Færsluflokkur: Bækur

Mamma og tölvan

Mamma er hörku tölvari. Hún er samt alltaf dálítið hrædd við tölvuna aðallega að hún skemmi eitthvað í henni. Því þarf ég alltaf að kenna henni hlutina í áföngum fyrst þetta svo hitt. Nú er ég að kenna henni að nota usb lykil. Henni líst bara vel á það en er samt dálítið smeik eins og vanalega þegar um eitthvað nýtt tölvutækniundur er að ræða. En það endar alltaf með því að hún nær þessu sú aldraða eins og pabbi kallar hana stundum. Mamma er komin með mikið af myndum inná tölvuna sem ég tel að væri mjög gott fyrir hana að setja inná usb lykil bæði sem vara geymslu og einnig til að spara tölvupláss. En það veitir ekki af að passa uppá myndirnar því pabbi er svoddan skaðræði ef hann kemst í ham í tölvunni þá á hann það til að hreinsa út hitt og þetta og breyta stillingum í tölvunni og ég veit ekki hvað og hvað. Sem þau finna svo ekkert út úr með hvernig á að laga til baka.

Afmælisbörn

Ég á afmæli í dag og ákvað núna rétt áðan að blogga afmælisblogg í tilefni dagsins. Sá í Fréttablaðinu í morgun að þýski leikarinn Bruno Ganz á einnig afmæli í dag.

Ég fór til Nurnberg fyrir tæpum tveimur árum og datt þá í töluverða Hitlers og nasistatímapælingar. Það var auðvitað út af staðnum Nurnberg sem var þeirra höfuðvígi. Einn daginn fór ég í skoðunarferð um Nurnberg og nágrenni. Í þeirri skoðunarferð var ég eini útlendingurinn allir hinir í um 60 manna hóp voru þjóðverjar. Ég átti ekki von á þessu þar sem ég var á alþjóðlegri ráðstefnu og hélt að fleiri útlendingar yrðu með í þessari skoðunarferð. Ég ákvað að láta á engu bera og þykjast alveg skilja þýskuna þótt það sé eldgömul svona og svona menntaskólakunnátta sem ég hef á því tungumáli.

Þegar líða tók að hádegi þá voru þjóðverjarnir farnir að uppgötva að það voru ekki bara þjóðverjar í ferðinni heldur væri einnig með í för einn lítill Íslendingur. Ég var töluvert hissa á því hvað þjóðverjarnir voru spenntir fyrir því að hitta fyrir Íslending og voru áfjáðir í það að fá skoða slíkan grip í návígi. Þarna voru m.a. hjón frá Hamborg og sagði konan við mig að hana hefði alltaf langað að hitta Íslending og hún hefði oft verið að spá í það þegar hún var um borð í flugvélum á ferðalögum erlendis að etv. væri Íslendingur um borð í vélinni. Og svo færi hún í skoðunarferð um Nurnberg og sæti þá allt í einu við hliðina á Íslendingi við hádegismatarborð.

Ég varð að játa að öll þessi athygli og þessar Íslendingapælingar þeirra þjóðverja sem voru í skoðunarferðinni þennan dag kom mér mjög á óvart. Ég reyndi mitt besta að gera þjóð minni gott til og að skemma eins lítið og mér var unnt fyrir þeim góðu og etv. smá ídaliseruðu hugmyndum sem þjóðverjarnir höfðu um Íslendinga.

Ég var orðin uppgefin þegar ég komst loks heim á hótelherbergi um kvöldið og kveiki á sjónvarpinu. Þar var þá staddur hann Bruno Ganz, sem á þá semsagt sama afmælisdag og ég og var að leika hann Hitler í myndinni Der Untergang. Ég tók þá ákvörðun þar sem ég væri orðin svo gegnsýrð af þýsku þá gæti ég alveg bætt við mig eins og einni þýskri bíómynd. Ég er síðan staföst í þeirri trú minni að þessi rúmlega hálfi þýski sólahringur hafi bætt heilmiklu við þýskukunnáttu mína og þá aðalega skilning minn á talaðri þýsku. Hvort ég skil hið talaða þýska orð rétt eður ei - det er et andet sporgsmal.


Bókin

Við fórum um daginn í bókabúð að skila bók og hafði ég aðallega áhuga á því að fá mér fulgabók í staðinn fyrir ,,auka" jólabókina sem hafði áskotnaðst fjölskyldunni um jólin.  Þar sem við erum að skoða úrvalið á staðnum þá er sonurinn allt í einu dottinn í bók við eitt borðið og er í vandræðum með að hlægja ekki upphátt.  Móðurinni leist svona og svona á þessa tilteknu jólabókalesningu og við skunduðum heim með fræðibækur sem voru móðurinni að skapi.

Bókin í bókabúðinni vakti aftur á móti svo mikinn áhuga hjá drengnum að hann óskaði sérstaklega eftir því seinna að við keyptum handa honum þessa tilteknu bók.  Í Smáralind í gær þá spurðumst við fyrir um hana í Pennanum og komumst að því að hún var uppseld í Pennanum í Smáralind, þrjár voru eftir niðrí Austurstræti og sjö í Pennanum í Hallamúla.  Þarna virðist því vera mikið raritet í uppsiglingu.  En okkur tókst að lokum að kaupa síðasta eintakið í Office 1. 

Seint í gærkvöldi var ég vakin upp af værum blundi við hlátur yngri kynslóðarinnar hér á bænum.  Það var bersýnilegt að hinn ískaldi húmor Hugleiks Dagsonar höfðaði til þeirra.  Bókin virðist svo sannalega vera þeim að skapi. 


Doris Lessing og Nóbelsverðlaunin

Mér finnst Doris Lessing ágætur rithöfundur  og var nokkuð dugleg að lesa hana á árum áður.  Ég las hana alltaf á ensku, heyrði reyndar í fréttunum áðan að eitthvað hefur verið þýtt af bókum hennar á íslensku.  Hún hefur mjög sérstakan húmor hún Doris Lessing og hefur til dæmis ekki verið of hrifin af því ef henni þegar hún hefur verið skipuð í flokk hingað og þangað.  Dálítið svona ég á mig sjálf kona.  Það var mjög gaman að sjá hana í sjónvarpinu áðan að tala við fjölmiðlafólk um Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2007. Dálítið fyndið að hún sé einn elsti verðlaunahafi Nóbelsverðlaunasögunnar.  Enda sagði hún að það væri að öllum líkindum ástæðan fyrir því að hún hefði hlotið hnossið í þetta sinn.  Dómnefndin hefði haft fyrir framan sig nöfn nokkurra kandídata fyrir verðlaunin og hún orðið fyrir valinu vegna þess að hún gæti hrokkið uppaf áður en næstu Nóbelsverðlaun verða veitt.  Doris virðist sæmilega spræk til heilsunnar að sjá og ljóst er að toppstykkið hjá henni er enn í góðu lagi.  Til hamingju með Nóbelinn Doris.

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband