Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Obama-mama

Ég var með kveikt á sjónvarpinu um daginn og horfði á innsetningarathöfn forseta bandaríkjanna.  Ég hef aldrei áður spáð í þessa athöfn, þessa innsetningu eða the presidetial inaguration eins og það heitir á bandarísku.  Þetta er mikil athöfn og var um margt áhugavert að fylgjast með henni þótt ég hafi ekkert verið alveg límd við skjáinn.  Maður get semsagt fylgst með göngu fyrirfólksins í litlum hópum eftir göngum þinghússins í Washington út á svið eða svalir þar sem athöfnin fer síðan fram.  Áður en fólkið stígur fram er mikill lúðrablástur og svo þessi sérstaka amríska kynning þar sem karlmannsþulur kynnir djúpri röddu - herra mínir og frúr - hinn háæverðugi þessi þessi þessi, ásamt hinum háævirðuga þessa þessa þessa og svo framvegis.  Mesta furða hvað þulinum tóks að koma þessum háævirðulegu nöfnum og titlum frá sér án þess að frussa mikið eða hiksta. Það getur svo sem verið að þetta sér nauðsynlegt þar sem einhverjar milljónir voru saman komnir á þessum þjóðarvelliv- National mall þar sem hátíðin fór fram. 

Flestir voru nokkuð alvörugefnir og hátíðlegir á svip þar sem þeir gengu út um aðaldyrnar nema fyrrverandi forsetafrú bandaríkjana, Laura Bush, sem brosti og sagði - hi how are you all doing - eða sæl, hvernig hafið þið það, og ég ákvað að hún væri bara fegin að eiga þarna bara eftir fimm mínútur í þeirri stöðu að vera gift forseta bandaríkjanna.  Bush fyrrverandi forseti var einstaklega einmannalegur og dapur á svip þar sem hann gékk fram þinghúsganginn, það spillti kannski dálítið heildarsvipnum á þessari útgöngu hans úr embætti að varaforsetinn Cheyni var í hjólastól eftir að hafa meitt sig í baki við að baksa við pappakassa við flutninga.  Einhvern veginn þá hljómaði sú afsökun á hjólastjólaveru Cheyni ekki trúverður í mínum eyrum.  Sé það ekki fyrir mér að sá maður sé eitthvað að takast á við pappakassa eða nokkurn skapað hlut sem reynir á líkamann.  En þetta er útúrdúr.

Tilvonandi forseti, the president elect, Barack Obama var pínu stressaður að sjá þar sem gékk til athafnarinnar, ég er ekkert hissa, þetta er mikið mál að verða forseti bandaríkjanna.  Ég vona bara að honum takist vel til og ekki síst að honum takist þau stefnumál sem hann setur á oddinn.  Að sumu leyti byrjar hann ágætlega með því að stoppa af strax fangelsið í Qvantanamó.  Síðan verðum maður að bíða og sjá hvort eitthvað þokast hjá honum.  

Ég horfði fyrir nokkru á einn af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum the Daily show með John Stewart þar sem núverandi forsetafrú bandaríkjanna, Michelle Obama var gestur í þættinum.  Mér fannst hún mjög skelegg, t.d. sagði Michelle að hún væri töluvert krítísk á manninn sinn, þe. hún léti hann vita af því ef henni finnst eitthvað ekki ganga upp hjá honum.  Hann yrði að sannfæra þessa Obama - mama eins og hún sagði til þess að geta sannfært aðra.  Ég vona að vera þeirra hjóna í Hvíta húsinu verði árangursrík og að Obama-mama verði ekki jafn fegin að losna úr þeirri prísund síðar meir eins og ég tel að fyrrverandi forsetafrúin hafi verið.


Uppgjörið

Ég hef ákveðið að halda mig við það að gera uppgjör á gamla árinu í upphafi nýs árs hér á þessu bloggi mínu.  Árið 2008 verður að mörgu leyti mjög minnisstætt öllum Íslendingum en hér ætla ég að nefna nokkur atriði sem eru mér minnistæðust.

Andlát.  Við fjölskyldan misstum elskulegan tengdaföður minn Sigurjón Sigurðsson í byrjun janúar.  Elínborg Gunnarsdótir tengdamóðir mín er ótrúlega dugleg og seig að mínu mati að takast á við þær breyttu aðstæður sem urðu á hennar lífi við andlát Sigurjóns.  Núna hefur hún fengið herbergi inná Dalbæ á Dalvík, er búin að mublera það upp og getur búið þar eða skroppið yfir á Læk ef hún fær far til þess og veður og færð hentar.   Ég ætla aðeins að nefna fráfall Sigurjóns hér í þessu uppgjöri en ég fór á mun fleiri jarðafarir á árinu 2008 en önnur ár.

Tónleikar.  Ég fór á mjög marga tónleika þetta ár. Suma fór ég á óvænt og með stuttum fyrirvara eins og tónleikarnir með James Blunt, en hann kom mér á óvart, ég hafði gaman af þeim tónleikum.  Aðrir voru skipulagðir með löngum fyrirvara eins og ferð okkar fjölskyldunnar á Bræðsluna á Borgarfjörð eystri í sumar.  Þar var Damien Rice og meðan hann var að spila var alltaf öðru hvoru einhver sem kallaði og kallaði, spilaðu Blowers daughter, Damien tók síðan lagið í lokauppklappinu og mér fannst það eftiráaðhyggja ein af betri tónlistarmómentum hjá mér á árinu.  Ég dreif mig síðan í kórinn Vox academica og við fluttum ásamt 60 manna hljómsveit Carminu Burana í nóvember.  Tónleikarnir tókust mjög vel að okkar mati og Gunnar maðurinn minn sat aftast fyrir miðju í Grafarvogskirkju og hann var mjög ánægður með hljómsveit og kór.  En þeir tónleikagestir sem sátu fremst í kirkjunni, næst hljómsveitinni og kórnum voru ekki jafn heppnir því uppstilling á hljómsveitinni gerði það að verkum að hjómsveitin varð of sterk hjá þeim miðað við kórinn.  En við í kórnum vorum allsendis óvitandi um þetta og mér fannst allavega mjög gaman að flytja verkið.  Sérstaklega í lokin þegar O fortuna er tekið aftur, það var toppurinn hjá mér í tónleikaupplifun ársins.

Ferðalög.  Við ferðuðumst mjög mikið um Ísland á síðasta ári, vorum í gamla góða tjaldinu okkar og höfðum það fínt.  Einnig leigðum við tvisvar íbúðir á Akureyri hjá starfsmannafélögum sem við erum í hjónin, það kom mjög vel út.  Ísland var fallegt í sumar, við vorum mjög heppin með veður á þessum ferðum okkar, veðrið á Austurlandi var eins og á Spáni þegar við vorum þar á ferð.  Við keyrðum í einu striki frá Borgarfirði eystra, yfir Hellisheiði eystri yfir í Vopnafjörð og heimsóttum þar ættingja Gunnars, síðan var stefnan tekin á Akureyri.  Við vorum við Mývatn um 10 leytið um kvöldið, krakkarnir fengu sér hamborgara en við sátum í bílnum og dáðumst að frábæru veðri og fegurð Mývatns og nágrennis.  Síðan brunuðum við meðfram vatninu og sólin speglaðist þvílíkt í Mývatni og Mývatn og umhverfi var eins og póstkort af sjálfu sér og allst staðar voru rútufarmarnir af útlendingunum sem stóðu og mynduðu hver sem betur gat en við Íslendingarnir brunuðum í bílnum eins og eldibrandar beinustu leið í náttstað til Akureyrar.  Við sáum náttúrulega út um gluggann hvað þetta var fallegt það er ekki spurningin.

Vantraust.  Að lokum er það þá vantraustið.  Ég verð að játa að ég hafði haft nokkrar áhyggjur af efnahagsmálum þjóðarinnar.  Fyrir rúmu ári síðan hitti ég fólk sem hafði starfað innan veggja bankanna og þegar við kvöddumst þá kvaddi fólkið með þessum orðum:,, Vonandi tekst þeim að leysa efnahagsmál þjóðarinnar á farsælan hátt."  Við þessi orð þessara fyrrverandi bankamanna þá hugsaði ég - Vá þau hafa virkilegar áhyggjur af stöðu efnahagsmála á Íslandi.  Þetta var í september árið 2007.  Síðan hrundi litla Ísland í október 2008 og það virðist ekki hafa verið neinum sérstökum að kenna, enginn átti að passa uppá okkur litlu þjóðina á þessu skeri sem nú er sokkið í sæ.  Ég er seinþreytt til vandræða og frekar lengi að fatta hlutina, verð að játa það.  En þessi staða okkar núna er rosaleg og í raun óásættanleg.   Allir ráðamenn þjóðarinnar, stjórnmálaflokkarnir, forsvarsmenn atvinnulífs og forustusauðir þjóðarinnar allir sem einn áttu að grípa til varna fyrir land og þjóð fyrir löngu, löngu síðan.  Fyrst fyrrverandi bankamenn sáu þetta fyrir í september 2007 hvernig í ósköpum gátu ráðamenn þjóðarinnar sofið á verðinum fram í september 2008 þegar varð að steypa þjóðina í glötun?  Hvar var allt þetta fólk sem áttu að passa uppá land og þjóð?  Það brást algjörlega trausti þjóðarinnar og ég er ekki að sjá það að ég persónulega eigi eftir að treysta einum einasta af þessu fólki nokkurn tímann aftur.  Því miður.   


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband