Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Frænka og frændi

Kraginn virðist vera staðurinn þar sem hlutirnir eru að gerast.  Frænka mín Katrín Júlíusdóttir gefur kost á sér í annað sæti Samfylkingarinnar.  Frændi minn Andrés Magnússon geðlæknir til aðgreiningar frá öðrum Andrésum Magnússonum þessa lands hefur tekið þá ákvörðun að bjóða sig fram á lista Vinstri grænna í kraganum.  Ég fann ekki út í hvaða sæti frændi minn er að bjóða sig í, kannski bara í fyrsta sætið?

Ég fór í smá leit á internetinu hér í morgun til að kanna stöðu þessa nýjasta frambjóðanda í mínum ættboga á netinu.  Það verður að játast að frændi hefur ekki haslað sér neinn völl þar.  Hann er ekki að blogga, er ekki búinn að koma sér upp heimasíðu og er ekki á fésbókinni.  Andrés minn ég held að þú verðir að hysja upp um þig brækurnar og setja sjálfan þig út á netið.  Ég tel það næsta víst að það nægi ekki til að ná brautargengi í forvali að sjást í sjónvarpinu eða vera á fundum.     


Kosningar

Þá eru kosningar framundan og frambjóðendur farnir að gefa sig fram.  Allir þeir frambjóðendur gefa á þessum hveitbrauðsdögum upp þau mál og stefnur sem viðkomandi stendur fyrir.  Það er allt gott og blessað og ekki nema gott eitt um það að segja.  Hins vegar hefur allt of oft illa farið fyrir öllum þessum góðu einstaklinsmiðuðu framboðsstefnum viðkomandi einstaklinga þegar og ef hann verður þeirra gæfu aðnjótandi að hljóta brautargengi til að setjast inn á hið háa Alþingi.  Þá taka þar við völd önnur sjónarmið og annað föruneyti en það sem var uppá teningnum í prófkjörs og kosningaslagnum.

Því þegar þú ert kominn inn fyrir dyr Alþingis sem kjörinn alþingismaður stjórnmálaflokks þá átt þú að hlýða stefnu flokksins hvað sem tautar og raular.  Hvað sem þú sem einstaklingur hafði þig í frammi í þinni kosningabaráttu, þá skiptir það engu.  Allir þeir alþingismenn sem nú sitja á þingi hafa allir sem einn verið vel brennimerktir af þessari flokkshollustu.  Eitthvað svo haltu kjafti og vertu sæt - legt að mínu mati.  Ég vona að ég sem kjósandi fái eitthvað mun betra val til að kjósa í komandi alþingiskosningum en ég hef haft síðustu kosningar.  Einnig finnst mér það vera grundvallaratriði að þeir flokkar sem bjóða sig fram til Alþingis gefi það upp í kosningabaráttunni með hvaða flokkum öðrum þeir vilji fara í stjórn.  Þetta gagna óbundinn til kosninga - bull - er eitt ógæfuspilið í spilastokk okkar lands.  Mig langar ekkert til þess að vera sífellt að kjósa einhverskonar dulbúinn framsóknarflokk.  Nei takk fyrir.  


Ráð í atvinnuleysi

Nú er vetur í bæ og atvinnuleysistölurnar vaxa hratt á hverjum degi.  Þetta er ekki gott, þetta er mjög slæmt.  Verst að nú virðist atvinnuleysið ætla að bíta á okkur Íslendingum en þegar kreppan hóf göngu sína hér á Íslandi í haust þá voru vonir manna bundnir við það að atvinnuleysið kæmi helst niður á erlendu vinnuafli sem væri tímabundið staðsett hér á klakanum og myndi snarlega snautast í burtu við fyrsta hanagal.  Vér Íslendingar áttum ekki að finna eins mikið fyrir atvinnuleysisvofunni.  Nú er annað komið á daginn og alls ekki fyrirséð hvernig hægt verður að bjarga málum.  Nema náttúrulega með því að fólk flytjist af landi brott og reyni fyrir sér á erlendri grundu.  Slíkur fólksflótti er þegar hafinn, ég veit um nokkra sem eru þegar farnir, Kanada kemur sterkt inn og eins eru menn að fara til Noregs.  Bara svona ef þið vissuð það ekki og haldið að menn séu bara að ljúga til um fólksflótta frá Íslandi.

Á vef Vinnumálastofnunar eru gefnar upp nýjustu tölur um fjölda atvinnulausra í landinu.  Í dag er talan 14.724.  Ég hef verið að velta því fyrir mér hvað hægt er að gera í þessu árferði.  Vissulega er gott mál að styrkja skólana og eins að styrkja ýmsar framleiðslugreinar.  Einnig mætti koma á ýmsu starfsnámi og/eða styrkja fólk til vinnu hjá fyrirtækjum eða í framleiðslugreinum.  Til dæmis tel ég  það væri mjög gott mál ef komið yrði á fót starfsnámi í Alþingi Íslendinga fyrir fólk sem er atvinnulaust.  Þannig væri hægt að auka fjöldann sem væri starfandi við húsið, menn lærðu að búa til frumvarp og annað, svo og fengið reynslu í því að standa í ræðustól Alþingis.  Kannski gæti fólk sem væri í starfsnámi á Alþingi síðan komið einhverju að sem gagn væri aldrei að vita.  Mér hefur líka fundist eins og það fólks sem starfar á Alþingi sé í einhverjum öðrum heimi en við hinir Íslendingarnir og ef rennerí væri af venjulegu fólki í starfsnámi á Alþingi þá væri kannski möguleiki á því að Alþingismenn gætu gert sér betur grein fyrir því en nú hvernig lífið gengur fyrir sig fyrir utan múra Alþingishússins. Þannig að ég get ekkert séð nema jákvætt við það að koma á starfsnámi á Alþingi Íslendinga fyrir fólk í atvinnuleit.


Obama-mama

Ég var með kveikt á sjónvarpinu um daginn og horfði á innsetningarathöfn forseta bandaríkjanna.  Ég hef aldrei áður spáð í þessa athöfn, þessa innsetningu eða the presidetial inaguration eins og það heitir á bandarísku.  Þetta er mikil athöfn og var um margt áhugavert að fylgjast með henni þótt ég hafi ekkert verið alveg límd við skjáinn.  Maður get semsagt fylgst með göngu fyrirfólksins í litlum hópum eftir göngum þinghússins í Washington út á svið eða svalir þar sem athöfnin fer síðan fram.  Áður en fólkið stígur fram er mikill lúðrablástur og svo þessi sérstaka amríska kynning þar sem karlmannsþulur kynnir djúpri röddu - herra mínir og frúr - hinn háæverðugi þessi þessi þessi, ásamt hinum háævirðuga þessa þessa þessa og svo framvegis.  Mesta furða hvað þulinum tóks að koma þessum háævirðulegu nöfnum og titlum frá sér án þess að frussa mikið eða hiksta. Það getur svo sem verið að þetta sér nauðsynlegt þar sem einhverjar milljónir voru saman komnir á þessum þjóðarvelliv- National mall þar sem hátíðin fór fram. 

Flestir voru nokkuð alvörugefnir og hátíðlegir á svip þar sem þeir gengu út um aðaldyrnar nema fyrrverandi forsetafrú bandaríkjana, Laura Bush, sem brosti og sagði - hi how are you all doing - eða sæl, hvernig hafið þið það, og ég ákvað að hún væri bara fegin að eiga þarna bara eftir fimm mínútur í þeirri stöðu að vera gift forseta bandaríkjanna.  Bush fyrrverandi forseti var einstaklega einmannalegur og dapur á svip þar sem hann gékk fram þinghúsganginn, það spillti kannski dálítið heildarsvipnum á þessari útgöngu hans úr embætti að varaforsetinn Cheyni var í hjólastól eftir að hafa meitt sig í baki við að baksa við pappakassa við flutninga.  Einhvern veginn þá hljómaði sú afsökun á hjólastjólaveru Cheyni ekki trúverður í mínum eyrum.  Sé það ekki fyrir mér að sá maður sé eitthvað að takast á við pappakassa eða nokkurn skapað hlut sem reynir á líkamann.  En þetta er útúrdúr.

Tilvonandi forseti, the president elect, Barack Obama var pínu stressaður að sjá þar sem gékk til athafnarinnar, ég er ekkert hissa, þetta er mikið mál að verða forseti bandaríkjanna.  Ég vona bara að honum takist vel til og ekki síst að honum takist þau stefnumál sem hann setur á oddinn.  Að sumu leyti byrjar hann ágætlega með því að stoppa af strax fangelsið í Qvantanamó.  Síðan verðum maður að bíða og sjá hvort eitthvað þokast hjá honum.  

Ég horfði fyrir nokkru á einn af mínum uppáhalds sjónvarpsþáttum the Daily show með John Stewart þar sem núverandi forsetafrú bandaríkjanna, Michelle Obama var gestur í þættinum.  Mér fannst hún mjög skelegg, t.d. sagði Michelle að hún væri töluvert krítísk á manninn sinn, þe. hún léti hann vita af því ef henni finnst eitthvað ekki ganga upp hjá honum.  Hann yrði að sannfæra þessa Obama - mama eins og hún sagði til þess að geta sannfært aðra.  Ég vona að vera þeirra hjóna í Hvíta húsinu verði árangursrík og að Obama-mama verði ekki jafn fegin að losna úr þeirri prísund síðar meir eins og ég tel að fyrrverandi forsetafrúin hafi verið.


Matsalarmálun

Ég hlustaði í smá stund í gærkvöldi á stjórnmálamann í sjónvarpinu mínu sem gerði samansemmerki yfir kjarasamningi ljósmæðra um daginn og að skipper á bát færi að mála matsalinn á skipinu í ólgusjó.  Mér finnst þetta dálítið merkileg niðurstaða hjá þessum stjórnmálamanni.  Ég veit ekki betur en að alþingismenn hafi fengið dágóðar launabætur um daginn, notabene án þess að þurfa að fara í verkfall né hafa fyrir þeirri matsalarmálun á nokkurn hátt.  Ég veit vel að þeir mega ekkert fara í verkfall grey fólkið en ég verð nú bara líka að benda á að þar sem Alþingi starfar aðeins um fjóra mánuði á ári, eða eru það kannski fimm, þá yrði maður etv. lítið var við það að alþingismenn færu yfirleitt í verkfall.  En þeir fengu nú úthlutað launahækkun um daginn og sú launahækkun var afturvirk meira að segja.  Af hverju má ekki bera þá launahækkun við matsalarmálun?  En þetta var útúrdúr. 

Það mun semsagt sliga þennan þjóðardall okkar Íslendinga að ríkið var nauðbeygt til að semja um 18%-23% hækkun til ljósmæðra.  Ég man eftir svipuðum röksemdum þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók á sig rögg og hækkaði laun hjá starfsmönnum leikskóla hjá Reykjavíkurborg.  Þá komu fram stjórnmálamenn í sjónvarpið mitt og lýstu því yfir að þessi gjörningur konunnar myndi steypa landinu í glötun.  Mín skoðun er sú að það eru ekki laun til handa láglaunastéttum eða launahækkun til handa kvennastétta ríkisins sem hafa sligað þjóðardallinn.  Þar hafa aðrir þættir eins og máttleysisleg efnahagsstjórn og frjálshyggjufjármálamarkaður gert margfalt meiri óskunda en launahækkun ljósmæðra.  Held að kallinn í brúnni ætti að hætta að velta sér uppúr fimmkallinum sem renna nú til ljósmæðra eftir síðustu kjarasamninga og snúa sér að því reyna að stemma stigu við þeim milljarðatugina sem hafa runnið viðstöðulaust til forstjóranna og lánaspegúlantanna. 


Vilji er allt sem þarf

Ég er mjög ósátt með afgreiðslu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á kröfum ljósmæðra um hækkun launa.  Afgreiðsla rikissjórnarinnar á yfirborðinu er sú að vegna óhagstæðs efnahagsástands sé ekki hægt að hækka laun þeirra. En innst inni er afgreiðsla ríksstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á þann hátt að ríkisstjórnin hefur þann vilja að viðhalda þeim mismun sem er á milli kjara kvennastétta og annara stétta í þjóðfélaginu.

Ljósmæður fara fram á það að fá nám sitt metið til launa til jafns á við hvernig nám annara stétta er metið.  Mér finnst það vera sanngjörn krafa.  Eitt sinn var sér skóli fyrir ljósmæður og einnig sér skóli fyrir hjúkrunarkonur.  Í þann tíma fengu þessar stéttir ekki sömu laun fyrir sína vinnu og til dæmis læknar af því að læknanámið var háskólanám.  Síðan er búið að háskólavæða þessar tvær greinar í heilbrigðisgreinar og ljósmæður þufa að ljúka sex ára háskólanámi til að ná þeirri gráðu.  En það er enginn vilji hjá ríkisstjórninni til að þeirra nám, störf og ábyrgð sé metin til jafns við aðrar sambærilegar stéttir.  


Karlar eru körlum bestir

Til hamingju með þennan merkisdag 19. júní Íslendingar.  Í ár eru 93 ár síðan konur fengu kosningarétt.  Það voru miklar baráttukonur sem komu þessu máli í höfn með hjálp karlanna sem höfðu völdin í sínum höndum og það voru bara karlarnir sem gátu komið málinu í höfn.  Konur höfðu engan rétt né möguleika á einu né neinu í því efni nema reyna af öllum mætti að hafa áhrif á karlanna og hvetja þá til góðra verka. 

Þrátt fyrir að nú séu 93 ár liðin frá þessum merka tímapunkti í Íslandssögunni eru völdin enn í karlahöndum og þeir sem ráða og stjórna.  Konurnar eru þó komnar á kantinn en ekki meira en svo.  Þar hafa þær fengið að sitja og komast hvorki lönd né strönd fyrir körlunum þrátt fyrir góða tilburði og nokkrar skyndisóknir.  Kaup og kjör kvenna á Íslandi og möguleikar þeirra til áhrifa hvort sem er í stjórnmálum eða í atvinnulífi er ekki jöfn á við möguleika karlanna.  Það er dálítið gott hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í einhverju blaðanna í dag þetta með að það sé ekki rétt að klifa alltaf á þessu gamla góða - konum séu konum verstar heldur sé það réttara að segja -  karlar eru körlum bestir.  Það er alveg rétt hjá henni því eins og í gamla daga þegar það voru bara karlarnir sem gátu veitt konunum réttindi til þess að fá að kjósa þá er það í höndum karla að mjög miklu leiti að jafna stöðu karla og kvenna á Íslandi. 

En ég vildi óska að þær konur sem hafa fengið að komast út á fótboltavöll stjórnmálanna og til valda og standa út á vellinum í liðinu með körlunum væru öflugri málsvarar kvennabaráttunnar á Íslandi.  Ég vildi óska að þær væru jafn öflugar og konurnar voru fyrir 93. árum síðan að hafa áhrif á karlana sem þær eru með í liði að hvetja þá til góðra verka.  Því þær eru þó með strákunum í liðinu en ekki á áheyrendapöllunum eins og konurnar voru fyrir 93. árum síðan.  En ég vildi líka óska að konur væru hreinlega öflugri hver og ein.  Því það er alveg ljóst að það fæst ekki jafnrétti á Íslandi með því lagi að konurnar sitji prúðar á kantinum og bíði eftir því að körlunum þóknist að rétta þeim jafnréttið.  Því verður ekki náð nema með því að konur sæki fram sínkt og heilagt.

Svo að lokum af því að mér finnst því miður ekki í sjónmáli að jafnrétti verði náð í bráð á Íslandi þá ætla ég að skrifa hér kafla upp úr bók Bríetar Héðinsdóttur, Strá í hreiðrið, bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, byggð á bréfum hennar sem kom út árið 1988:

En vissulega er brotið í blað í íslenskri kvennasögu strax 1915 - stór áfangasigur í baráttunni við bókstaf laganna.  Eðlilegt var að honum skyldi fylgt eftir með baráttu fyrir leiðréttingar á fleiri lagaákvæðum.  En - eins og Bríet skrifar ári seinna:,,Langt er eftir að aðaltakmarkinu sé náð.  Sú hugsjón er eins og sjóndeildarhringurinn:  Því lengra sem við göngum því fjær sýnist hann."

 


Hver ákvað það?

Gott viðtal við Andreu Jónsdóttur í einhverju helgarblaðanna.  Þar segir hún m.a. frá því þegar hún vann við það að búta niður og pakka smjörfjallinu fræga hér um árið.  Hún komst að því að karlmennirnir sem voru unnu við hliðina á henni við smjörskurð og niðurpökkun voru á hærra kaupi en hún.  Andrea tók sig til og talaði við yfirmanninn og spurðist fyrir um það af hverju þeir væru á hærra kaupi við sömu vinnu og þá var henni svarað svo til að þeir væru á vaktavinnukaupi við þessa vinnu en hún ekki.  Þar með væru þeir á hærra kaupi en hún.  Og þá spurði Andrea - og hver ákvað það?

Ekki tókst Andreu að sannfæra yfirmanninn að hún ætti skilið að fá vaktavinnukaup fyrir sömu störf og karlarnir við hliðina á henni.  Yfirmanninum fannst ekkert ahugavert við það að konan hefði lægra kaup en strákarnir.  Hann ákvað það.   Las í gær að samkvæmt könnun í Þýskalandi eru konur þar almennt með 20% lægri laun en karlar.  Hver ákvað það??


Heimsóknarvinurinn er músíkalskur

því hann er núna farinn að semja undir lagboða og senda til síðunnar.  Heimsóknarvinurinn er líkt og ég hrifinn af laginu og ljóðinu Næturljóð úr Fjörðum og samdi eftirfarandi vísu við það lag.

Veltis á ýmsu veröldin

váglegur skjálfti á Suðurlandi.

Að okkur steðja óhöppin

Ólafur Ragnar sjálfkjörinn.

Alþingi loksins fór í frí

flestallir gleðjast af því.

 


Verðbólgan

Verðbólgan mældist 12,3% í maí.  Verðbólgan mældist 11,6% í april.  Mér finnst alltaf góð sagan af bóndanum í Skagafirði sem svaraði svo til einhvern tímann í fyrndinni þegar honum var sagt að það ríkti góðæri í landinu og nefndar prósentutölur því til sönnunar að það þýddi ekkert að fara með einhverjar útreiknaðar meðaltalsprósentur og hlutfallstölur um velsæld landans, því hann væri sjálfur með besta mælikvarðann á því hvort væri góðæri og hagsæld í hans ranni.  Það væri hans eigin pyngja.  Þyngd hennar segði honum allt sem segja þurfi um ástandið.  Því þýddi ekkert að lesa yfir honum útgefnar forsendur sem bentu til góðæris, ef hans eigin pyngja væri létt þá væri ekkert góðæri hjá honum.

Ég fór nefnilega að versla í gær og ég verð svo sannalega vör við hækkun verðlags á matvöru í minni buddu.  Miðað við útgefnar meðaltalsprósentur skellt á matvöruna þá hefur 5000 krónu innkaup í byrjun mars kostað mann kr. 5.615.- í byrjun apríl og kr. 6.266.-  Mér finnst hækkunin vera meira en þetta síðustu mánuði.  Ég fór áður og keypti töluvert inn fyrir um 5000 kall en er núna að greiða 8000 krónur fyrir mjög svipaða matarinnkaup.  Þetta er miklu meiri munur en útreiknaða meðaltasverðbólgan er að gefa.  Einhverstaðar er vittlaust gefið í þessum kapal það er á hreinu.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband