Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Kosningar

Þá eru kosningar framundan og frambjóðendur farnir að gefa sig fram.  Allir þeir frambjóðendur gefa á þessum hveitbrauðsdögum upp þau mál og stefnur sem viðkomandi stendur fyrir.  Það er allt gott og blessað og ekki nema gott eitt um það að segja.  Hins vegar hefur allt of oft illa farið fyrir öllum þessum góðu einstaklinsmiðuðu framboðsstefnum viðkomandi einstaklinga þegar og ef hann verður þeirra gæfu aðnjótandi að hljóta brautargengi til að setjast inn á hið háa Alþingi.  Þá taka þar við völd önnur sjónarmið og annað föruneyti en það sem var uppá teningnum í prófkjörs og kosningaslagnum.

Því þegar þú ert kominn inn fyrir dyr Alþingis sem kjörinn alþingismaður stjórnmálaflokks þá átt þú að hlýða stefnu flokksins hvað sem tautar og raular.  Hvað sem þú sem einstaklingur hafði þig í frammi í þinni kosningabaráttu, þá skiptir það engu.  Allir þeir alþingismenn sem nú sitja á þingi hafa allir sem einn verið vel brennimerktir af þessari flokkshollustu.  Eitthvað svo haltu kjafti og vertu sæt - legt að mínu mati.  Ég vona að ég sem kjósandi fái eitthvað mun betra val til að kjósa í komandi alþingiskosningum en ég hef haft síðustu kosningar.  Einnig finnst mér það vera grundvallaratriði að þeir flokkar sem bjóða sig fram til Alþingis gefi það upp í kosningabaráttunni með hvaða flokkum öðrum þeir vilji fara í stjórn.  Þetta gagna óbundinn til kosninga - bull - er eitt ógæfuspilið í spilastokk okkar lands.  Mig langar ekkert til þess að vera sífellt að kjósa einhverskonar dulbúinn framsóknarflokk.  Nei takk fyrir.  


Ráð í atvinnuleysi

Nú er vetur í bæ og atvinnuleysistölurnar vaxa hratt á hverjum degi.  Þetta er ekki gott, þetta er mjög slæmt.  Verst að nú virðist atvinnuleysið ætla að bíta á okkur Íslendingum en þegar kreppan hóf göngu sína hér á Íslandi í haust þá voru vonir manna bundnir við það að atvinnuleysið kæmi helst niður á erlendu vinnuafli sem væri tímabundið staðsett hér á klakanum og myndi snarlega snautast í burtu við fyrsta hanagal.  Vér Íslendingar áttum ekki að finna eins mikið fyrir atvinnuleysisvofunni.  Nú er annað komið á daginn og alls ekki fyrirséð hvernig hægt verður að bjarga málum.  Nema náttúrulega með því að fólk flytjist af landi brott og reyni fyrir sér á erlendri grundu.  Slíkur fólksflótti er þegar hafinn, ég veit um nokkra sem eru þegar farnir, Kanada kemur sterkt inn og eins eru menn að fara til Noregs.  Bara svona ef þið vissuð það ekki og haldið að menn séu bara að ljúga til um fólksflótta frá Íslandi.

Á vef Vinnumálastofnunar eru gefnar upp nýjustu tölur um fjölda atvinnulausra í landinu.  Í dag er talan 14.724.  Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hægt er að gera í þessu árferði.  Vissulega er gott mál að styrkja skólana og eins að styrkja ýmsar framleiðslugreinar.  Einnig mætti koma á ýmsu starfsnámi og/eða styrkja fólk til vinnu hjá fyrirtækjum eða í framleiðslugreinum.  Til dæmis tel ég  það væri mjög gott mál ef komið yrði á fót starfsnámi í Alþingi Íslendinga fyrir fólk sem er atvinnulaust.  Þannig væri hægt að auka fjöldann sem væri starfandi við húsið, menn lærðu að búa til frumvarp og annað, svo og fengið reynslu í því að standa í ræðustól Alþingis.  Kannski gæti fólk sem væri í starfsnámi á Alþingi síðan komið einhverju að sem gagn væri aldrei að vita.  Mér hefur líka fundist eins og það fólks sem starfar á Alþingi sé í einhverjum öðrum heimi en við hinir Íslendingarnir og ef rennerí væri af venjulegu fólki í starfsnámi á Alþingi þá væri kannski möguleiki á því að Alþingismenn gætu gert sér betur grein fyrir því en nú hvernig lífið gengur fyrir sig fyrir utan múra Alþingishússins. Þannig að ég get ekkert séð nema jákvætt við það að koma á starfsnámi á Alþingi Íslendinga fyrir fólk í atvinnuleit.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband