Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Enron, klárustu strákarnir í herberginu
13.7.2008 | 09:05
Í gærkvöldi horfði ég á endann á myndinni: Enron the smartest guys in the room á einni af norrænu stöðvunum. Það er í raun ótrúlegt að sjá hvernig þetta fólk hagaði sér. Fólkið sem stjórnaði og vann hjá Enron. Þarna kemur fram t.d. að stjórnendur fyrirtækisins voru sjálfir farnir að selja hlutabréf sem þeir áttu í Enron meðan þeir hvöttu starfsmenn til að setja allan sinn sparnað í hlutabréfin. Síðan þegar hlutabréfnin hrundu á markaði þá var lokað fyrir sölu hlutabréfa sem voru í eign lífeyrissjóða starfsmanna Enron en stjórnendurnir seldu og seldu sín hlutabréf.
Einnig er áhugavert að spá í þetta samkeppnissjónamið á vinnustað. Í Enron var fyrirtækjamótallinn með þeim hætti að þú varst alltaf í samkeppni. Samkeppni og keppni var góð og best af öllu var að sigra. Sigur var góður sama með hvaða hætti hann náðist. Ef þú stóðst ekki söluvæntingar varstu rekinn. Sífellt var verið að reka fólk og ráða nýtt - allir að keppa endalaust. Þú varst hvattur til að ná árangri alveg sama hvaða meðulum þú notaðir. Að plata fólk upp úr skónum - gott hjá þér - að beyja reglurnar aðeins - fínt hjá þér. Einn eilífar fótboltaleikur í gangi þar sem engar reglur giltu aðrar en að selja, selja og græða, græða - nó question asked.
En það var eitthvað rotið í Enron. Ýmsar fjárfestingar og veel og deel gengu ekki upp og til þess að fiffa dæmið gátu þeir með hjálp banka og virðulegra endurskoðunarfyrirtækja stofnað margvísleg fyrirtæki út og suður. Þessi skúffufyrirtæki voru síðan í sífellu í þykistu bisness við Enron þannig að bókhaldslega fluttu þeir allt tap sem varð hjá Enron yfir í þessi plat fyrirtæki sín. Enron sýndi hagnað og hagnað og bankarnir og endurskoðendurnir kvittuðu uppá bókhaldið og pappírana. Allt rosalega löglegt og klárt og kvitt. Above board. En svo komu sprungur í veggina og svikamyllan hrundi. En eins og einn viðmælandinn segir í myndinni - It happened with Enron and it can happen again -
Góði hirðirinn
5.7.2008 | 08:04
Mömmu vantaði aukasjónvarp til að hafa inní herbergi fyrir gesti þá aðallega barnabörn og barnabarnabörn sem fá stundum að koma í heimsókn á Krókinn og dvelja smá tíma í pössun hjá foreldrum mínum. Þau voru með gamalt sjónvarp sem eitt barnabarnið hafði skilið eftir hjá þeim en það sjónvarp nýttist til tölvuleikjaspila og í myndagláp. En þetta gamla sjónvarp gafst upp fyrir ekki löngu og um daginn í öllu fótboltahafaríinu þá var mamma að spá í það hve þægilegt það væri að hafa svona auka sjónvarp. Ekki síst þegar þegar afinn hertekur eina sjónvarpið á heimilinu og harðneitar að gefa blessuðum barnabörnunum það eftir í spólugláp.
Hún nefndi þetta við mig um daginn og ég sagðist stax við hana að ég skildi athuga fyrir hana að kaupa sjónvarp í Góða hirðinum. Ég hef góða reynslu af því að kaupa þar rafmagnsvörur á góðu verði, kaffivélin mín er þaðan, ég keypti myndbandstæki á 800 krónur þegar gamla okkar varð alveg ónýtt og einnig keypti ég eitt aukasjónvarp fyrir heimilið. Öll þessi tæki ganga ágætlega ennþá amk. Ég komst í Góða hirðirinn klukkan hálf eitt í gær og náði að kaupa þar ágætis Panasonic sjónvarpstæki sem lítur allavega sæmilega út. Sjónvarpið er með viku skilafrest og þar sem það kemst ekki norður í vikunniri viku verð ég að leggja það á mig að prófa hvort það gengur út vikuna án vandræða.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pyt með det
3.7.2008 | 07:30
Verðmerkingar í Bónus eru ekki nógu góðar. Ég fór í gær að versla og ég leitaði og leitaði í þremur tilfellum af verðum á vörunni sem ég hafði áhuga á að kaupa og fann verðið hvergi. Mér finnst þetta alls ekki nógu gott. Maður á að fá að vita verðið á vörunni í verslununum. Í gamla daga voru settir litlir verðmiðar á hverja einustu vöru, hvern einasta pakka. Þetta er ekki lengur gert. Mér finnst satt best að segja vera spurning hvort ekki verður hreinlega að endurnýja þá kröfu að allar vörur séu verðmerktar og verslunin fái ekki leyfi til að nota aðeins rafrænar hillumerkingar.
Ég hef alltaf látið það fara dálítið í taugarnar á mér hvað verð á matvörum hér hjá okkur á Íslandi er síbreytilegt. Maður þarf alltaf að tékka verðið á matvörunni, sérstaklega á það við um ávexti og grænmeti og einnig á verðinu á kjötvörum og fiski. Þegar ég var í Danmörku árin 1984 - 1986 þá var allt annar kúltur þar á matvöruversluninni. Þar var miklu meiri stöðugleiki í verðlagningu og ekki komið eins aftan að neytandanum eins og mér hefur alltaf fundist vera raunin á matvörumarkaði hér á Íslandi. Ég held að allir viti hvað ég á við með þessari staðhæfingu minni en til þess að fyrirbyggja allan miskilning þá á ég við það að kílóverðið á eplum getur hækkað á einni viku um hundruðir króna án þess að maður geti á nokkurn hátt sem neytandi varað sig á því að nú séu eplin orðin dýrari. Þá á ég við að maður vissi að verðið á eplum myndi hækka því nú væri síðasta haustskipið komið eða eitthvað álíka gáfulegt. Ég tel að meðan endalaust er verið að hræra í verðum á matvöru þá sé mjög erfitt fyrir neytendur að fá sæmilega verðvitund.
Égfór inná heimasíðu Neytendastofu og náði þar í eftirfarandi fróðleik um verðmerkingar á vörum í búðum. Síðan er það spurning í mínum huga hverjir það eru sem fylgjast með því hvort þessum reglum er framfylgt. Ætli það sé ekki bara ASÍ eða er það kannski Dr. Gunni? Mér finnst eins og þetta séu einu aðilarnir hér á landi sem eru eitthvað að beyta sér í neytendamálum hér á landi. Eða hverjir eru að gera verðkannanir í verslunum? Hverjir eru að fylgjast með því að lögum og reglum sé framfylgt. Ég hef hvergi orðið vör við þessa aðila. Þeir eru hvergi sjáanlegir í íslensku þjóðfélagi í dag. Fínt að hafa falleg lög og reglugerðir um óréttmæta viðskiptahæti og gagnsæi markaðarins og hvað veit ég. En meðan ekkert er haft með því að fallegu og vel orðuðu lögunum og reglugerðunum sé framfylgt þá segir markaðurinn bara eins og danskurinn --Pyt med det.
Verðmerking á vörum
Til viðbótar ákvæðum III. kafla laga um óréttmæta viðskiptahætti og gagnsæi markaðarins nr. 57/2005 er í reglum nr. 580/1998 um verðmerkingar er að finna nánari útfærslu á því hvernig staðið skuli að því að verðmerkja vörur. Reglurnar kveða á um að verðmerkja skuli hverja pakkningu eða sölueiningu og að verðið skuli vera annaðhvort á vörunni sjálfri eða við vöruna. Þannig er mjög mikilvægt, t.d. þegar verð vöru er gefið upp á hillu, að það sé greinilegt til hvaða vöru verðmerkingin vísar.Hið sama á einnig við um vörur í sýningargluggum. Reglurnar taka til allra vara sem seldar eru neytendum og til allra verslana. Ástæðan fyrir því að svo mikilvægt er að verð sé á vörunni sjálfri eða við hana er sú að einungis þannig geta neytendur auðveldlega áttað sig á samhenginu á milli vöru og verðs. Þannig verður verðmerking á hillu alltaf að vera alveg við vöruna og eins nálægt henni og mögulegt er þegar verðmerkt er með skilti eða verðlista.
Heimilin eiga að spara
21.6.2008 | 10:50
Núna er það ráðið við efnahagsvandanum heyri ég í fréttum. Mér finnst allavega að nóg sé komið af erlendum skuldum sem einhverjir aðrir en ég hafa tekið þótt að mér sýnist svo að mér sé núna ætlað að borga fyrir þau lán sem voru tekin án þess að ég væri spurð sérstaklega.
Ég heyrði þessa reynslusögu hjá vinkonu minni í fyrrasumar. Þau hjónin höfðu farið á einhver fellihýsasölustað á föstudagseftirmiddegi til að láta laga eitthvað dims í fellihýsinu sínu. Þar sem þau bíða þarna eftir þjónustu þá svifur inn á staðinn ung íslensk vísitölufjölskylda, pabbi, mamma og tvö börn. Vísitölufjölskyldan unga ætlaði að drífa sig af stað í útilegu þessa helgi sem var að byrja en vantaði til þess fellihýsi sem átti að kaupa þarna á staðnum. Þau skoðuðu úrvalið og tóku ákvörðun um hvaða fellihýsi þau vildu. Síðan átti að borga. Þá drógu þau upp kortin og upp hófust símhringingar og tilraunir að posastraui. Til að gera langa sögu stutta þá endaði mál ungu vísitölufjölskyldunnar með þeim hætti að ekkert kortafyrirtæki vildi lána þeim og enginn banki. Þau fengu ekkert hjólhýsið og vinkona mín sagði að þau hefðu nú verið frekar fúl yfir því og börnin vonsvikin. Unga vísitölufjölskyldan virtist ekki gera sér nokkra grein fyrir fjárhagsstöðu sinni. Þau voru með nokkur kort á takteinum og voru í þjónustu við nokkra banka. Þeim fannst sjálfsagt að þau gætu keyrt af stað með þriggja milljón króna fellihýsi eftir korters dvöl og skoðun í versluninni. En lausafjárstaða þeirra og fjárhagsstaða var með þeim hætti að enginn vildi lána þeim lengur.
Ég held að þessi tiltekna unga vísitölufjölskylda sé ekkert einsdæmi um hegðun okkar Íslendinga síðustu misserin. Verst finnst mér hvað fyrirtæki og bankar hafa valsað um eins og vísitölufjölskyldan unga og tekið lán á lán ofan án nokkurrar fyrirhyggju. Nú er komið að því að þeirra kortafyrirtæki og bankar hafa skrúfað fyrir lánin. Lánastoppið er kallað lausafjárskortur og einhverjum öðrum fallegum orðum og við blasir efnahagskreppa. En eitt ráðið í þeirri efnahagskreppu er semsagt að heimilin eigi að spara. Það getur svo sem vel verið að það sé ágætis ráð í sjálfu sér og að betra sé seint en aldrei. Finnst samt að það hefði átt að fá fyrirtækin til að spara sér lántökur fyrir langa löngu síðan.
Lán og lán
11.6.2008 | 07:11
Las í Fréttablaðinu í morgun frétt þess efnis að nú sé vonast til að lánadrottnar nái samkomulagi um fjármögnun á fasteigna og þróunarfélaginu Nýsi sem talið er skulda um fimmtíu milljarða. Ef ég skil þessa frétt rétt þá gat Nýsir ekki fengið lán til að geiða afborganir af lánum sínum í upphafi mars sl. og hafa farið fram viðræður og vinna við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins þar sem stefnt sé að því að ljúka málinu með greiðslu á 40-50% af kröfum. Fréttin endar á því að talið sé mikilvægt að bregðast við á ábyrgðan hátt því mikið sé í húfi.
Ég er alveg handviss um það að það margborgar sig að bregðast við á ábyrgan hátt í þessu máli og einnig að mikið sé í húfi fyrir alla aðila. Mér finnst líka sjálfsagt að bankakerfið bregðist síðan þegar þessi afgreiðsla verður í höfn við á jafn ábyrgan hátt þegar aðrir aðilar en Nýsir lenda í greiðsluerfiðleikum með afborganir af lánum sínum og í lausafjárerfiðleikum Að öllum lánþegum bankakerfisins sem eiga í slíkum erfiðleikum verði þá boðin þjónusta um viðræður og samninga um aðgerðir til að leysa úr stöðunni þar sem uppi á borðum verði tilboði frá kröfuhöfum um að ljúka kröfum með greiðslu 40-50% krafna. Það er réttlátt og réttsýnt.
Að rækta sínar eigin kartöflur
29.3.2008 | 09:12
Við hjónin höfum ræktað okkar eigin kartöflur frá okkar fyrstu tíð. Við höfum leigt garðland uppí Skammadal það sem við höfum sett niður kartöflur á hverju vori síðan við hófum búskap. Fyrstu árin fóru í það að læra á þessa ræktun ekki síst hvernig hagstæðast væri að standa að henni þannig að sem minnsti tími fari í hana. Eftir bráðum tuttugu ára reynslu erum við orðin nokkuð góð í kartöfluræktinni og erum búin að finna út hvernig okkur finnst hagstæðast og best að stunda hana. Núna í lok mars erum við ennþá að borða okkar eigin kartöflur og eigum eitthvað eftir af uppskeru haustsins. Við erum svo heppin að fá að geyma kartöflurnar í kartöflugeymslu hjá frænda Gunnars, en það er að mínu mati eitt af aðalatriðunum við kartöfluræktunina - að hafa góða kartöflugeymslu.
Ég hef orðið vör við það að fólki finnst það frekar fyndið að við séum að standa í þessum kartöflubúskap við hjónin. Ég hef haft á tilfinningunni að þetta bardús okkar þyki sérviskulegt, hallærislegt og jafnvel molbúalegt. Kannski hefur mér eitthvað sárnað þetta viðhorf sem lýsir sér í þessum hugleiðingum hjá mér núna. Skal ekki um það segja en eitt get ég sagt - bestu kartöflur í heimi eru mínar eigin ræktuðu kartöflur úr Skammadal.
Þegar okkar kartöflur eru uppurnar, sem er yfirleitt svona um miðjan júni þá geri ég á hverju ári heiðalega tilraun til að kaupa þær kartöflur sem þá standa neytendum til boða. Á hverju ári kemst ég að þeirri niðurstöðu að þær kartöflur séu vondar. Því kaupi ég helst aldrei neinar kartöflur úr búð nema bökunarkartöflur á grilltímabilinu. Og þess vegna hef ég ekki orðið vör við að kartöflur hafi núna hækkað um tæp 25% í búðunum.