Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hlaupársdagur

Dagurinn í dag hlaupársdagur er sérstakur aukadagur fyrir okkur öll.  Um daginn las ég í blöðunum að í dag ættu alls 204 Íslendingar afmæli.  Ég hefði haldið að þeir væru fleiri.  Einfalt reiknidæmi út frá fjölda Íslendinga og fjölda daga á ári gefur:  300.000/365 = 821,9 eða hækkað upp og jafnað þá eiga að jafnaði 822 Íslendingar afmæli á degi hverjum.

Nú er það þekkt að börnin fæðast ekki jafnt yfir árið og dreifast alls ekki jafnt yfir dagana nema síður sé.  Einhvern tímann sá ég mannfjöldapælingar og dreifingu fæðingardaga Íslendinga yfir mánuðina og mig minnir endilega að haustmánuðirnir eigi þar vinninginn þ.e. að fleiri Íslendingar séu fæddir í september - nóvember en önnur misseri.  Ég þarf að kanna þetta betur einhvern tímann, mér mér finnst gaman að spá í svona hluti, við mannskepnan höldum að við höfum svo mikla stjórn en við erum seld ýmsum náttúrulegum kröftum þótt að við teljum annað. 

Ég þekki persónulega tvo Íslendinga sem eiga afmæli í dag, það er Einar B. Pálsson, verkfræðingur sem er 96 ára gamall sem kenndi mér í háskólanum í den og síðan fröken Rakel Grímsdóttir sem er 16 ára gömul og dóttir Dóru og Gríms.  Samkvæmt mínum útreikningum miðað við að 204 Íslendingar eigi afmæli á hlaupársdegi þá þekki ég persónulega semsagt tæplega 1% af íslenskum afmælisbörnum dagsins í dag.   Ef ég yfirfæri þessa þekkingaprósentu yfir á aðra daga ársins þá ætti ég að meðaltali að þekkja 8 Íslendinga sem ættu afmæli á hverjum degi. 


Sé ekki eftir neinu

 

Þá er maður búinn að sjá þessa mynd og vafra um netið í þekkingarleit um Edith Piaf.  Ég vissi t.d. ekki að hún samdi textann við þetta lag - La vie en Rose.  Þetta er upptaka frá árinu 1954 og er gaman að sjá viðbrögðin frá áheyrendum en hún hefur þá alveg í hendi sér.  Það er nokkuð lærdómsríkt að skoða upptökurnar sem eru á Youtube með henni, þar sér maður hve henni fer aftur með aldrinum en hún lést aðeins 48 ára gömul en leit þá út fyrir að vera miklu eldri.   Til dæmis er þarna upptaka frá árinu 1961 af henni syngja non, je ne regrette rien þar sem maður sér að það er ekki verið að ofgera í kvikmyndinni með útlitið á henni undir það síðasta.  Mér finnst leikkonan sem leikur Edith í kvikmyndinni alveg rosalega góð en ein gömul vinkona Edith Piaf sagði um þann leik að henni hafi fundist eins og hún væri að horfa á Edith sjálfa.   

 


Þáskildagatíð

039_6643~Linda-Hamilton-PostersÉg hef komist að því að ég hef mjög gaman af svona framtíðartryllum.  Matrix myndirnar féllu mér vel í geð og einnig Teminator myndirnar, Star Wars myndirnar voru svo sem ágætar en ná þó ekki alveg þeim hæðum sem hinar framtíðar - teknó - tölvu - kvikmyndirnar.  Um daginn var verið að endursýna á einhverri norrænu sjónvarpstöðinni myndina 12 monkeys, sem er í þessum flokki hjá mér. 

Það er eitthvað heillandi við þá tilhugsun að hægt sé að flakka fram og til baka í tíma og breyta nútið og framtíð.  Oft verða úr þessu miklar endaleysur og pælingar sem tekst stundum ágætlega hjá þeim í Hollivúdd.  Því miður verður það þó oft svo þegar vel gengur með fyrstu myndirnar þá verða framhaldsmyndir númer þrjú, fjögur og fimm svo útvatnaðar að maður er löngu hættur að skilja upp né niður í söguþræði eða hvað gerðist yfirleitt í fyrri myndunum.  Þá er  búið er að flakka svo oft fram og tilbaka í tíma og rúmi að upp er komin einhverskonar þáskildagatíð sem enginn skilur neitt í.    

Það er dálitið spes pælingar oft í gangi hjá þeim í Hollivúdd um að tölvur og vélar ýmisskonar muni yfirtaka veröldina og maðurinn standi varnarlítill gagnvart því.  Nema náttúrulegar sá eini eini, frelsarinn sem mun bjarga heiminum eftir að hafa gengið í gegnum eld og brennistein.  Í fyrstu tveimur Terminatormyndunum sem mér finnst mjög góðar er reyndar hörkukelling, það er mamma framtíðarfrelsarans sem heitir í myndunum Sarah Connor og er leikin af kvikmyndaleikonunni Lindu Hamilton.  Ég leitaði af myndum af henni í þessu hlutverki og fann þá mynd sem hér er með á þessari bloggfærslu.  Hún er ekki beint Maríu meyjarleg á þessari mynd hún Sarah Connor með riffill og allar græjur en í myndinni eignast hún frelsara alheims með manni sem sendur er til þess verks úr framtíðinni.  Þetta er náttúrulega þvílík beintenging í meyjarfæðingu biblíunnar að það hálfa væri nóg.


Mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur

er lag sem hægt er að nota til að kenna krökkum nöfnin á vikudögunum.  Nú er framundan Bolludagur, Sprengidagur, Öskudagur .  Ég hef reynt að standa mína húsmóðurlegu plikt að ala upp afkvæmin í réttum hefðum og siðum sem tíðkast á þessum dögum. Si svona eins og að gera bollur, kaupa efni í fiskibollur og í hið árlega saltkjöt og baunir.  Börnin eru reyndar orðin það fullorðin að ég tel næsta víst að þau hafi ekki áhuga á að fara í Kringluna né á Laugarveginn til að syngja í búðunum á Öskudaginn fyrir nammi í poka. 

Ég verð þó að játa að ég hef ekki staðið mig í að halda úti öskupokahefðinni því ég hef ekki saumað öskupoka síðan í Borgarnesi í den.  Ekki það að þar stóð mamma mín sig vel því hún hjálpaði okkur krökkunum að gera öskupokana.  Mamma er flínk saumakona og gerði hún mjög fallega poka það er dálítið sérstakt hvað ég man það vel núna.  Það erfiðasta við að gera öskupoka var að beygja títiprjónana sem maður notaði til að festa pokana með, títiprjórnarnir áttu til að hrökkva í sundur.  Aldrei var sett nein aska í þessa poka, því hvar var ösku að fá?? Ekki voru nú grillin né arnarnir á heimilunum í Borgarnesi á þessum tíma ogseisei nei og hitað upp með olíukyndingu, ég held það nú.

Aðalstuðið var síðan að fara með öskupokaútgerðina út í Kaupfélagiog næla þeim svo lítið bar á  í fólk sem var þar á ferð, helst konur, þær voru yfirleitt það vel búnar í kápum sem gott var að næla í.   Síðan var voðalega gaman að fylgjast með fínu frúnum ganga um í Kaupfélaginu með pokana aftaná sér.   


Orkuveitan

Nú er frost á fróni og heita vatnið rennur hraðar og í meira magni en nokkru sinni fyrr inná ofna heimilanna á höfuðborgarsvæðinu.  Reyndar man ég ekki til þess að fyrr hafi verið gripið til þess ráðs að loka sundlaugunum til þess að hafa nú örugglega nægt heitt vatn til að hita upp híbýli manna.  Hins vegar man ég eftir því þegar Orkuveitan varð að grípa til þess ráðs að hækka verðið á heita vatninu því slíkir  hitatímar voru á landinu að orkunotkunin stóð ekki undir rekstrarkostnaði veitunnar.  Nú geri ég mér fulla grein fyrir því að kostnaður okkar hér á þessu suðvesturhorni landsins vegna upphitunar húsa er ekki hár en tel samt sem áður að nú hljóti að vera lag fyrir Orkuveituna að lækka verðið aftur á heita vatninu.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband