Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
Kettir
4.7.2008 | 06:55
eru skrítnar skepnur. Það eru tveir kettir í þessu húsi, annar kötturinn á heima á efstu hæðinni og heitir Svarti Pétur og hinn kötturinn er í pössun á efri hæðinni og heitir Kisan Tangó. Kisan Tangó hefur tekið okkur, þe. mig og mína fjölskyldu í fóstur og er flutt hingað inn. Okkur finnst það ekkert verra og hún stjórnar okkur þvílíkt. Þegar maður er orðinn svona stjúpkattarfjölskylda og farin að hafa áhyggjur af flandri katta þá fer manni líka að berast til eyrna ýmsar kattarsögur. Gunnar heyrði eina slíka núna um daginn.
Það var ungur maður sem átti kött en kötturinn hafði þann háttinn á að á hverju kvöldi eftir kvöldmat þá fór kötturinn út og kom síðan aftur heim seint um kvöldið allt að því um miðnætti. Með tímanum fór þessi köttur að fitna og vildi ungi maðurinn sporna við þeirri þróun hjá kettinum sínum og fór að halda í við hann í mat. Allt kom fyrir ekki kötturinn hvarf út á hverju kvöldi og hélt áfram að fitna. Eitt kvöldið ákvað ungi maðurinn að njósna um köttinn sinn. Athuga hvað hann væri eiginlega að gera á þessu kvöldrölti sínu. Kötturinn fór út eins og hann var vanur og eigandinn fylgdi í humátt á eftir honum. Fyrst fór kötturinn í hús í nágrenninu þar sem bjó gömul kona. Gamla konan tók fagnandi á móti kisu klappaði henni og gaf rjóma í skál. Þegar kisan var búin að þiggja klapp og rjóma fór hún aftur af stað og eigandinn á eftir. Þar fór kötturinn rakleitt inn um glugga í kjallaraíbúð þar í nánd og settist upp í sófann og tók til við að horfa á sjónvarp með ungum manni sem þar bjó og tók vel á móti kisu. Kötturinn og ungi maðurinn horfðu saman á eina videóspólu og fékk kötturinn eitthvað snakk með sjónvarpsglápinu. Það fylgdi ekki sögunni hvað eigandinn lá lengi á glugganum og fylgdist með kettinum sínum. En hann var allavega vísari um hvað kötturinn hans var að bardúsa á hverju kvöldi og að það þýddi að halda í við köttinn í mat á heimaslóð. Kötturinn var búinn að taka sér a.m.k eina gamla konu og einn ungan mann í fóstur.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Yfir í fjörðum
1.7.2008 | 07:28