Færsluflokkur: Í umræðunni

Vegbúi

Ég og við höfum verið miklir vegbúar þessu síðustu tíma.  Höfum brunað fram og tilbaka um landið þvers og kruss, lengst farið suður að Skógum og austur í Borgarfjörð eystra.  Annars keyrt mest norður og suður aftur og aftur eins og gengur hjá okkur. 

Vorum að koma suður í dag eftir stuttann skrepp á Krók þar sem foreldrarnir komu úr berjamó með 8 lítra af svörtum aðalbláberjum.  Mikil berjaspretta í Skagafirðinum.  Fórum síðan áfram í Dalinn væna og týndum þar einnig ber en ég held að berjasprettan þar sé ekki alveg komin eins langt og í Skagafirði.  Það var kaldara vorið held ég og snjórinn lengur í dalnum.  En það er alveg hægt að týna og við komum heim með þrjá til fjóra lítra.

Við kíktum aðeins á Fiskidaginn mikla niðrá Dalvík í dag áður en við brunuðum hingað suður.  Á Dalvík var múgur og margmenni og mikið um að vera, þetta er annað sinn sem við förum á Fiskidaginn og það virðist alltaf vera sól og fallegt veður á þessum degi.  Uppá sviði var nýr kvennakór hjá þeim á Dalvík ég man því miður ekki nafnið á kórnum en þær sungu nokkur lög og mér leist bara bærilega á þær.  Fyrsta lagið þeirra var Vegbúinn eftir K.K.


Seglagerðin Ægir

Ég varð hálf spæld í útilegunni okkar um daginn.  Tjaldið mitt, sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf frá krökkunum í háskólabekknum mínum var bilað.  Við höfðum ekki tjaldað tjaldinu í tvö ár þegar við fórum í útileguna um daginn.  Þegar við vorum búin að tjalda og ég ætlaði að renna upp rennilásnum á ytra tjaldinu þá kom í ljós að hann var bilaður.  Ég tosaði og tosaði og endaði sá tosugangur hjá mér með því að ég sleit rennilásinn.  Við höfðum verið svo heppin að tjalda rétt miðað við vindátt þannig að það kom ekki að sök um nóttina þótt tjaldið væri opið.  En ég var spæld yfir því að fína hústjaldið mitt sem er búið að þjóna okkur dyggilega í tólf ár væri etv. orðið ónýtt. 

Ég fór í könnunarleiðangur um tjöldin hjá krökkunum um daginn og komst að því að ef ég ætlaði að fá mér 5-6 manna braggatjald kostaði slíkt tjald u.þ.b. 50 þúsund krónur.  Mér leist í raun mjög vel á þessi nýju tjöld sem eru fáanleg á markaðnum núna en var samt spæld yfir því að gamla góða hústjaldið mitt úr tjalddúk og alles frá Tékklandi að ég held væri etv. ónýtt.

Strax á mánudaginn var fyrir viku síðan þegar heim var komið með bilaða tjaldið hringdi ég í Seglagerðina Ægi og spurðist fyrir um það hvort þar væri gert við rennilása í hústjöldum.  Stúlkan í símanum hélt nú það þannig að ég dreif tjaldið þangað í viðgerð.  Ég náði síðan í tjaldið mitt út viðgerðinni í gær - kominn nýr flottur hvítur rennilás á gamla góða þunga hústjaldið mitt og viðgerðin kostaði aðeins þrjú þúsund krónur.  Mér finnst það vel sloppið fyrir að taka langan bilaðan rennilás úr, og sauma nýjan fínan langan rennilás í tjaldið aftur með tvöföldum saum og mjög góðum frágangi. 


Af morðum

Í gær bárust fréttir af því að 31 árs dönsk kona hafði verið drepin í Pakistan fyrir tveimur vikum síðan.  Mágur hennar hafði skotið hana til bana því hún hafði óhlýðnast honum.  Konan var tveggja barna móðir en maður hennar var í Danmörku en hún í Pakistan.  Ég las í íslensku fréttamiðlunum í gær að morð konunnar var nefnt heiðursmorð.  Ég sé núna í morgunsárið að í Morgunblaðinu er morðið nefnt sæmdarmorð.  Ég get ekki að því gert að mér finnst þetta ekki rétt orðnotkun þar sem ég get ekki tengd þennan verknað nokkrum heiðri né sæmd.  Mér finnst réttara að segja frá þessu morði með þeim hætti að konan hafi verið myrt af mági sínum.  Ástæða þess að hann myrti konuna var sú að hún var honum ekki nógu hlýðin að hans mati.  Enginn heiður né nokkur sæmd sem viðkemur þessu morði.   

Hrefna og hnísa

Ég man eftir því sem krakki á Húsavík að stundum kom fyrir að bátar komu til hafnar með hrefnu fasta við síðuna og þá var maður sendur niðrá bryggju.  Þegar þangað kom var handagangur í öskjunni, hrefnan komin uppá bryggju og tveir eða þrír kallar sem mynduðu kuta, skáru kjötið af hrefnunni og létu þá sem vildu fá kjötbita.  Ég man eftir því þegar ég var fyrst send niðreftir, ég hef verið eitthvað 5 ára eða svo og þá var ég fyrst spurð hverra manna ég væri og þegar ég hafði svarað því til þá fékk ég bitann afgreiddann.  Mamma steikti síðan hrefnukjötið á pönnu og mér fannst og finnst hrefnukjöt gott.  Ég held endilega að stundum einnig fengist hnísukjöt á Húsavíkinni og það sé líka ágætt. 

Ég var að skoða núna á netinu upplýsingar sem finnast þar um hvali og rakst m.a. á skemmtilega síðu www.nordurskodun.is en þar er m.a. að finna þessa síðu sem sýnir hvali sem hægt er að finna á Skjálfandaflóa.  Þar sér maður vel stærðarmuninn á hvölunum.  Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að hnísan er svona lítil, hún er bara smá, smá, smá hvalur.  

Samkvæmt upplýsingum á ensku wikipediu telja Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin að hrefnustofninn sé í þó nokkurri hættu.  Hér vildi ég gjarnan geta hringt í hann Gísla Víkings til að fá upplýsingar um áætlaða stofnstærð okkar hrefnustofnsins.  Einnig vantar mig tilfinnalega upplýsingar um hnísuna - hvað ætli hnísan heitii á ensku?  Það er allavega ekki til íslensk síða á wikipediu um hnísuna og ég kemst því ekki lengra með þessar hrefnu og hnísupælingar mínar að sinni. 

Varðandi veiðar á hrefnu og hrefnuveiðikóta þá er ég er meðfylgjandi því að við nýtum hlunnindi lands og miða en það þarf að meta þá möguleika á nýtingu miðað við ástand á stofnum og aðra hagsmuni.  Það getur t.d. engan veginn passað saman að stunda hvalveiðar á sömu stöðum  og verið er að selja fólki ferðir til að skoða hvali í sínu náttúrulega umhverfi.   


Í boltanum

Ég las þessa mannlýsingu nú í morgun.  Með klikkað keppnisskap og gríðarlegan metnað.  Nú hef ég ekkert á móti því að menn hafi keppnisskap og metnað og séu á fullu í boltanum.  Hins vegar er ér ég löngu orðin dauðþreytt á þessu keppnisskapmenntaliteti og íþróttahugarfari sem margir hverjir hafa fært yfir á almenn samskipti fólks í leik og starfi.   

Það er aðalmálið í íþróttaleik að vinna leikinn og vera bestur en það er ekkert verra að að hafa gaman af því að spila leikinn.  Það getur líka skipt mann sjálfan máli sem persónu að vita það að maður hafi rétt við og fari eftir reglunum en hafi ekki brotið viljandi á einhverjum og komist upp með það.  Mér finnst hins vegar lífið sjálft vera flóknara fyrirbæri en íþróttaleikur þó mér sýnist að allt of margir séu haldnir þeirri blindu að telja sig vera í einum allsherjar eilífum íþróttaleik.  Það er varasamt að hugsa bara um það að ,,vera bestur" komast á toppinn, halda með sínu liði og að enginn sé annars bróðir í leik - nó matter what.  Í íþróttaleikjunum er mikið um tæklingar sem geta verið varasamar og ég fæ ekki betur séð en þessi eilífi íþróttakappleikur sé farinn að taka sinn toll í samfélaginu og fólk liggi misbrotið og tognað út um víðan völl.  Mér hefur alltaf fundist gaman af íþróttum og styð þær heils hugar.  Hins vegar væri óskandi að menn hefðu þroska til þess að sjá hvenær hægt er að yfirfara íþróttandann með sínu klikkaða keppinsskapi og gríðarlega metnað yfir í lífið og tilveruna sjálfa og hvenær ekki. 


Þorrablót

jonshusÉg hef engan áhuga á Þorrablótum.  Mér finnst matur sá sem er borinn á borð á slíkum samkomum vondur og sé því ekki tilgang í því að fara mæta í slíkar matarveislur.  Ég hef reyndar farið á eitt skemmtilegt Þorrablót.  Það var í Jónshúsi einhvern tímann á hinni öldinni þegar ég var að nema í Kóngsins Kaupmannahöfn.  Þá var okkur Íslendingunum sem höfðu áhuga á að mæta á Þorrablótið troðið inní salinn í Jónshúsi og var svo sannalega þétt setinn bekkurinn.  Ég man að þrengslin voru slík að erfitt var að komast að matarborðinu og yfirleitt að hreyfa sig eitthvað úr stað.  Það er kannski þess vegna sem þetta var svona skemmtilegt?  Árið eftir var breytt til og blótið haft í sal út í bæ þar sem var nóg pláss.  Það var ekki nándar eins skemmtilegt og hef ég lítið eða bara ekkert mætt á slíkar samkomur síðan. 

Að giska á

Mikil umræða er núna um starfsheiti og normalíseringum á þeim og litavali á fatnað barna.  Þetta með bleikt fyrir stelpur og blátt fyrir stráka er ekki alheimslögmál heldur staðbundið og ég held að það sé t.d. í Frakklandi þar sem litlar stelpur eru hafðar í bláu en stákarnir í bleiku.  Það er eitt atriði varðandi blessuð börnin sem maður hittir með foreldrum sínum út á götu eða í búðinni og börnin eru á fyrsta og öðru ári  - þar getur verið mjög erfitt sjá það út hvort um stelpu eða strák er að ræða.  Ég hef lent í því að hafa giskað vittlaust á kyn barns og það hefur ekki verið neitt sérstaklega vinsælt hjá foreldrunum. Mér hefur fundist það leitt að móðgja fólk með því að halda að strákurinn þeirra sé stelpa eða öfugt og hef ég enga löngun til þess að valda því hugarangri yfir því að barnið þeirra sé ekki nógu mikið í sitt kyn að það sé ekki hægt að sjá það strax.  Því er ég hokin af reynslu löngu hætt að giska á kyn barna, eins og ég er löngu hætt að giska á aldur fólks.  Ég harðneita að taka þátt í slíku þó að mér sé hart gengið.  Nógu mikið móðga ég fólk vitandi vits og óvart þó ég bæti ekki ekki þvílíku giski við.

Auglýsingar um uppboð á fasteignum í blöðunum

Ég hef einmitt tekið eftir því að mér finnst vera meira áberandi en áður aulýsingar um uppboð á fasteignum í blöðunum.  Ég er allavega farin að taka eftir þeim sem ég gerði ekki áður -

 


mbl.is Heimili þriggja fjölskyldna á uppboð í hverri viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkarekinn leikskóli

Árið 1991 var stelpan mín á þriðja ári, ég var að vinna í Menntamálaráðuneytinu, Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar og Davíð Oddsson var borgarstjóri Reykjavíkur.  Við foreldrarnir sóttum um leikskólapláss fyrir dóttur okkar og fengum það svar frá Reykjavíkurborg að við gætum fengið vistun frá kl. 8 - 12 á leikskóla sem var í öðrum borgarhluta en við bjuggum í.  Þar sem þetta tilboð Reykjavíkurborgar hentað okkur ekki var prinsessan sett í leikskóla Ananda Marga sem heitir Sælukot.  Þar dvaldi hún í góðu yfirlæti þar til hún varð fimm ára en þá gat hún fengið leikskólavist hálfan dag á leikskólanum Leikgarði sem var í nágrenni okkar. 

Við nokkrir foreldrar í stjórnarráðinu tókum okkur til og settum fram tillögur um einkarekinn leikskóla fyrir starfsmenn stjórnarráðsins en einhverjir slíkir voru þá í rekstri t.d. hjá læknafélaginu og einnig hjá starsmönnum rannsóknastofnana ríkisins uppí Keldnaholti.  Á þessum tíma ráku líka spítalarnir leikskóla fyrir sína starfsmenn.

Tillögum okkar og hugmyndum var fagmannlega vísað út af borðinu af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins.  Þeir einkareknu leikskólar sem á þessum tíma voru til eru það ekki lengur.  Nema Sælukot.  

 

 


Að hafa vit fyrir fólki

Þetta finnst mér áhugaverð lesning.  Það er þetta með að hvetja fólk til hins og þessa.  Þegar upp er staðið er síðan svarið alltaf, það var enginn sem neyddi þig til að gera hitt og þetta, þú gerðir það sjálfur. 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband