Náttúra

Ég fór með stákunum mínum tveimur á Náttúru tónleikana í gærkvöldi.  Við vorum staðsett dálítið ofarlega í brekkunni þegar þetta lag var spilað sem er komið á youtube en ég klappaði og klappaði.  Sonurinn benti móður sinn á það nokkrum sinnum að hún væri sú eina af fólkinu sem var nálægt okkur sem var í stuði í þessu lagi og væri að klappa í takt eins og reyndar sérstaklega var beðið um.  Held að það hafi verið smá misskilningur hjá honum það voru svona tveir aðrir í nálægð við okkur sem voru að klappa eins og ég.

Við færðum okkur síðan nær sviðinu og vorum komin á nokkuð góðan stað þegar Björk steig á sviðið.  Hún söng og söng þrátt fyrir að röddin væri ekki í lagi hjá henni, mér fannst hún ótrúlega kúl, hún bara lét vaða og var ekkert að spara sig þrátt fyrir að röddin svaraði ekki alltaf.  Hún er rosa flott hún Björk og einnig fannst mér tónlistarmennirnir sem voru með henni góðir.  En það fór að kólna eftir því sem á leið og Jóhann Hilmir var ekki alveg með sömu fílingu fyrir Náttúrutónleikunum og móðir hans þannig að við fórum aðeins áður en tónleikarnir voru búnir.  En það kom ekki að sök ég hélt síðan áfram að hlusta á tónleikanna hér heima í tölvunni.  Magnað fyrirbæri þetta internet.  Mér fannst Sigur Rós líka vera mjög góðir þarna í gær og þá ekki síst þetta lag sem er hér með.  Og svo Björk að maður tali ekki um lokalagið hjá henni Declare indipendence og nýja ákallið:  Náttúra, hærra, hærra. 


Norðaustlæg eða breytileg átt

Norðaustlæg eða breytileg átt 3-8 m/s. Léttskýjað um norðvestan- og vestanvert landið, en annars skýjað með köflum og víða skúrir fram á kvöld. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast suðvestantil. Svipað veður fram eftir degi á morgun, en norðvestan 5-10 og fer að rigna norðantil á landinu undir kvöld og kólnar heldur.

Svona lítur veðurspáin út þessa stundina, samanber heimasíðu Veðurstofu Íslands.  Mér finnst veðrið sem af er sumri líkjast mjög mikið veðrinu sem var í fyrra.  Þá lá hann í norðaustlægum eða breytilegum áttum, landáttum endalaust og það gerir það að verkum að það er frekar kalt fyrir norðan eða kannski er réttara að segja að besta veðrið sé þá sunnan-og suðvestanlands.  Ég vona að einhvern tímann snúist veðrið í ákveðnari vestan og sunnanáttir og allavega fyrr en í fyrra því sú átt kom ekki fyrr en í ágúst og þá rigndi hér fyrir sunnan látlaust allan ágústmánuð.  Man ekki betur.  En veðrið er svo sem dásamlegt hér á þessu horni þessa dagana það vantar ekkert upp á það.   Vil bara helst að hann fari eitthvað í sunnanáttir fyrr í sumar en síðasta sumar.


Þriðja ísbjarnavísan

Heimsóknarvinur síðunnar sendi henni þriðju ísbjarnavísuna núna áðan.  Vísan er svona:

Fróðleiksgjörn er fréttalind

fatast vörnin snúin.

Þriðji björninn, það var kind

og þá er törnin búin.

En ég trúi Haddý sem fyrr, hvort sem þessi umdreymdi þriðji hvítabjörn finnst eða ekki. 

Gunnar heyrði það í dag að í gamla daga hefðu menn haft þá trú að þeir sem hétu Björn yrðu síður fyrir barðinu á björnum.  Hef haldið hingað til að nafnið Björn ætti frekar að vera með einhverjum hætti svona bjarnarlíking, þ.e. að viðkomandi væri sterkur og/eða stór og þar með voldugur eins og björn.  En hin kenningin og trú að nafnið veiti einhvers konar friðhelgun frá björnum er ekkert verri.  


Haddý Sverris.

Ég sá í sjónvarpinu mínu áðan að það er hún Haddý Sverris á Sauðárkróki sem er önnur konan sem sá stóra hvíta hreyfanlega blobbið við Bjarnarvötn á Skaga í gær.  Þekkti ekki hina konuna.  Ég hef hreinlega ekkert verið mikið að spegúlera í því hvort það gæti verið að enn einn hvítabjörninn væri genginn á land.  Hef svona frekar hallast að því að það gæti varla verið að svo væri.  En núna er ég orðin næsta fullviss um að það hljóti bara að vera þriðji hvítabjörinn fyrst þetta er hún Haddý sem sá þetta dýr.  Þarf að fara að kanna hvort hægt er að  fjárfesta í einhverskonar hvítarbjarnarýlu fyrir hana mömmu mína, þótt hún sé á gangi við Molduxa og birnirnir hafi ekki verið komnir þangað þessir tveir sem þegar eru fundnir þá er manni farið að verða um og ó um þetta bjarnarstand þarna hjá þeim í firðinum Skaga.

Eitt ár í bloggheimum

Í dag hef ég bloggað í heilt ár þar sem ég byrjaði að  22. júni 2007.  Eins og áður hefur komið fram hjá mér þá kom það mér sjálfri á óvart hve ég hef gaman af því að blogga.  Meðalheimsóknir á síðuna mína eru um 25 ip tölur á dag.  Í byrjun bloggaði ég bara um helgar en síðustu þrjá mánuði eða svo hef ég bloggað að mestu daglega en ég blogga ekki í vinnunni. Ég hef fjórum sinnum bloggað frétt á mbl.is en þá fær maður garanterað 100 heimsóknir.  Þær bloggfærslur sem ég hef fengið margar heimsóknir inná án þess að blogga frétt á mbl er blogg um tónlist og tónlistarmenn.  Ég hef fengið mjög margar heimsóknir á slíkt blogg, nú síðast voru yfir 100 ip tölur sem skoðuðu bloggið mitt um tónleika James Blunt.  

Mér finnst gaman að fólk skuli lesa bloggið mitt og er mjög ánægð með heimsóknir á síðuna mína. Ég fæ ekki mörg komment á bloggið mitt og er get ekki svarað kommentum fyrr en seint og síðar meir þannig að sá kanall er ekkert sérlega virkur hjá mér.  Ég les blogg hjá mjög mörgum sjálf en er ekki dugleg að skilja eftir komment í slíkum heimsóknum mínum.  Þeir bloggarar sem ég les daglega eru:  Nanna frænka, og á hennar síðu síðan Hildigunnur Rúnarsdóttir og á hennar síðu síðan Veiga.  Síðan bloggvinir mínir Salvör og Dögg og aðrar frænkur af bloggsíðu minni, bloggararnir á eyjunni finnst mér mjög góðir les alla sem eru að blogga þar.  Aðrir fastir liðir eru nú ekki hjá mér heldur fer ég inná blogggáttin.is og síðan bloggið á mbl.is. Þar er yfirleitt eitthvað áhugavert í gangi en mér finnst mjög gaman að skoða þar bloggflokkinn tónlist.  Þar finn ég yfirleitt eitthvað sem ég hef gagn og gaman af.


Heimilin eiga að spara

Núna er það ráðið við efnahagsvandanum heyri ég í fréttum.  Mér finnst allavega að nóg sé komið af erlendum skuldum sem einhverjir aðrir en ég hafa tekið þótt að mér sýnist svo að mér sé núna ætlað að borga fyrir þau lán sem voru tekin án þess að ég væri spurð sérstaklega. 

Ég heyrði þessa reynslusögu hjá vinkonu minni í fyrrasumar.  Þau hjónin höfðu farið á einhver fellihýsasölustað á föstudagseftirmiddegi til að láta laga eitthvað dims í fellihýsinu sínu.  Þar sem þau bíða þarna eftir þjónustu þá svifur inn á staðinn ung íslensk vísitölufjölskylda, pabbi, mamma og tvö börn.  Vísitölufjölskyldan unga ætlaði að drífa sig af stað í útilegu þessa helgi sem var að byrja en vantaði til þess fellihýsi sem átti að kaupa þarna á staðnum.  Þau skoðuðu úrvalið og tóku ákvörðun um hvaða fellihýsi þau vildu.  Síðan átti að borga.  Þá drógu þau upp kortin og upp hófust símhringingar og tilraunir að posastraui.  Til að gera langa sögu stutta þá endaði mál ungu vísitölufjölskyldunnar með þeim hætti að ekkert kortafyrirtæki vildi lána þeim og enginn banki.  Þau fengu ekkert hjólhýsið og vinkona mín sagði að þau hefðu nú verið frekar fúl yfir því og börnin vonsvikin. Unga vísitölufjölskyldan virtist ekki gera sér nokkra grein fyrir fjárhagsstöðu sinni.  Þau voru með nokkur kort á takteinum og voru í þjónustu við nokkra banka.  Þeim fannst sjálfsagt að þau gætu keyrt af stað með þriggja milljón króna fellihýsi eftir korters dvöl og skoðun í versluninni. En lausafjárstaða þeirra og fjárhagsstaða var með þeim hætti að enginn vildi lána þeim lengur.

Ég held að þessi tiltekna unga vísitölufjölskylda sé ekkert einsdæmi um hegðun okkar Íslendinga síðustu misserin.  Verst finnst mér hvað fyrirtæki og bankar hafa valsað um eins og vísitölufjölskyldan unga og tekið lán á lán ofan án nokkurrar fyrirhyggju.  Nú er komið að því að þeirra kortafyrirtæki og bankar hafa skrúfað fyrir lánin.  Lánastoppið er kallað lausafjárskortur og einhverjum öðrum fallegum orðum og við blasir efnahagskreppa.  En eitt ráðið í þeirri efnahagskreppu er semsagt að heimilin eigi að spara.  Það getur svo sem vel verið að það sé ágætis ráð í sjálfu sér og að betra sé seint en aldrei.  Finnst samt að það hefði átt að fá fyrirtækin til að spara sér lántökur fyrir langa löngu síðan. 


Gæfuspor á Króknum

Pabbi og mamma eru með í Gæfusporunum á Króknum og drifu sig í gær.  Sé að hérna er mynd af pabba á göngu með félögum fyrir norðan.  Þau hafa tekið þátt í þessum göngutúrum á íþróttavellinum Króknum núna í vor.  Samkvæmt lýsingum pabba þá gengur mamma 17 hringi á íþróttavellinum en pabbi svona sirka þrjá.  Það gerir að meðaltali 10 hringi hjá þeim hjónum sem honum finnst harla gott.  En þetta finnst þeim gott framtak og fínt hjá þeim báðum að taka þátt. 

Tangó fundin

Kisan Tangó er komin heim aftur eftir rúma viku fjarveru.  Við vitum ekkert hvar hún hefur verið þessa átta sólahringa.  En núna eru hún skítug, mjó og ræfilsleg og það kraftlítil að hún getur ekki hoppað inn um gluggann á herbergi Jóhanns Hilmis eins og vanalega.  Hún er líka símalandi af ánægju yfir því að vera komin hingað aftur úr þeirri Bjarmalandsför sem hún hefur verið í.  Jóhann Hilmir vill að við förum með hana til dýralæknis og látum kanna ástandið á kisunni.  Ég tel betra að bíða með það og sjá til hvort hún jafni sig ekki af sjálfu sér.  En hún hefur ekki verið í einhverju heimahúsi í þessari fjarveru sinni né í föstu fæði það er á hreinu.  Einhverstaðar í langri útlilegu er mun líklegra.  Meiri kisan, en núna er hún semsagt komin í hús og ég ætla bara rétt að vona að hún haldi sig á heimaslóðum í bráð.

Karlar eru körlum bestir

Til hamingju með þennan merkisdag 19. júní Íslendingar.  Í ár eru 93 ár síðan konur fengu kosningarétt.  Það voru miklar baráttukonur sem komu þessu máli í höfn með hjálp karlanna sem höfðu völdin í sínum höndum og það voru bara karlarnir sem gátu komið málinu í höfn.  Konur höfðu engan rétt né möguleika á einu né neinu í því efni nema reyna af öllum mætti að hafa áhrif á karlanna og hvetja þá til góðra verka. 

Þrátt fyrir að nú séu 93 ár liðin frá þessum merka tímapunkti í Íslandssögunni eru völdin enn í karlahöndum og þeir sem ráða og stjórna.  Konurnar eru þó komnar á kantinn en ekki meira en svo.  Þar hafa þær fengið að sitja og komast hvorki lönd né strönd fyrir körlunum þrátt fyrir góða tilburði og nokkrar skyndisóknir.  Kaup og kjör kvenna á Íslandi og möguleikar þeirra til áhrifa hvort sem er í stjórnmálum eða í atvinnulífi er ekki jöfn á við möguleika karlanna.  Það er dálítið gott hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í einhverju blaðanna í dag þetta með að það sé ekki rétt að klifa alltaf á þessu gamla góða - konum séu konum verstar heldur sé það réttara að segja -  karlar eru körlum bestir.  Það er alveg rétt hjá henni því eins og í gamla daga þegar það voru bara karlarnir sem gátu veitt konunum réttindi til þess að fá að kjósa þá er það í höndum karla að mjög miklu leiti að jafna stöðu karla og kvenna á Íslandi. 

En ég vildi óska að þær konur sem hafa fengið að komast út á fótboltavöll stjórnmálanna og til valda og standa út á vellinum í liðinu með körlunum væru öflugri málsvarar kvennabaráttunnar á Íslandi.  Ég vildi óska að þær væru jafn öflugar og konurnar voru fyrir 93. árum síðan að hafa áhrif á karlana sem þær eru með í liði að hvetja þá til góðra verka.  Því þær eru þó með strákunum í liðinu en ekki á áheyrendapöllunum eins og konurnar voru fyrir 93. árum síðan.  En ég vildi líka óska að konur væru hreinlega öflugri hver og ein.  Því það er alveg ljóst að það fæst ekki jafnrétti á Íslandi með því lagi að konurnar sitji prúðar á kantinum og bíði eftir því að körlunum þóknist að rétta þeim jafnréttið.  Því verður ekki náð nema með því að konur sæki fram sínkt og heilagt.

Svo að lokum af því að mér finnst því miður ekki í sjónmáli að jafnrétti verði náð í bráð á Íslandi þá ætla ég að skrifa hér kafla upp úr bók Bríetar Héðinsdóttur, Strá í hreiðrið, bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, byggð á bréfum hennar sem kom út árið 1988:

En vissulega er brotið í blað í íslenskri kvennasögu strax 1915 - stór áfangasigur í baráttunni við bókstaf laganna.  Eðlilegt var að honum skyldi fylgt eftir með baráttu fyrir leiðréttingar á fleiri lagaákvæðum.  En - eins og Bríet skrifar ári seinna:,,Langt er eftir að aðaltakmarkinu sé náð.  Sú hugsjón er eins og sjóndeildarhringurinn:  Því lengra sem við göngum því fjær sýnist hann."

 


Þjóðhátíðarbjörninn

Heimsóknarvininum er mikið mál þessa dagana og streyma frá honum vísurnar. Þessi var send til síðunnar núna í morgun.

Á Skaga stríð og skelfing var
skyttuhríðartörnin.
Dauðann bíður þungan þar
Þjóðhátíðarbjörninn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband