Kolskeggur starir út á Eyjasund,
en Gunnar horfir hlíðarbrekku móti.
Hræðist þá ekki frægðarhetjan góða
óvina fjöld, þó hörðum dauða hóti.
"Sá ég ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga
alla, sem guð mér sendir. Farðu vel,
bróðir og vinur!" - Svo er Gunnars saga.

- - -

Því Gunnar vildi heldur bíða hel
en horfinn vera fósturjarðar ströndum.
Grimmlegir fjendur, flárri studdir vél,
fjötruðu góðan dreng í heljar böndum.
Hugljúfa samt ég sögu Gunnar tel,
þar sem ég undrast enn á köldum söndum
lágan að sigra ógnabylgju ólma
algrænu skrauti prýddan Gunnarshólma.
Þar sem að áður akrar huldu völl,
ólgandi Þverá veltur yfir sanda.
Sólroðin líta enn hin öldnu fjöll
árstrauminn harða fögrum dali granda.
Flúinn er dvergur, dáin hamratröll,
dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda.
En lágum hlífir hulinn verndarkraftur,
hólmanum, þar sem Gunnar sneri aftur.



Jónas Hallgrímsson
1807-1845
 

Atviksorð

Þessa dagana hefur sonurinn óskað eftir aðstöð í íslenskunni   Um daginn voru það atviksorðin sem hann var að stríða við.  Ég var í vandræðum með að muna skilgreininguna á atviksorðum, og fór að leita að bókinni Íslensk málfræði eftir Björn Guðfinnson sem við áttum einhvers staðar.  Ekki fann ég bókina þannig að ég varð að fletta upp í stóra sannleiknum  - Íslenskri orðabók Árna Björnssonar.  Þar segir: ,,atviksorð, orð af sérstökum orðflokki sem einkum segir til um hvernig, hvar eða hvenær e-ð gerist t.d. vel, saman, nú, þar."  Þetta er gott og blessað og með þessa vitneskju í farteskinu gátum við tekist á við verkefnið í íslenskunni. 

Ég man ekki alveg hvernig ég skilgreindi fyrir sjálfri mér atviksorð í gamla daga þegar ég var að læra íslensku.  Ég man allavega ekki eftir því að hafa fest þessa skilgreiningu í minninu, sem mér finnst mjög góð skilgreining á atviksorðum.  Einhvern vegin minnir mig að ég hafi átt í einhverjum vandræðum með atviksorðin og hafi ekki alveg verið með þau á ákveðnum bás ein og ég var með og sagnorðin, nafnorðin, lýsingarorðin o.s.frv.   

En eitt fattaði ég svo allt í einu í gærkvöldi - atviksorð - það eru náttúrulega orð sem lýsa því hvernig, hvar eða hvenær eitthvað atvik verður.  Íslenskan - klikkar ekki.


Mosi og steinar

Picture 030

Ég var fjórtán ára þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda.  Þá fór ég til Bandaríkjanna í vist til Jóu frænku.  Ég lenti um kvöld á Kennedy flugvelli og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað mér fannst skrítið að það var myrkur en samt hlýtt og líka síðan lyktin af loftinu.  Hún var vond og skítin. 

Sonur minn 13 ára fór í fyrsta sinn til útlanda núna um daginn þegar við fórum til London.  Nú hefur hann séð heilmikið í sjónvarpinu og á internetið hvernig útlönd eru þannig að ég var að spá í það hvort útlönd kæmu honum eitthvað á óvart og þá á hvern hátt.  Ég er búin að spyrja hann að því.  Og hvað kom syni mínum á óvart í útlandinu Englandi?  Jú þar var hvað trén voru stór og mörg og að hann sá hvergi mosa eða steina.

Þegar ég ítrekaði spurninguna um hvað hefði komið honum mest á óvart með útlöndin þá svaraði hann því til að það sem kom honum mest á óvart var hvað útlöndin voru mikið öðruvísi en Ísland.  

Það gæti verið seinna meir að sonur minn átti sig á því að það eru ekki útlöndin sem eru öðruvísi en Ísland.  Það er Ísland sem er örðuvísi en útlöndin. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband