Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Skyr, ber og rjómi

er tær snilld.  Það eru komin ber, þroskuð aðalbláber í Dalinn væna.  Já ótrúlegt en satt.  Maður þarf samt að hafa dálítið fyrir því að týna fullt eitt kaffibox af þroskuðum aðalbláberjum núna enda ekki kominn ágúst.  En það munar um hvern sólardaginn þarna fyrir norðan og útlítið er svart maður eða kannski ætti maður að segja blátt?  Lítur rosalega vel út með berjasprettuna þarna fyrir norðan þetta árið amk.  Jóhann Hilmir týndi í eitt box í fyrradag sem við borðuðum upp til agna með skyri og rjóma í gærkvöldi eftir að við vorum komin hingað á vesturhorn landsins.  Ekki margt sem slær út aðalbláberjum í mínum huga, held að mér finnist þau vera bara the best of the best of the best sir, ekki annað en það.

Í landinu mínu sá ég líka að ef til vill koma hrútaber hjá okkur en það er í fyrsta sinn sem ég sé það.  Hrútaberjalyngið var ekki í okkar landi fyrstu árin okkar með hólfið í Dalnum en síðustu ár hefur það verið að búa um sig hér og hvar.  Og er núna í fyrsta sinn sem útlit er jafnvel fyrir að því takist að þroska einhver ber.

Hér í Reykjavík er þvílík sól og sæla að ég hef ekki fyrr komist í tæri við annað eins á þessu landshorni.  Læt hér fylgja með eftirmiddagsólarmynd af litla húsinu við Akurhól, Skíðadal, Dalvíkurbyggð.

picture_018.jpg


Bræðslan 2008

 

Jamms þá er fjölskyldan búin að fara á Borgarfjörð eystra og taka þátt í Bræðslunni 2008. Það var mikið fjör og mikið stuð.  Við fjölskyldan mættum í bræðsluskemmuna klukkan korter í átta og náðum við þrjú stæði í þriðju röð frá sviðinu og fórum ekkert þaðan alla tónleikana til þess að missa ekki þann góða stað.  Unga parið sá um sig sjálft og var meira á einhverju randi inn og út en þau sögðust þó hafa náð ágætis staðsetningu þegar Eyvör byrjaði að spila. 

Klukkan tuttugu mínútur yfir ellefu þegar Damien Rice var búinn að kyrja nokkur lög var ég orðin þreytt í fótum og eitthvað farin að þjást af loftleysi og hita.  Ég spurði þá kallana mína tvo hvort við ættum að færa okkur eða etv. fara út. Nei, þeir héldu nú ekki þannig að við stóðum áfram sem fastast út alla tónleikana - sem ég var mjög ánægð með að við skyldum endast til að gera.  En eftir tónleikana sem enduðu klukkan korterítólf höfðum við aðeins krafta til að staulast heim í tjald og misstum því af eldhúspartýinu þar sem Eyvör spilaði en þangað fór unga parið okkar.  Einnig misstum við af því þegar Damien Rice fór að spila úti í brekkunni um nóttina.  En við vorum og erum alsæl með Bræðsluna 2008.

Það var mjög gaman að hlusta á allt það listafólk sem þarna kom fram, það var hvert með sínu lagi eins og gengur.  Eyvör var mjög góð og Damien Rice er mun betri live en á plötum eða í sjónvarpi.  Mér fannst mun meiri kraftur í honum si svona heldur en maður verður var við á upptökum.  Það voru mörg mjög góð lög sem hann flutti þarna en jafnvel finnst mér þetta lag sem ég fann á youtube vera með þeim betri þetta kvöld.  Þetta er lag sem Damien Rice sagði þarna um kvöldið hafa hafa samið um fjórtán ára aldurinn og fjallar um ákveðið athæfi sem hann þá stundaði nokkuð grimmt.  

Myndband af flutningnum á Bræðslunni er komið á youtube -

 


Mamma og tölvan

Mamma er hörku tölvari. Hún er samt alltaf dálítið hrædd við tölvuna aðallega að hún skemmi eitthvað í henni. Því þarf ég alltaf að kenna henni hlutina í áföngum fyrst þetta svo hitt. Nú er ég að kenna henni að nota usb lykil. Henni líst bara vel á það en er samt dálítið smeik eins og vanalega þegar um eitthvað nýtt tölvutækniundur er að ræða. En það endar alltaf með því að hún nær þessu sú aldraða eins og pabbi kallar hana stundum. Mamma er komin með mikið af myndum inná tölvuna sem ég tel að væri mjög gott fyrir hana að setja inná usb lykil bæði sem vara geymslu og einnig til að spara tölvupláss. En það veitir ekki af að passa uppá myndirnar því pabbi er svoddan skaðræði ef hann kemst í ham í tölvunni þá á hann það til að hreinsa út hitt og þetta og breyta stillingum í tölvunni og ég veit ekki hvað og hvað. Sem þau finna svo ekkert út úr með hvernig á að laga til baka.

Útúrdúr

er lítil mjög skemmtileg bókaverslun á Njálsgötunni.  Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir voru í gær með opið hús í Útúrdúr í tilefni af því að þau hafa sett hluta af sýningunni Greinasafn sem þau voru með í Safnasafninu á Svalbarðsströnd upp í bókabúðinni.  Einnig voru þau að kynna útkomu bókverksins Greinasafns.  Svona kynnti Anna Líndal þennan viðburð í tölvupósti sem ég fékk frá henni:

- FJÖLFELDIN HEIM - loksins í útúrdúr!

Greinasafn / Branch Collection, bókverk eftir Önnu Líndal, Bjarka Bragason og Hildigunni Birgisdóttur kom út núna í sumar þegar sýningin Greinasafn opnaði í Safnasafninu. Bókin er 56 síður og sækir formið í biblíumyndabækur. Í verkinu er ferli sýningarinnar frá hugmynd að fullmótaðri sýningu rakið í máli og myndum. Hugarheimum Greinasafnsins eru gerð góð skil og í bókinni kristallast grunnþættir sýningarinnar; söfnun, rannsóknir, og það flæði sem slíkt myndar og myndast í. Í útúrdúr verða einnig fjöldi fjölfelda sem voru stór hluti af sýningunni í Safnasafninu.

Ég fór sólskininu í gær á kynninguna í Útúrdúr.  Það eru fínar pælingar hjá listafólkinu, Hildigunnur er með þúfuspegúlasjónir sem mér fannst skemmtilegar, Bjarki var m.a. með nýja sýn á Káranhjúkadæmið og Anna Líndal var með fjölfeldispælingu sem mér fannst flottar.  Hún var með fjölfeldi af tvinnakeflum með vafinni nál á sem mér finnst minna mig á kólibrífugl á kefli sem ég varð mjög hrifin af og gæti hugsað mér að eignast.  Ég er mjög hrifin af verkum Önnu Líndal og á eina mynd eftir hana.  Einnig leist mér vel á þúfustimpilinn hennar Hildigunnar og prufusettið af Kárahnjúkum eftir Bjarka.  Í þetta sinn keypti ég bara eitt eintak af bókinni Greinasafni eftir þau þrjú og hélt síðan heim í yndislegum síðdegisgróðraskúr.

 


Postulínsbrúðkaupskvæði

Heimsóknarvinur bloggsíðunnar sendi síðunni postulínsbrúðkaupskvæði í tilefni af afmæli okkar hjóna í gær.  Postulínsbrúðkaupskvæðið er ort í orðastað Gunnars og við lagið ,,Sofðu unga ástin mín".

Tuttugu árin ástin mín

eru sko fljót að líða.

Í Skiðadal fögur sólarsýn

sveipaði okkar brúðarlín,

enda var heldur engu þá að kvíða.

 

Við munum líka seinna sjá

silfur og gullið fríða.

Brúðkaupsdögunum okkar á

aldeilis kát við verðum þá,

því máttu treysta, nú er bara að bíða.


20 ár - postulínsbrúðkaup

Við eigum afmæli í dag Gunnar og ég.  Í dag eru 20 ár síðan við giftum okkur í kirkjunni á Völlum í Svarfaðardal.  Samkvæmt upplýsingum á brúðkaupsvefnum er það postulínsbrúðkaup.  Brúðkaupsdaginn okkar þann 16. júlí 1988 skein sól í heiði í Skíðadal og Svarfaðardal.  Það var mjög heppilegt því við vorum með veisluna heima í Syðra-Hvarfi í vélageymslunni og það hefði verið óþægilegra ef hefði verið mikil rigning og/eða kalt á giftingardeginum.  Sr. Jón Helgi Þórarinsson gaf okkur saman en þá var hann prestur á Dalvík.  Kirkjukór Svarfdæla söng og Ólafur Tryggvason var organisti.  Öllum viðstöddum, vinum, vandamönnum og kór var boðið í kaffiveislu beint eftir brúðkaupið sem haldin var í vélageymslunni á Syðra-Hvarfi í Skíðadal.  Ég held að u.þ.b. 80 manns hafi komið í kaffiveisluna hjá okkur.  Kaffibrauðið var allt heimagert. Í veislunni spilaði Jón Helgi á gamalt orgel sem var staðsett í vélageymslunni og pabbi flutti okkur brúðhjónunum brúðkaupskvæði. 

Eftir kaffisamsæti fóru heimamenn heim til sín en aðkomufólkið settist út í brekkuna við Lambatúnið og þar var setið dágóða stund í sól og sumaryl gítar dreginn fram og sungið og sungið.  Síðan höfðum við mat fyrir aðkomufólkið, lax sem pabbi hafði veitt og heimareykt hangikjöt frá tengdapabba.  Fínn dagur og nú eru semsagt tuttugu ár síðan.  Við vorum sammála um það hjónin í gærkvöldi þegar Gunnar spurði mig hvort ég vissi hvaða dagur yrði á morgun að þessi tími hefur verið ótrúlega fljótur að líða.  Einnig finnst okkur báðum það eilítið skringilegt að það séu virkilega 20 ár síðan við giftum okkur - eða eins og Gunnar missti út úr sér í gærkvöldi - ótrúlegt -


Seglagerðin Ægir

Ég varð hálf spæld í útilegunni okkar um daginn.  Tjaldið mitt, sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf frá krökkunum í háskólabekknum mínum var bilað.  Við höfðum ekki tjaldað tjaldinu í tvö ár þegar við fórum í útileguna um daginn.  Þegar við vorum búin að tjalda og ég ætlaði að renna upp rennilásnum á ytra tjaldinu þá kom í ljós að hann var bilaður.  Ég tosaði og tosaði og endaði sá tosugangur hjá mér með því að ég sleit rennilásinn.  Við höfðum verið svo heppin að tjalda rétt miðað við vindátt þannig að það kom ekki að sök um nóttina þótt tjaldið væri opið.  En ég var spæld yfir því að fína hústjaldið mitt sem er búið að þjóna okkur dyggilega í tólf ár væri etv. orðið ónýtt. 

Ég fór í könnunarleiðangur um tjöldin hjá krökkunum um daginn og komst að því að ef ég ætlaði að fá mér 5-6 manna braggatjald kostaði slíkt tjald u.þ.b. 50 þúsund krónur.  Mér leist í raun mjög vel á þessi nýju tjöld sem eru fáanleg á markaðnum núna en var samt spæld yfir því að gamla góða hústjaldið mitt úr tjalddúk og alles frá Tékklandi að ég held væri etv. ónýtt.

Strax á mánudaginn var fyrir viku síðan þegar heim var komið með bilaða tjaldið hringdi ég í Seglagerðina Ægi og spurðist fyrir um það hvort þar væri gert við rennilása í hústjöldum.  Stúlkan í símanum hélt nú það þannig að ég dreif tjaldið þangað í viðgerð.  Ég náði síðan í tjaldið mitt út viðgerðinni í gær - kominn nýr flottur hvítur rennilás á gamla góða þunga hústjaldið mitt og viðgerðin kostaði aðeins þrjú þúsund krónur.  Mér finnst það vel sloppið fyrir að taka langan bilaðan rennilás úr, og sauma nýjan fínan langan rennilás í tjaldið aftur með tvöföldum saum og mjög góðum frágangi. 


Enron, klárustu strákarnir í herberginu

Í gærkvöldi horfði ég á endann á myndinni: Enron the smartest guys in the room á einni af norrænu stöðvunum.  Það er í raun ótrúlegt að sjá hvernig þetta fólk hagaði sér.  Fólkið sem stjórnaði og vann hjá Enron.  Þarna kemur fram t.d. að stjórnendur fyrirtækisins voru sjálfir farnir að selja hlutabréf sem þeir áttu í Enron meðan þeir hvöttu starfsmenn til að setja allan sinn sparnað í hlutabréfin.  Síðan þegar hlutabréfnin hrundu á markaði þá var lokað fyrir sölu hlutabréfa sem voru í eign lífeyrissjóða starfsmanna Enron en stjórnendurnir seldu og seldu sín hlutabréf.

Einnig er áhugavert að spá í þetta samkeppnissjónamið á vinnustað.  Í Enron var fyrirtækjamótallinn með þeim hætti að þú varst alltaf í samkeppni.  Samkeppni og keppni var góð og best af öllu var að sigra.  Sigur var góður sama með hvaða hætti hann náðist.  Ef þú stóðst ekki söluvæntingar varstu rekinn.  Sífellt var verið að reka fólk og ráða nýtt - allir að keppa endalaust.  Þú varst hvattur til að ná árangri alveg sama hvaða meðulum þú notaðir.  Að plata fólk upp úr skónum - gott hjá þér - að beyja reglurnar aðeins - fínt hjá þér.  Einn eilífar fótboltaleikur í gangi þar sem engar reglur giltu aðrar en að selja, selja og græða, græða - nó question asked.

En það var eitthvað rotið í Enron.  Ýmsar fjárfestingar og veel og deel gengu ekki upp og til þess að fiffa dæmið gátu þeir með hjálp banka og virðulegra endurskoðunarfyrirtækja stofnað margvísleg fyrirtæki út og suður.  Þessi skúffufyrirtæki voru síðan í sífellu í þykistu bisness við Enron þannig að bókhaldslega fluttu þeir allt tap sem varð hjá Enron yfir í þessi plat fyrirtæki sín.  Enron sýndi hagnað og hagnað og bankarnir og endurskoðendurnir kvittuðu uppá bókhaldið og pappírana.  Allt rosalega löglegt og klárt og kvitt.  Above board. En svo komu sprungur í veggina og svikamyllan hrundi.  En eins og einn viðmælandinn segir í myndinni - It happened with Enron and it can happen again - 


Dans, dans, dans

 

Bob Fosse var snilldar dansari og danshöfundur.  Kona hans Gwen Verdon var líka rosalega góður dansari og mikill persónuleiki og performer á sviði.  Þeir sem sáu hana halda því fram að ekki hafi komið fram jafn góður Brodway - skemmtikraftur síðan hún hætti.  Gaman að sjá hana hve lipurlega hún syngur og dansar dans Bob Fosse um hana Lolu sem fær það sem hún vill. 


Niðurstaða

Þá er komð að þriðja og síðasta kaflanaum í þessum þríleik mínum um Seljavallalaug.  Mér finnst ólíklegt að hlaðni veggurinn sem ég sá um daginn hafi verið af upphaflegu lauginni þar sem áin braut niður steyptu laugina, bæði langvegg og botn árið 1936.  Því held ég að hér sé um að ræða frágang eftir viðgerðina á lauginni sem gerð var það ár.

En aftur bregð ég mér til ársins 1922 og helgarinnar góðu þar sem 25 menn knokluðu við að búa til sundlaug: 

Eftirfarandi er frásögn Björns J. Andréssonar af verklokum við laugina sem skráð var af dóttur hans Eddu Björnsdóttur í Goðasteini fengið héðan:

Það var hrífandi stund að horfa á volgt vatnið streyma ofan í laugina eftir tveggja daga stranga vinnu. Allur hópurinn, þeir 25 menn sem þarna höfðu staðið að verki stilltu sér upp á laugavegginn í kvöldhúminu til að njóta þess að sjá þetta sem best. Á meðan sungu allir ,,Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring”. Þegar ljóðlínur í kvæðinu ,,Hér skalt þú Ísland barni þínu vagga”, var sem magnþrunginn kraftur fylgdi hverju orði.

Laug þessi var 9 metrar að lengd og 4 til 5 metrar að breidd. Heitt vatn var leitt í hana úr heitum uppsprettum sem í hana streymdu.

Síðan að lokum um Seljavallalaug: Árið 1998 var laugin tekin í gegn og gerð upp af velunnurum hennar. Í dag er hún ein af perlum sveitarinnar.

Ég finn ekki allt ljóðið Háfjöllin eftir Steingrím Thorsteinsson á netinu. Gunnar heldur að lagið sem þetta ljóð sé sungið við sé þjóðsöng Svía, Du gamle, du fria sem hægt er að hlusta á á þessari síðu. Ég les reyndar núna á netinu að það er eitthvað bras með þennan þjóðsöng þeirra en lagið er semsagt gamalt þjóðlag.

Mér finnst það góður endir á þessari tríalógíu minni um Seljavallalaug að sjá fyrir sér þessa 25 ungu fjallamenn standa á laugabarminum og taka lagið í tilfefni þess að þeim hafði tekist með hökum og skóflum að vopni að búa til sundlaug sem í rann heitt vatn í fögrum fjallasal.

Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring

um hásumar flý ég þér að hjarta.

Ó, tak mig í faðm, minn söknuð burt ég syng

um sumarkvöld við álftavatnið bjarta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband