Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Að rækta sínar eigin kartöflur

Við hjónin höfum ræktað okkar eigin kartöflur frá okkar fyrstu tíð.  Við höfum leigt garðland uppí Skammadal það sem við höfum sett niður kartöflur á hverju vori síðan við hófum búskap.  Fyrstu árin fóru í það að læra á þessa ræktun ekki síst hvernig hagstæðast væri að standa að henni þannig að sem minnsti tími fari í hana.  Eftir bráðum tuttugu ára reynslu erum við orðin nokkuð góð í kartöfluræktinni og erum búin að finna út hvernig okkur finnst hagstæðast og best að stunda hana.  Núna í lok mars erum við ennþá að borða okkar eigin kartöflur og eigum eitthvað eftir af uppskeru haustsins.  Við erum svo heppin að fá að geyma kartöflurnar í kartöflugeymslu hjá frænda Gunnars, en það er að mínu mati eitt af aðalatriðunum við kartöfluræktunina - að hafa góða kartöflugeymslu. 

Ég hef orðið vör við það að fólki finnst það frekar fyndið að við séum að standa í þessum kartöflubúskap við hjónin.  Ég hef haft á tilfinningunni að þetta bardús okkar þyki sérviskulegt,  hallærislegt og jafnvel molbúalegt.  Kannski hefur mér eitthvað sárnað þetta viðhorf sem lýsir sér í þessum hugleiðingum hjá mér núna.  Skal ekki um það segja en eitt get ég sagt - bestu kartöflur í heimi eru mínar eigin ræktuðu kartöflur úr Skammadal.   

Þegar okkar kartöflur eru uppurnar, sem er yfirleitt svona um miðjan júni þá geri ég á hverju ári heiðalega tilraun til að kaupa þær kartöflur sem þá standa neytendum til boða.  Á hverju ári kemst ég að þeirri niðurstöðu að þær kartöflur séu vondar.  Því kaupi ég helst aldrei neinar kartöflur úr búð nema bökunarkartöflur á grilltímabilinu.  Og þess vegna hef ég ekki orðið vör við að kartöflur hafi núna hækkað um tæp 25% í búðunum.  


Afmælisbörn

Ég á afmæli í dag og ákvað núna rétt áðan að blogga afmælisblogg í tilefni dagsins. Sá í Fréttablaðinu í morgun að þýski leikarinn Bruno Ganz á einnig afmæli í dag.

Ég fór til Nurnberg fyrir tæpum tveimur árum og datt þá í töluverða Hitlers og nasistatímapælingar. Það var auðvitað út af staðnum Nurnberg sem var þeirra höfuðvígi. Einn daginn fór ég í skoðunarferð um Nurnberg og nágrenni. Í þeirri skoðunarferð var ég eini útlendingurinn allir hinir í um 60 manna hóp voru þjóðverjar. Ég átti ekki von á þessu þar sem ég var á alþjóðlegri ráðstefnu og hélt að fleiri útlendingar yrðu með í þessari skoðunarferð. Ég ákvað að láta á engu bera og þykjast alveg skilja þýskuna þótt það sé eldgömul svona og svona menntaskólakunnátta sem ég hef á því tungumáli.

Þegar líða tók að hádegi þá voru þjóðverjarnir farnir að uppgötva að það voru ekki bara þjóðverjar í ferðinni heldur væri einnig með í för einn lítill Íslendingur. Ég var töluvert hissa á því hvað þjóðverjarnir voru spenntir fyrir því að hitta fyrir Íslending og voru áfjáðir í það að fá skoða slíkan grip í návígi. Þarna voru m.a. hjón frá Hamborg og sagði konan við mig að hana hefði alltaf langað að hitta Íslending og hún hefði oft verið að spá í það þegar hún var um borð í flugvélum á ferðalögum erlendis að etv. væri Íslendingur um borð í vélinni. Og svo færi hún í skoðunarferð um Nurnberg og sæti þá allt í einu við hliðina á Íslendingi við hádegismatarborð.

Ég varð að játa að öll þessi athygli og þessar Íslendingapælingar þeirra þjóðverja sem voru í skoðunarferðinni þennan dag kom mér mjög á óvart. Ég reyndi mitt besta að gera þjóð minni gott til og að skemma eins lítið og mér var unnt fyrir þeim góðu og etv. smá ídaliseruðu hugmyndum sem þjóðverjarnir höfðu um Íslendinga.

Ég var orðin uppgefin þegar ég komst loks heim á hótelherbergi um kvöldið og kveiki á sjónvarpinu. Þar var þá staddur hann Bruno Ganz, sem á þá semsagt sama afmælisdag og ég og var að leika hann Hitler í myndinni Der Untergang. Ég tók þá ákvörðun þar sem ég væri orðin svo gegnsýrð af þýsku þá gæti ég alveg bætt við mig eins og einni þýskri bíómynd. Ég er síðan staföst í þeirri trú minni að þessi rúmlega hálfi þýski sólahringur hafi bætt heilmiklu við þýskukunnáttu mína og þá aðalega skilning minn á talaðri þýsku. Hvort ég skil hið talaða þýska orð rétt eður ei - det er et andet sporgsmal.


Hækkun í hafi

Ég tók eftir því í vikunni að rætt var við verslunarmenn sem sögðust vera að reyna að halda aftur af því að hækka vörurnar í hillunum hjá sér en það væri erfitt þegar krónan væri í frjálsu falli.  Ég hef kannski eitthvað mskilið kaupmennina því ég skildi þá þannig að þeir gætu hækkað verð á þeim vörum sem þeir væru þegar komnir með í hús. 

Nú er ég hvorki kaupmaður né heildsali en ég hef staðið í þeirri trú að verðmyndun á vörum sem fluttar væru inn til landsins væri með þeim hætti að verð vörunnar í íslenskum krónum ,,yrði til"  þegar varan væri leyst úr tollinum.  Þá væri borgað fyrir vöruna í íslenskum krónum á því gengi sem í gildi væri þá stundina. Þar með myndaðist grunnur fyrir verðið á vörunni í íslenskum krónum.  Er þetta einhver vittleysa í mér??  Er hér á landi eitthvað annað ferli í gangi varðandi verðferli á innfluttum vörum sem ég þekki ekki til?  Vöruverðsferli sem gengur út á það að vörur séu í hillunum og verð á þeim hækki síðan eftir því hvert gengi krónunnar er í það og það skipti??  

Það væri gott ef einhver spekingur myndi stíga fram á sjónarsviðið og skýra út fyrir okkur með hvaða hætti vöruverð væri reiknað út þannig að maður hefði betri forsendur til þess að fylgjast með.  Það að hvetja almenning til ráðdeildar er gott og blessað en fyrst og síðast verður hinn almenni neytandi að hafa forsendur til að meta hvort rétt sé að farið hjá þeim aðilum sem neytandinn er að versla við.    


Sænska hetjan

Ég tók mig til í gærkvöldi og fylgdist með sænsku lokakeppninni í evróvisione á sænska 1.  Veislan var haldin í Globen í Stokkhólmi og mikið stuð á mannskapnum.  Ég hafði hlustað á 5 lög sem komust í úrslit og eitt af þeim var lagið Hero með Charlotte Perrelli (áður Nilsson). 

Svíarnir eru með mikið system varðandi val á sigurlaginu, bæði voru þeir með dómnefndir út um alla Svíþjóð sem gáfu lögunum stig.  Lagið Hero var með flest stigin eftir þá yfirferð, en þá komu til skjalanna stig gefin af almúganum með símakosningu sem gaf hins vegar laginu Emty rooms flest stig en Hero næst flest stig þannig að það lag fer í keppnina í Serbíu.  Ég var ekki alveg límd við skjáinn allan tímann sem keppnin fór fram og stigatalningin en mér fannst þetta vera spennandi keppni og skemmtilegra sjónvarpsefni en hefur verið nýtt hér á landi þar sem bara er talið niður  niður 3-2-1 og byrja að kjósa og síðan eru bara þrjú umslög með niðurstöðum sem eru tilkynnt lýðnum.  Væri hægt að gera meira úr þessu hér á landi finnst mér.  Og jafnvel þótt Jói bróðir vinni hjá Símanum og reyni að telja mér trú um að þetta sé allt faglega og vel unnið þá spyr ég nú sjálfa mig stundum að því hvort það sé alveg örugglega rétt talið í símakosningunum.   Talning atkvæða er dálítið mikið á bak við fjólublá tjöld fyrir minn smekk. 

En hvað sem allri leynd varðandi símakosningar áhrærir hér á landi og í öðrum löndum þá vann hún Charlotte keppnina í gær en hún hefur verið með í norrænu panelen að dæma lögin í evróvision nokkrum sinnum og verið skemmtileg og fín þar amk.  Og mér fannst hennar flutningur í gærkvöldi vera bestur af þeim sem ég sá, mjög örugg og flott söngkona.  Og þar sem lagið er töluvert evróvisionformúlulegt þá er aldrei að vita nema þetta lag komist langt í keppninni.  Nema sú ósk sé þessi týpískur evrópski evróvisione- nágrannakærleikur hjá mér.

 

 


Vorið er komið

og grundirnar gróa - nei ekki alveg en mér finnst bjartir marsdagar eins og dagurinn í gær alveg frábærir.  Þá langar mig að fara út í garð og klippa og hreinsa.  Seinni partinn í gær var hægt að sitja í sólinni út á svölum.  Nokkrir krókusar farnir að gægjast upp úr moldinni.   Veðurspáin í dag er svipuð og í gær.  Vorið er ekki alveg komið en það er á hraðbyri til okkar.

Að hjálpast að

Mjög oft í leik og starfi þegar leysa þarf einhver sameiginleg verkefni sem enginn einn hefur á sinni könnu kemur upp sú eðalhugmynd til að leysa verkefnið þá verði bara ,,Allir að hjálpast að."

Það verður að segjast eins og er að ekki er reynsla mín góð af verkefnaskilum í slíkum verkefnum.  Hugmyndafræði er helst notuð til að plata saklausar og hrekklausar sálir sem halda að á bak við fagurgalann sé einhver alvara um að það það ætli menn að gera.  Því að þegar til alvörunnar kemur þá eru menn yfirleitt afskaplega uppteknir í að leysa sín eigin persónulegu og prívat verkefni og hafa engan tíma aflögu í ,,Allir að hjálpast að" verkefnið.  Eru svo alvega steinhissa þegar eitthvert verkefni sem allir voru svo jákvæðir yfir því að hjálpast að við að leysa sé ekki lokið.  Telja sjálfsagt að allir aðrir en þeir hljóti að hafa gnægt af tíma og nennu.

Siðast þegar slíkt mál kom upp í félagskap sem ég er í þá maldaði ég fyrst í móinn en sagði síðan ekki eitt einasta orð því menn voru svo jákvæðir út í það að hjálpast að við að vinna í ákveðnu máli.  Lítið gerðist en ég tók mig til og vann í málinu í tvo klukkutíma og leysti málið að hluta.  Síðar var ég spurð að því hvernig gengi að með verkefnið og þá var svarið hjá mér: Já, það verkefni - ég hjálpaðist að við það í tvo klukkutíma á miðvikudagskvöldið. En þú??


Góupáskar

Ég las í Mogganum í morgun að í ár eru sjaldgæfir góupáskar.  Ég á afmæli 22. mars og ef afmælið mitt er á sunnudegi þá er það yfirleitt Pálmasunnudagur.  Hins vegar man ég ekki eftir því að hafa átt afmæli á páskum en núna á ég semsagt afmæli á laugardegi fyrir páska.  Og það er ekkert skrítið að ég muni ekki eftir því það samkvæmt Mogganum var það árið 1940 sem síðustu góupáskar voru en þá var ég ekki fædd.  

Það er gaman að norræna tímatalinu en ég á þó í vandræðum með að muna nöfnin á mánuðunum. Ágætt að reyna að rifja þetta upp svona í morgunsárið.  Ég man helst eftir nöfnunum þorra, góu, einmánuður, harpa og skerpla.  Heyjannir er mjög lýsandi nafn á mánuði en ekki get ég sagt að mánaðarnöfnin mörsugur og gormánuður séu sértaklega falleg.  Mér finnst ýlir vera skrítið nafn.  Fleiri man ég ekki en sé á wikipedíu að það eru nöfn eins og haustmánuður og tvímánuður.  Þá er bara eftir eitt lýsandi nafn á mánuði.  Sólmánuður.  Það er flott nafn á mánuði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband