Færsluflokkur: Menning og listir

Myrki riddarinn

Við fórum á kvikmyndina um myrka riddarann í gær. Mér fannst hún nokkuð góð.  Það sem mér fannst draga myndina niður var:

Of mikið ofbeldi

Röddinn í batmann

Lengd myndarinnar

Andlitið á two face.  Þótt þetta sé mikil fantasía þá var dálítið of mikið að hafa andlitið á honum svona illa farið öðru meginn.  Hvernig er hægt að anda með nefinu ef það er bara hálft???

Það sem mér fannst gott við myndina var helst:

Umgerðin öll mjög flott, settið, brellur og notkun tónlistar

Gott handrit, nokkuð góðar pælingar hist og her t.d. hjá joker

Leikur í myndinni yfirleitt góður

Einkunn 8.

 


Útúrdúr

er lítil mjög skemmtileg bókaverslun á Njálsgötunni.  Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir voru í gær með opið hús í Útúrdúr í tilefni af því að þau hafa sett hluta af sýningunni Greinasafn sem þau voru með í Safnasafninu á Svalbarðsströnd upp í bókabúðinni.  Einnig voru þau að kynna útkomu bókverksins Greinasafns.  Svona kynnti Anna Líndal þennan viðburð í tölvupósti sem ég fékk frá henni:

- FJÖLFELDIN HEIM - loksins í útúrdúr!

Greinasafn / Branch Collection, bókverk eftir Önnu Líndal, Bjarka Bragason og Hildigunni Birgisdóttur kom út núna í sumar þegar sýningin Greinasafn opnaði í Safnasafninu. Bókin er 56 síður og sækir formið í biblíumyndabækur. Í verkinu er ferli sýningarinnar frá hugmynd að fullmótaðri sýningu rakið í máli og myndum. Hugarheimum Greinasafnsins eru gerð góð skil og í bókinni kristallast grunnþættir sýningarinnar; söfnun, rannsóknir, og það flæði sem slíkt myndar og myndast í. Í útúrdúr verða einnig fjöldi fjölfelda sem voru stór hluti af sýningunni í Safnasafninu.

Ég fór sólskininu í gær á kynninguna í Útúrdúr.  Það eru fínar pælingar hjá listafólkinu, Hildigunnur er með þúfuspegúlasjónir sem mér fannst skemmtilegar, Bjarki var m.a. með nýja sýn á Káranhjúkadæmið og Anna Líndal var með fjölfeldispælingu sem mér fannst flottar.  Hún var með fjölfeldi af tvinnakeflum með vafinni nál á sem mér finnst minna mig á kólibrífugl á kefli sem ég varð mjög hrifin af og gæti hugsað mér að eignast.  Ég er mjög hrifin af verkum Önnu Líndal og á eina mynd eftir hana.  Einnig leist mér vel á þúfustimpilinn hennar Hildigunnar og prufusettið af Kárahnjúkum eftir Bjarka.  Í þetta sinn keypti ég bara eitt eintak af bókinni Greinasafni eftir þau þrjú og hélt síðan heim í yndislegum síðdegisgróðraskúr.

 


Niðurstaða

Þá er komð að þriðja og síðasta kaflanaum í þessum þríleik mínum um Seljavallalaug.  Mér finnst ólíklegt að hlaðni veggurinn sem ég sá um daginn hafi verið af upphaflegu lauginni þar sem áin braut niður steyptu laugina, bæði langvegg og botn árið 1936.  Því held ég að hér sé um að ræða frágang eftir viðgerðina á lauginni sem gerð var það ár.

En aftur bregð ég mér til ársins 1922 og helgarinnar góðu þar sem 25 menn knokluðu við að búa til sundlaug: 

Eftirfarandi er frásögn Björns J. Andréssonar af verklokum við laugina sem skráð var af dóttur hans Eddu Björnsdóttur í Goðasteini fengið héðan:

Það var hrífandi stund að horfa á volgt vatnið streyma ofan í laugina eftir tveggja daga stranga vinnu. Allur hópurinn, þeir 25 menn sem þarna höfðu staðið að verki stilltu sér upp á laugavegginn í kvöldhúminu til að njóta þess að sjá þetta sem best. Á meðan sungu allir ,,Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring”. Þegar ljóðlínur í kvæðinu ,,Hér skalt þú Ísland barni þínu vagga”, var sem magnþrunginn kraftur fylgdi hverju orði.

Laug þessi var 9 metrar að lengd og 4 til 5 metrar að breidd. Heitt vatn var leitt í hana úr heitum uppsprettum sem í hana streymdu.

Síðan að lokum um Seljavallalaug: Árið 1998 var laugin tekin í gegn og gerð upp af velunnurum hennar. Í dag er hún ein af perlum sveitarinnar.

Ég finn ekki allt ljóðið Háfjöllin eftir Steingrím Thorsteinsson á netinu. Gunnar heldur að lagið sem þetta ljóð sé sungið við sé þjóðsöng Svía, Du gamle, du fria sem hægt er að hlusta á á þessari síðu. Ég les reyndar núna á netinu að það er eitthvað bras með þennan þjóðsöng þeirra en lagið er semsagt gamalt þjóðlag.

Mér finnst það góður endir á þessari tríalógíu minni um Seljavallalaug að sjá fyrir sér þessa 25 ungu fjallamenn standa á laugabarminum og taka lagið í tilfefni þess að þeim hafði tekist með hökum og skóflum að vopni að búa til sundlaug sem í rann heitt vatn í fögrum fjallasal.

Þú bláfjallageimur með heiðjöklahring

um hásumar flý ég þér að hjarta.

Ó, tak mig í faðm, minn söknuð burt ég syng

um sumarkvöld við álftavatnið bjarta.


Seljavallalaug taka tvö

Það kom mér mjög á óvart að lesa um hvernig staðið var að ákvörðun og framkvæmd við uppbyggingu Seljavallalaugar en fyrsta laugin varð til á einni helgi seinni part sumars árið 1922.  Reyndar var aðeins um jarðvegsframkvæmd að ræða þarna fyrsta kastið og Seljavallalaug var útbúin úr hlöðnu grjóti og þakin að innan með torfi.  Samkvæmt greininni góðu í Morgunblaðinu eftir Jón Á. Gissurarson sem ég hef verið að endursegja hér á þessu bloggi þá var einn hængur á þeirri laug, erfitt var að sjá ofaní laugina, vatnið og laugin urðu svo samlit.  Einn piltur var nær dauða en lífi í lauginni en sundkennarinn var nokkra stund að finna hann.  Einnig þótti augljóst að laugin myndi ekki standast ágang árinnar.  Því var tekin sú ákvörðun að steypa laugina.  En áfram úr greininni um Seljavallalaug:

Næstu viku var sund kennt með litlum hvíldum frá morgni til kvölds. Til þess að nýta tímann sem best var legið við í tjöldum en þau áttu bændur þeir sem um langan engjaveg höfðu. Eftir vikunámskeið voru allir syndir.Að loknu sundnámskeiði stofnuðu þátttakendur ungmennafélag.

Sýnt þótti að þessi laug yrði ekki til frambúðar. Laugará myndi tæta hana í sig í vatnavöxtum. Fyrsta samþykkt hins nýja ungmennafélags var að reisa steinsteypta laug. Nú dugði sjálfboðaliðsvinna ekki ein. Fé þurfti fyrir efniskaupum. Menn skiptust á að leita samskota í sveitinni. Varð þeim vel ágengt. Vorið 1923 var sement fengið beint úr millilandaskipi við Vestmannaeyjar um borð í mótorbát. Hann flutti sementið upp að sandinum endurgjaldslaust.

Reis svo sundlaug frá grunni. Hún er 25 metrar að lengd, lengsta laug landsins þá. Annar langveggur er bergið en gaflar, gólf og hinn langveggur úr steypu. Sundnámskeið voru haldin komandi ár. Brátt fóru stúlkur að læra sund, svo og fullnaðarprófsbörn. Austur-Eyjafjöll munu fyrst fræðsluhéraða landsins hafa notað heimild í lögum til að gera sund að skyldunámi. Þessi þjú héröð notuðu sér sömu heimild um líkt leyti: Vestmannaeyjar, Svarfaðardalur og Reykjavík

Nágrannasveitir sendu börnin sín að Seljavöllum til sundnáms. Fram til 1957 var skólabörnum kennt í Seljavallalaug, en þá fluttist það í nýja laug í Skógarskóla. Í september 1936 gerir afspyrnuveður um land allt með óhemju vatnavöxtum undir Eyjafjöllum. Í hamförum þessum rauf Laugará langvegg Seljavallalaugar og gólf svo eftir stóðu gaflar einir nýtilegir. Skjótt var brugðið við sementið sótt . Ójöfnu var saman að jafna um flutninga og 1923, Markafljót brúað og bílfært alla leið. Laugin komst upp um haustið. Menn voru reynslunni ríkari og gengu svo tryggilega frá, að Seljavallalaug hefur staðið af sér allar hamfarir til þessa dags.

Einu upplýsingarnar sem mér finnst vanta er um byggingu hússins, þe. búningsklefanna.  Ég finn ekkert um hvenær þeir hafa verið byggðir, dettur í hug hvort það hafi verið árið 1936 þegar laugin var endurbyggð eftir skemmdirnar í vatnavöxtunum?  En þetta er flott frásögn um útsjónasamt fólk og harðduglegt og sýnir okkur hverju samtakamátturinn getur áorkað.


Seljavallalaug

seljavallalaug.gif

 Ég var í útilegu undir Eyjafjöllum um helgina.  Við fórum í skoðanaferðir í frábæru veðri og m.a. fórum við og skoðuðum Seljavallalaug.  Ég er soddan norðlendingur og er svo lítið á Suðurlandi að ég vissi voða lítið um þessa merkilegu laug.  Við fengum ágætis leiðarvísi að lauginni og vorum svo heppin að það var hópur á leiðinni á undan okkur sem við eltum.  Ef við hefðum ekki haft þau til leiðsagnar þá hefði ég að öllum líkindum snúið við.  Bæði fannst mér lengra að lauginni en ég átti von á frá bílastæðunum og einnig fannst mér leiðin frekar óskýr.  Ég hefði einhvernveginn haldið að það væri kominn meiri troðningur eða stígur að þessari laug.  En hvað veit ég svo sem norðlendingurinn.  Jæja við komumst nú loks að lauginni sem átti að vera lokuð held ég en ofaní og í kring um hana var fullt af fólki í blíðskaparveðri og allt gott með það.  Mér finnst hún frábær þessi laug og var að skoða mannvirkið náttúrulega.  Þá tók ég eftir því að aðeins fyrir neðan laugaveggin var eins og hlaðinn grjótveggur.  Ég fór að spá í það hvort hefði verið gerð hlaðin laug þarna áður en þessi sem nú er var steypt.  

Ég tók mig síðan til eftir að ég kom heim og náði mér í eftirfarandi fróðleik á netinu um þessa laug Seljavallalaug.  Að mestu leiti er þessi fróðleikur stytt endursögn mín úr þessari grein eftir Jón A. Gissurarson um Seljavallalaug, sem  birtist í lesbók Morgunblaðsins 24. apríl 1982.

Í upphafi þessarar aldar voru Eyfellingar allir ósyntir og mun svo hafa verið frá örófi alda. Eyfellingum hefði þó verið ærin nauðsyn að vera syndir. Sjósókn var önnur lífsbjörg fjallamanna, ýmist frá söndum eða úr útverum. Sagnir voru um sjóslys, oftast uppi í landsteinum við útróður og lendingu. Fáein sundtök hefðu oft getað skilið milli feigs og ófeigs. Fráleitt hefðu þessir 27 Austur – Eyfellingar drukknað 1901 rétt upp í landsteinum við Vestmannaeyjar ef syndir hefðu verið.

Haustið 1922 varð breyting hér á. Flestir ungir menn undir Austur-Eyjafjöllum urðu syndir og það á einni viku. Nú var hægt að læra að synda í heitri laug við Seljavelli. Hvatamaður að sundlaugarbyggingu og kennari var Björn Andrésson í Berjaneskoti. Í sláttulok árið 1922 var Björn kominn heim og hugsaði sér til hreyfings. Hann fékk Ólaf Pálsson í Þorvaldseyri í lið með sér í Laugarárgil til þess að meta aðstæður hvort gerlegt væri að búa til sundlaug þar. Þetta var föstudaginn í 23ju viku sumars. Rétt fyrir innan þar sem heitt vatn vellur fram úr hamravegg skagar berggangur út í gilið en í skjóli hans hefur hlaðist upp stórgrýtt eyri. Ekki nær hún alla leið að laugaopum, þar undir svarrar áin bergið með fullum þunga. Birni og Ólafi sýndist grafa mætti fyrir laug í eyrinni og veita heitu vatni í hana í stokkum. Af sinni alkunnu bjartsýni virtist Ólafi það gerlegt á einum degi fengjust allir strákarnir í sveitinni yfir fermingu til þess.

Í bítið næsta laugardag voru 25 komnir inn í Laugarárgil vopnaðir skóflum, hökum, jarnkörlum og hjólbörum. Þótt sleitulaust væri unnið daglangt skall á myrkur áður en verki var lokið. Menn voru þreyttir og vonsviknir. Kurr kom í liðið. Ýmsir töldu best að láta við svo búið standa og aðhæfast ekki meir. Þá talaði Björn til hópsins að ég ætla orðrétt: Húsbændur ykkar hafa gefið ykkur heilan vinnudag frí. Á morgun er sunnudagur og þið sjálfráðir gerðum ykkar. Þið væruð lyddur einar ef þið nenntuð ekki að ljúka verkinu á morgun. Þetta hreif. Daginn eftir var sundlaugarbyggingu lokið og heitu vatni veitt í hana.  

Áframhald seinna.


Ferskeytla frá heimsóknarvini

Ég hef ekki verið mjög upptekin af því að reyna að eignast bloggvini á þessu bloggi mínu né verið virk á blogginu í því að setja athugasemdir hjá öðrum bloggurum.  En nú hef ég eignast heimsóknarvin bloggsins sem er alveg ný vídd í blogginu hjá mér.  Heimsóknarvinurinn bloggar ekki sjálfur né sendir inn athugasemdir en hann sendi mér þessa vísu í gærdag:

Mikið er það starf og strit

stendur orðlaus þjóðin.

Ljómar af þeim list og vit

lesa Skólaljóðin.

Sumir vinir og vandamenn geta etv. haft einhvern grun um hver heimsóknarvinurinn er.  Ég vona bara að hann verði duglegur að senda mér vísur, þó að þingið sé farið heim og jörðin skjálfi á Ísalandi. 


Húbert Nói

hubert-noi

 opnaði sýninguna Geometria í Gallerý Turpintine, Ingólfsstræti í gær.  Ég er hrifin af myndunum hans Húberts Nóa, finnst þær mjög flottar og hafa yfir sér einhverja innri ró.  Mér finnst  sérstaklega flottar myndirnar hans þar sem kemur eins og lýsing innan úr myndunum, skil ekki almennilega hvernig hann fer að því. 

Á þessari sýningu núna er líka vídeóverk af borholum og reyk úr borholum sem var mjög flott og dáleiðandi.  Mæli með þessari sýningu hjá Húbert Nóa, en hún verður opin til 17. júní .  


Pabbi og tæknin

Picture 008Pabbi minn málar vatnslitamyndir og semur ljóð sem hann setur á myndirnar.  Hann gaf mér í jólagjöf myndina sem ég set hér inn að gamni þó myndartakan hafi ekki tekist sem skyldi með þessu flassljósi sem kemur á myndina.  Myndin er af Tindastól og á henni er síðan þessi vísa:

 

 

Tindastóll áfram eins og þú sérð,

óbreyttur getur staðið.

Þessvegna líka ég vanda verð

vísuna mína á blaðið.

 Myndirnar hans pabba eru mjög fínar að mínu mati og aðrir eru mér sammála.  Pabba finnst best að mála myndirnar úti í náttúrunni þar sem litir, birta og skuggar eru beint í æð.  En það hefur ekkert viðrað sérlega vel til útivatnslitamálunar í Skagafirðinum upp á síðkastið.  En nú hefur karl faðir minn tekið tæknina í sína þágu.  Hann fer út með nýju digitalmyndavélina hennar mömmu og finnur góðan stað í firðinum Skaga með málaravænu útsýni.  Byrjar á því að mynda og mynda og að myndatöku lokinni þá er hægt að byrja á myndinni á staðnum ef veður leyfir.  Síðan er haldið heim á Krókinn og myndirnar hlaðnar inní tölvuna.  Þá getur listmálarinn séð mótívið í tölvunni og haldið áfram með myndina í stað þess að reyna að klára hana eftir minni.  Tóm snilld segir faðir minn.  


Peysufatadagur

upphluturKvennaskólans í Reykjavík er í dag.  Dansfélagi dótturinnar kom og náði í hana kl. átta í morgun.  Elinborg Hulda, dóttir mín er í upphlut sem ég á en sá upphlutur á sér nokkra sögu.  Ömmur mínar tvær, amma Ása og amma Gunna notuðu báðar mikið íslenska  þjóðbúninginn og þær áttu báðar bæði upphlut og peysuföt.  Amma Ása notaði töluvert það sem hún kallaði fljótbúninginn, en þá fór hún bara í þjóðbúningapilsið sitt og var síðan í svartri gollu og hafði sjalið yfir öllu saman.  Þá sást ekki að hún var hvorki í þjóðbúningapeysunni né upphlutnum innan undir.  Amma Gunna var öllu hátíðlegri í sinni umgengni um búninginn og man ég ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann notað slíkan fljótbúning.  Alltaf ef eitthvað markvert var í gangi hjá fölskyldunni og á hátíðisdögum fóru ömmur mínar í íslenska þjóðbúninginn.

Þegar farið var yfir bú ömmu Gunnu við lát hennar kom í ljós að hún hafði átt þjóðbúninga eða búningasilfur handa dætrunum sínum.  Mamma og móðursystur mínar hafa hins vegar ekki haft áhuga á því að eiga né skarta slíkum búningum.  Mamma mín arfleifði mig því af því búningasilfri sem féll í hennar skaut.  Ég fékk þar með silfurmyllur, beltissylgju og silfurhólk.  Með þetta silfur í farteskinu dreif ég mig siðan á námskeið í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, þar sem ég saumaði minn upphlut með mikilli hjálp og aðstoð hennar Vilborgar, sem kenndi námskeiðið þegar ég fór.  En mig vantaði borða á upphlutinn og ég vildi bara balderaða borða og alltaf jafn bjartsýn fór ég á námskeið í baldýringu.  Þvílikt mál að baldera - það gékk ekki vel hjá mér og mér tókst ekki að klára borðana mína.  Mamma tók því þá ákvörðun þegar ég varð fertug að gefa mér í afmælisgjöf balderaða borða á  upphlutinn minn. 

Þar með var upphluturinn minn kominn og verð ég að segja að dóttirin var bara nokkuð fín í morgun í  upphlut móður sinnar og með gamla svarta sjalið hennar ömmu Ásu.  Ég virðist vera eitthvað hrædd um það, því ég sagði amk. fjórum sinnum við hana Elínborgu Huldu þar sem hún sveif á vit peysufatadagsins -  þú verður að passa sjálið -    


Þáskildagatíð

039_6643~Linda-Hamilton-PostersÉg hef komist að því að ég hef mjög gaman af svona framtíðartryllum.  Matrix myndirnar féllu mér vel í geð og einnig Teminator myndirnar, Star Wars myndirnar voru svo sem ágætar en ná þó ekki alveg þeim hæðum sem hinar framtíðar - teknó - tölvu - kvikmyndirnar.  Um daginn var verið að endursýna á einhverri norrænu sjónvarpstöðinni myndina 12 monkeys, sem er í þessum flokki hjá mér. 

Það er eitthvað heillandi við þá tilhugsun að hægt sé að flakka fram og til baka í tíma og breyta nútið og framtíð.  Oft verða úr þessu miklar endaleysur og pælingar sem tekst stundum ágætlega hjá þeim í Hollivúdd.  Því miður verður það þó oft svo þegar vel gengur með fyrstu myndirnar þá verða framhaldsmyndir númer þrjú, fjögur og fimm svo útvatnaðar að maður er löngu hættur að skilja upp né niður í söguþræði eða hvað gerðist yfirleitt í fyrri myndunum.  Þá er  búið er að flakka svo oft fram og tilbaka í tíma og rúmi að upp er komin einhverskonar þáskildagatíð sem enginn skilur neitt í.    

Það er dálitið spes pælingar oft í gangi hjá þeim í Hollivúdd um að tölvur og vélar ýmisskonar muni yfirtaka veröldina og maðurinn standi varnarlítill gagnvart því.  Nema náttúrulegar sá eini eini, frelsarinn sem mun bjarga heiminum eftir að hafa gengið í gegnum eld og brennistein.  Í fyrstu tveimur Terminatormyndunum sem mér finnst mjög góðar er reyndar hörkukelling, það er mamma framtíðarfrelsarans sem heitir í myndunum Sarah Connor og er leikin af kvikmyndaleikonunni Lindu Hamilton.  Ég leitaði af myndum af henni í þessu hlutverki og fann þá mynd sem hér er með á þessari bloggfærslu.  Hún er ekki beint Maríu meyjarleg á þessari mynd hún Sarah Connor með riffill og allar græjur en í myndinni eignast hún frelsara alheims með manni sem sendur er til þess verks úr framtíðinni.  Þetta er náttúrulega þvílík beintenging í meyjarfæðingu biblíunnar að það hálfa væri nóg.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband