Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Næturljóð úr Fjörðum

eftir Böðvar Guðmundsson hefur sótt á mig þessa dagana.  Um daginn var ég á ferð um hádegisbil og þá var Næturljóðið síðasta lag fyrir fréttir í frábærum flutningi söngkonunnar Kristínar Ólafsdóttur.  Maður er alveg hættur að heyra í henni en mikið rosalega er hún góð söngkona.  Svo einn morguninn um daginn kom Næturljóðið aftur í útvarpið snemmmorguns en þá var það hún Kristjana Arngrímsdóttir, frá Dalvík sem söng en mér finnst Kristjana líka frábær sönkona.  Ég er hrifin af góðum öltum og þessar tvær eru það svo sannalega.  Verst að ég hef ekkert tóndæmi til að setja hér inn en lagið er líka eftir Böðvar Guðmundsson.  Þetta er svona undurfallegt týpiskt íslenskt tregalag og ljóð.

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar


Ferskeytla frá heimsóknarvini

Ég hef ekki verið mjög upptekin af því að reyna að eignast bloggvini á þessu bloggi mínu né verið virk á blogginu í því að setja athugasemdir hjá öðrum bloggurum.  En nú hef ég eignast heimsóknarvin bloggsins sem er alveg ný vídd í blogginu hjá mér.  Heimsóknarvinurinn bloggar ekki sjálfur né sendir inn athugasemdir en hann sendi mér þessa vísu í gærdag:

Mikið er það starf og strit

stendur orðlaus þjóðin.

Ljómar af þeim list og vit

lesa Skólaljóðin.

Sumir vinir og vandamenn geta etv. haft einhvern grun um hver heimsóknarvinurinn er.  Ég vona bara að hann verði duglegur að senda mér vísur, þó að þingið sé farið heim og jörðin skjálfi á Ísalandi. 


Þetta var þá sniðgengisskjálfti

sem reið yfir á Suðurlandinu klukkan korter í fjögur í dag.  Heyrði það í sjónvarpinu áðan.  Ég vissi það strax og ég fann fyrir titringi í dag að um jarðskjálfta var að ræða en ekki sprenginu en sprengingar eru töluvert algengar við húsið sem ég vinn í.  Mér fannst jarðskjálftinn vera langur og ætla aldrei að enda taka og var svona að farin að spá í það hvort ég ætti virkilega að fara að verða hrædd.  Ég var stödd uppá fjórðu hæð og meðan á skjálftanum stóð þá var ég einnig að hugleiða það hve erfitt væri að koma sér út úr húsinu og einnig var ég að spá í það hvaða leið best væri að fara ef ég yrði að koma mér út. En skjálftinn tók enda og ég hélt ró minn.  En hann var stór eða amk. 6,1 á Richter og þessi skjálfti var nærri höfuðborgarsvæðinu en 17. júní skjálftinn árið 2000.  Allir sem ég hef talað við í dag eru sammála um að þessi skjálfti hafi verið sterkari hér í Reykjavík en 2000 skjálftinn.

Ég er ákveðin í því að mig dreymdi fyrir þessum skjálfta.  En mig dreymdi drauminn ekki í nótt heldur í  fyrrinótt.  Ég vissi að þetta var vondur draumur en náði ekki alveg að skilja um hvað hann gæti verið og náði ekki heldur að bera drauminn undir pabba minn sem er sérlega flinkur draumráðningamaður.  Svo illa sat draumurinn í mér í gær að ég sagði vinnufélögum mínum í gærmorgun þegar ég kom í vinnuna að ég hefði slæma tilfinningu fyrir deginum af því mig hefði dreymt illa.  Ég lofaði að segja þeim drauminn í lok vinnudags en svo var alveg brjálað að gera í vinnunni og ég steingleymdi því í annríki dagsins.  Hélt sannast að segja að draumurinn hefði eitthvað með allt það vinnuhafarí að gera og þar með var sá draumur afgreiddur.  Vinnufélagarnir mundu þetta atvik eftir skjálftann í dag og voru ákveðnir í því að þarna hefði draumurinn komið fram.  Samt voru þeir ekki búnir að heyra drauminn.  En ég held satt best að segja að þetta sé bara hárrétt draumaráðning hjá þeim. 

Verðbólgan

Verðbólgan mældist 12,3% í maí.  Verðbólgan mældist 11,6% í april.  Mér finnst alltaf góð sagan af bóndanum í Skagafirði sem svaraði svo til einhvern tímann í fyrndinni þegar honum var sagt að það ríkti góðæri í landinu og nefndar prósentutölur því til sönnunar að það þýddi ekkert að fara með einhverjar útreiknaðar meðaltalsprósentur og hlutfallstölur um velsæld landans, því hann væri sjálfur með besta mælikvarðann á því hvort væri góðæri og hagsæld í hans ranni.  Það væri hans eigin pyngja.  Þyngd hennar segði honum allt sem segja þurfi um ástandið.  Því þýddi ekkert að lesa yfir honum útgefnar forsendur sem bentu til góðæris, ef hans eigin pyngja væri létt þá væri ekkert góðæri hjá honum.

Ég fór nefnilega að versla í gær og ég verð svo sannalega vör við hækkun verðlags á matvöru í minni buddu.  Miðað við útgefnar meðaltalsprósentur skellt á matvöruna þá hefur 5000 krónu innkaup í byrjun mars kostað mann kr. 5.615.- í byrjun apríl og kr. 6.266.-  Mér finnst hækkunin vera meira en þetta síðustu mánuði.  Ég fór áður og keypti töluvert inn fyrir um 5000 kall en er núna að greiða 8000 krónur fyrir mjög svipaða matarinnkaup.  Þetta er miklu meiri munur en útreiknaða meðaltasverðbólgan er að gefa.  Einhverstaðar er vittlaust gefið í þessum kapal það er á hreinu.  


Sól og blóm

Heilmiklu afkastað í garðinum ágætisveðri á milli í gærdag.  Ég fór snemma út í garð, mér finnst oft mjög gott veður á morgnana hér í vesturbænum sem hafgolan blessunin vill síðan skemma fyrir manni um hádegið.   Í gær var öðru hvoru smá vindur og einnig  faldi sólin sig stundum en þá er bara að fara inn og fá sér kaffi.  Við fórum í blóma og plöntuleiðangur hjónin á laugardag, keyptum silfurskúf, margarítur og hádegisblóm fyrir sameignina en jarðaberjaplöntur, rósmarín og meyjarblóma fyrir mig.  En í gær var ég mest í því að laga til og undirbúa beðin fyrir gróðursetningu.

Einnig tókst mér  í gær á milli golu og sólarskugga að rusla upp hraunhlaðna veggnum við götuna þar sem hann var verstur þannig að ég er bara ánægð með það dagsverk hjá mér.  Einnig réðst ég á gamalt úrsérsprottið beð í garðinum og útbjó þar svæði fyrir jarðaberjaplönturnar.  Bóndinn felldi niður fánastöngina því það er kominn tími á að mála gripinn.  Mér fannst gaman að sjá hve góður viður er í stönginni einhver meiri háttar harðviður þar á ferð.  Ætla mér síðan að nota góða veðrið sem spáð er í þessari viku til að setja niður blómin mín fríð.


Rússnesku birnirnir unnu

þrátt fyrir að söngvarinn skriði um á gólfinu sem mér fannst sérkennileg sviðsframkoma eins og áður hefur komið fram.  Það lag fannst mér svona allt í lagi og það var mikið í það lagt hjá rússunum.  Mér fannst okkar fólk standa sig mjög vel, er samt ekki frá því að mér hafi líkað betur flutningurinn hjá þeim á fimmtudagskvöldið.  Ég var að vonast til þess að þau kæmust í topp tíu, fannst persónulega og prívat að þau ættu það alveg skilið en svona er evróvisíon.  Við getum bara verið stolt með fjórtánda sætið það er allavega margfalt betra en að komast ekki í aðalkeppnina.  

Norska lagið var mjög gott, sænska dívan var flottari í gær en á fimmtudaginn, danir og finnar ágætir, mér fannst vanta smá kraft í aðalsöngvarann í franska laginu en bakraddirnar þar voru svaka fínar.  Mér fannst stundum lýsingin og notkun á sjónvarpsvélunum vera skrítin í gær, t.d. voru þau í skugga á tímabili Friðrik Ómar og Regína sem mér fannst mjög slæmt.  Mér fannst vindvélin ofnotuð í gærkvöldi til dæmis í portúgalska laginu þar sem kjólarnir á konunum klessust alveg upp að þeim það fannst mér vandræðalegt og ljótt og draga athyglina frá flutningi lagsins.

Svona er þetta það verður allt að ganga upp lag og flutningur og sviðsframkoma, notkun  sjónvarpsvéla, lýsing og svo framvegis.  Mér fannst sumir söngvararnir í gærkvöldi vera í basli með að halda lagi sem mér finnst sérkennilegt með lög sem eru komin í úrslit í evróvisíon.  En þetta var bara gaman þótt að Evrópa hafi ekki verið samþykk mér með stöðu íslenska lagsins miðað við hin lögin því ég fer ekkert ofan af því að þau voru í topp tíu hjá mér.


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húbert Nói

hubert-noi

 opnaði sýninguna Geometria í Gallerý Turpintine, Ingólfsstræti í gær.  Ég er hrifin af myndunum hans Húberts Nóa, finnst þær mjög flottar og hafa yfir sér einhverja innri ró.  Mér finnst  sérstaklega flottar myndirnar hans þar sem kemur eins og lýsing innan úr myndunum, skil ekki almennilega hvernig hann fer að því. 

Á þessari sýningu núna er líka vídeóverk af borholum og reyk úr borholum sem var mjög flott og dáleiðandi.  Mæli með þessari sýningu hjá Húbert Nóa, en hún verður opin til 17. júní .  


Áfram Ísland

Já þau komumst áfram í gær krakkarnir okkar í Eurobandinu.  Mér fannst þau mjög örugg í gærkvöldi og flutningurinn á laginu takast ágætlega.  Ég hafði sannast að segja búist við því að þau yrðu send heim, þetta hefur verið erfið fæðing hjá okkur Íslendingum að komast upp úr undanúrslitariðli Euróvisíonkeppninnar.

Ég sat ekki við sjónvarpið í gegnum alla keppnina í gær þannig að ég er get ekki sagt til um það hvernig allir keppendurnir stóðu sig, náði þó nokkrum lögum, fannst t.d. Charlotte Perelli betri í undanúrslitunum heima hjá sér í Globen í Svíþjóð en þarna.  Ég er ekki alveg að skilja sviðsframkomu hjá nokkrum flytjendum í keppninni í ár, eins og þetta að skríða í gólfinu eins og Rússinn á þriðjudaginn og í gærkvöldi fannst mér fullmikið um það að flytjendurnir væru að basla eitthvað að fara uppá kassa og box.  Mér finnst þetta klifur í miðjum lögum vera truflandi.  

Meðan á flutningi á síðari hluta keppninnar fór fram í gærkvöldi brunaði ég í bíl í gegnum Þingvöll og heim til Reykjavíkur en við hlustuðum á keppnina í útvarpinu á leiðinni.  Ég var því komin heim í stofu þegar úrslitin lágu fyrir og gat hoppað upp úr stólnum og klappað vel og lengi fyrir árangri Eurobandsins.  

Dúlla kvöldsins var Friðrik Ómar í tíufréttunum þar sem þau stóðu í hurðinni í rútunni hann og Rebekka og hann sagðist vera í sjöunda himni en ætlaði ekki að fara með neinn málshátt í þetta sinn.

 


Vanræksla

Ekki eru þær upplífgandi upplýsingarnar sem berast manni þessa daga um afleiðingar aukinnar fíkniefnaneyslu hér á landi.  Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 228 börn í Reykjavík voru send í fóstur í fyrra og stór hluti þessara barna hafi búið við mikla vímuefnaneyslu foreldra sinna.  Í gær kom fram að talið er að 20 mæður hafi á síðastliðnu ári látist vegna neyslu og 15 til 20 mæður væru núna í mikilli hættu vegna vímiefnaneyslu.

Öðru hvoru síðustu ár hefur Þórarinn Tyrfingsson komið fram í fréttum og líst yfir áhyggjum sínum af aukinni fíkniefnaneyslu hér á landi.  Hjá honum hefur komið fram að það sé mikil aukning í fjölda ungra fíkniefnaneytenda hjá þeim á Vogi.  Öðru hvoru hefur jú eitthvað heyrst frá lögreglunni en ekki mikið.  Að öðru leiti hefur umræða um fíkniefnavanda fólks á Íslandi hvorki hlotið mikla umfjöllun eða fengið mikla athygli hjá almenningi eða stjórnvöldum.

Á meðan við sofum á verðinum og sinnum ekki óveðurskýjum né dómsdagsspámönnum þá hafa 228 börn í Reykjavík lifað við slíkan aðbúnað að réttast þykir að taka þau út úr þeim aðstæðum og koma þeim fyrir í fóstur hjá öðru fólki.   Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að sinna engu þeim upplýsingum að mikil auknin sé á fíkniefnum í landinu, að sífellt fleiri verði neytendur og því hætta á því að foreldrar barna séu í fíkniefnaneyslu.  Við höfum sýnt þessum börnum þá vanrækslu að hafa ekki tekist að minnka aðgang að fíkniefnum í landinu né auka hjálp og liðsinni við fólk til að takast á við neysluna né sinnt foreldrum þannig að þau breyti lífi sínu.  Við skiptum okkur ekki af því að það sé aukin fíkniefnaneysla í landinu.  Við skiptum okkur ekki af því að það eru 228 börn sem eru það vanrækt að taka verður þau af foreldrum sinnum.  Við erum að vanrækja fólkið okkar. 


Hrefna og hnísa

Ég man eftir því sem krakki á Húsavík að stundum kom fyrir að bátar komu til hafnar með hrefnu fasta við síðuna og þá var maður sendur niðrá bryggju.  Þegar þangað kom var handagangur í öskjunni, hrefnan komin uppá bryggju og tveir eða þrír kallar sem mynduðu kuta, skáru kjötið af hrefnunni og létu þá sem vildu fá kjötbita.  Ég man eftir því þegar ég var fyrst send niðreftir, ég hef verið eitthvað 5 ára eða svo og þá var ég fyrst spurð hverra manna ég væri og þegar ég hafði svarað því til þá fékk ég bitann afgreiddann.  Mamma steikti síðan hrefnukjötið á pönnu og mér fannst og finnst hrefnukjöt gott.  Ég held endilega að stundum einnig fengist hnísukjöt á Húsavíkinni og það sé líka ágætt. 

Ég var að skoða núna á netinu upplýsingar sem finnast þar um hvali og rakst m.a. á skemmtilega síðu www.nordurskodun.is en þar er m.a. að finna þessa síðu sem sýnir hvali sem hægt er að finna á Skjálfandaflóa.  Þar sér maður vel stærðarmuninn á hvölunum.  Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að hnísan er svona lítil, hún er bara smá, smá, smá hvalur.  

Samkvæmt upplýsingum á ensku wikipediu telja Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin að hrefnustofninn sé í þó nokkurri hættu.  Hér vildi ég gjarnan geta hringt í hann Gísla Víkings til að fá upplýsingar um áætlaða stofnstærð okkar hrefnustofnsins.  Einnig vantar mig tilfinnalega upplýsingar um hnísuna - hvað ætli hnísan heitii á ensku?  Það er allavega ekki til íslensk síða á wikipediu um hnísuna og ég kemst því ekki lengra með þessar hrefnu og hnísupælingar mínar að sinni. 

Varðandi veiðar á hrefnu og hrefnuveiðikóta þá er ég er meðfylgjandi því að við nýtum hlunnindi lands og miða en það þarf að meta þá möguleika á nýtingu miðað við ástand á stofnum og aðra hagsmuni.  Það getur t.d. engan veginn passað saman að stunda hvalveiðar á sömu stöðum  og verið er að selja fólki ferðir til að skoða hvali í sínu náttúrulega umhverfi.   


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband