Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Að hjálpast að
12.3.2008 | 18:12
Mjög oft í leik og starfi þegar leysa þarf einhver sameiginleg verkefni sem enginn einn hefur á sinni könnu kemur upp sú eðalhugmynd til að leysa verkefnið þá verði bara ,,Allir að hjálpast að."
Það verður að segjast eins og er að ekki er reynsla mín góð af verkefnaskilum í slíkum verkefnum. Hugmyndafræði er helst notuð til að plata saklausar og hrekklausar sálir sem halda að á bak við fagurgalann sé einhver alvara um að það það ætli menn að gera. Því að þegar til alvörunnar kemur þá eru menn yfirleitt afskaplega uppteknir í að leysa sín eigin persónulegu og prívat verkefni og hafa engan tíma aflögu í ,,Allir að hjálpast að" verkefnið. Eru svo alvega steinhissa þegar eitthvert verkefni sem allir voru svo jákvæðir yfir því að hjálpast að við að leysa sé ekki lokið. Telja sjálfsagt að allir aðrir en þeir hljóti að hafa gnægt af tíma og nennu.
Siðast þegar slíkt mál kom upp í félagskap sem ég er í þá maldaði ég fyrst í móinn en sagði síðan ekki eitt einasta orð því menn voru svo jákvæðir út í það að hjálpast að við að vinna í ákveðnu máli. Lítið gerðist en ég tók mig til og vann í málinu í tvo klukkutíma og leysti málið að hluta. Síðar var ég spurð að því hvernig gengi að með verkefnið og þá var svarið hjá mér: Já, það verkefni - ég hjálpaðist að við það í tvo klukkutíma á miðvikudagskvöldið. En þú??
Góupáskar
1.3.2008 | 09:40
Ég las í Mogganum í morgun að í ár eru sjaldgæfir góupáskar. Ég á afmæli 22. mars og ef afmælið mitt er á sunnudegi þá er það yfirleitt Pálmasunnudagur. Hins vegar man ég ekki eftir því að hafa átt afmæli á páskum en núna á ég semsagt afmæli á laugardegi fyrir páska. Og það er ekkert skrítið að ég muni ekki eftir því það samkvæmt Mogganum var það árið 1940 sem síðustu góupáskar voru en þá var ég ekki fædd.
Það er gaman að norræna tímatalinu en ég á þó í vandræðum með að muna nöfnin á mánuðunum. Ágætt að reyna að rifja þetta upp svona í morgunsárið. Ég man helst eftir nöfnunum þorra, góu, einmánuður, harpa og skerpla. Heyjannir er mjög lýsandi nafn á mánuði en ekki get ég sagt að mánaðarnöfnin mörsugur og gormánuður séu sértaklega falleg. Mér finnst ýlir vera skrítið nafn. Fleiri man ég ekki en sé á wikipedíu að það eru nöfn eins og haustmánuður og tvímánuður. Þá er bara eftir eitt lýsandi nafn á mánuði. Sólmánuður. Það er flott nafn á mánuði.
Hlaupársdagur
29.2.2008 | 08:09
Dagurinn í dag hlaupársdagur er sérstakur aukadagur fyrir okkur öll. Um daginn las ég í blöðunum að í dag ættu alls 204 Íslendingar afmæli. Ég hefði haldið að þeir væru fleiri. Einfalt reiknidæmi út frá fjölda Íslendinga og fjölda daga á ári gefur: 300.000/365 = 821,9 eða hækkað upp og jafnað þá eiga að jafnaði 822 Íslendingar afmæli á degi hverjum.
Nú er það þekkt að börnin fæðast ekki jafnt yfir árið og dreifast alls ekki jafnt yfir dagana nema síður sé. Einhvern tímann sá ég mannfjöldapælingar og dreifingu fæðingardaga Íslendinga yfir mánuðina og mig minnir endilega að haustmánuðirnir eigi þar vinninginn þ.e. að fleiri Íslendingar séu fæddir í september - nóvember en önnur misseri. Ég þarf að kanna þetta betur einhvern tímann, mér mér finnst gaman að spá í svona hluti, við mannskepnan höldum að við höfum svo mikla stjórn en við erum seld ýmsum náttúrulegum kröftum þótt að við teljum annað.
Ég þekki persónulega tvo Íslendinga sem eiga afmæli í dag, það er Einar B. Pálsson, verkfræðingur sem er 96 ára gamall sem kenndi mér í háskólanum í den og síðan fröken Rakel Grímsdóttir sem er 16 ára gömul og dóttir Dóru og Gríms. Samkvæmt mínum útreikningum miðað við að 204 Íslendingar eigi afmæli á hlaupársdegi þá þekki ég persónulega semsagt tæplega 1% af íslenskum afmælisbörnum dagsins í dag. Ef ég yfirfæri þessa þekkingaprósentu yfir á aðra daga ársins þá ætti ég að meðaltali að þekkja 8 Íslendinga sem ættu afmæli á hverjum degi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)