Færsluflokkur: Ég og mínir
Tengdapabbi
13.1.2008 | 19:50
Sigurjón Sigurðsson,
Fæddur: 04.03.1925 Látinn: 06.01.2008
Jarðaður frá Dalvíkurkirkju: Laugardaginn 12.01.2008.
Erum nýkomin úr ferð norður í land á jarðaför tengdaföður míns. Færðin var ágæt, veðrið mjög gott og komu mjög margir á jarðaförina sem var falleg. Hér er tengill á minningargreinina um Sigurjón Sigurðsson, heiðursmann sem kenndi mér eitt og annað til dæmis að njóta náttúrunnar. Hann var yndislegur maður sem gaf mér margt.
Uppgjörið
31.12.2007 | 09:01
Nanna frænka er fyrsti bloggarinn sem ég fór að fylgjast með. Hún gerir upp árið við áramót. Ég hef ákveðið að herma eftir henni. Hér er uppgjör mitt á árinu sem er að líða.
Ég fór í fjarnám í KHÍ til að taka kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla. Þar kynntist ég nýju skemmtilegu fólki og lærði margt og mikið, til dæmis að blogga. Ég kynntist einnig ýmsu nýju um sjálfa mig, t.d. að ég get alveg lært ennþá. Það var skemmtileg og uppörvandi uppgötvun.
Ég fór í tvær utanlandsferðir á árinu, sú fyrri var til Gautaborgar með tveimur vinkonum mínum að hitta þá þriðju. Þar spiluðum við gömlu menntaskólavinkonurnar bridds í þrjá daga, sigldum um Gautaborgarskerjagarð og skoðuðum Gautaborg og nágrenni. Skemmtileg ferð í alla staði. Hin utanlandsferðin mín var til London með fjölskyldunni. Ég hef gert grein fyrir henni að einhverju leiti á þessu bloggi. Sú ferð var skemmtileg og lærdómsrík. Báðar þessar ferðir pantaði ég á sjálf að öllu leyti á netinu. Var að einhverju leiti smeyk við þessa aðferð en hef lært af þessari reynslu minni að þessi aðferðafræði gengur upp. Hef einsett mér að nýta þessa kunnáttu og reynslu á nýja árinu.
Þar sem sumarið var svo gott hér á suðvesturhorninu þá vorum við meira hér heima við en vanalega. Við fórum því sjaldan norður þetta árið. Er þegar farin að hlakka til að komast norður næsta vor.
Börnin tóku út sinn þroska á árinu, sonurinn fór í gagnfræðaskóla sem var töluvert stökk fyrir hann sem virðist ætla að ganga ágætlega hjá honum. Dóttirin eignaðist kærasta sem var ný reynsla fyrir foreldrana sem þeir eru ennþá að vinna úr.
Ég byrjaði að blogga hér á moggablogginu í júní. Ég hef bloggað samtals um 50 blogg. Ég fór yfir bloggið mitt og sorteraði það í flokka. Oftast hef ég bloggað um mig og mína og um tónlist. Það hefur komið sjálfri mér nokkuð á óvart hvað mér finnst gaman að því að blogga.
Og eitt enn. Ég setti mér það markmið á árinu að hætta að vera með yfirdrátt hjá bankanum mínum. Því markmiði náði ég og er stolt af því.
Gleðilegt nýtt ár.
Gítarhetjan
29.12.2007 | 08:56
Við gáfum syninum þennan tölvuleik í jólagjöf. Reyndar fór ég frekar flatt á þessum kaupum, þ.e. ég keypti bara leikinn fyrir jólin og áttaði mig ekkert á því að það þurfti líka að kaupa ,,gítar" til þess að geta spilað þennan leik. Ég hélt náttúrulega að gítarhetjan væri einhverskonar hetja sem leysti þrautir í tölvuheiminum og notaði gítarinn bara inní leiknum sem einhvers konar vopn í báráttu við illu öflin í leiknum. En það var algjör miskilningur hjá mér. Sonurinn var glaður að fá leikinn á aðfangadagskvöldið en sagði að hann gæti ekki farið í hann því það vantaði tæki sem ætti að fylgja með. Jæja á fimmtudag fóru þeir síðan fegðarnir og rétt náðu síðasta gítarnum fyrir leikinn sem til var. Og leikurinn gengur semsagt út á það að þú ert að spila hin ýmsustu lög á gítarinn. Engin slagsmál, ill öfl og/eða falið vopn í gítarnum. Barasta skemmtilegt spillerí. Í fjölskylduboðinu í gær var biðröð að fá að spila. Meira að setja atvinnugítarspilari fjölskyldunnar fékk að taka í gripinn og hafði gaman af.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tíminn líður, trúðu mér
21.12.2007 | 11:59
taktu maður, vara á þér.
Heimurinn er sem hálagler
hugsaðu um hvað á eftir fer.
Svo sannalega rétt þessa dagana. Hlustaði á sunnudaginn á jólatónleika evrópskra sjónvarpsstöðva þ.e. hafði kveikt á útvarpinu allan daginn meðan ég var að bardúsa svona ýmislegt hér heima fyrir. Reyndar sat ég og hlustaði alveg á jólatónleikana héðan frá Íslandi, það voru þær í Graduale Nobilí kór Jóns Stefánssonar sem voru okkar framlag til jólatónleikana og mér fannst takast mjög vel hjá þeim. Einnig fannst mér samsetning tónleikanna hjá Jóni vera mjög góð. Það er í raun frábært þegar maður fer að spá í það þetta hjá útvarpinu að láta semja eitt jólalag á ári sem er frumflutt á jóladag. Ég hef yfirleitt hlustað eftir laginu þennan dag, fer svona eftir hvernig stendur á í eldhúsinu hvort það tekst og oft lætur nýja jólalagið einkennilega í eyrum við frumflutninginn verð að játa það. Það er náttúrulega vegna þess að sum tónlist verður að vinna á, tekur mann ekki alltaf í fyrsta kastinu. Það er allavega í mínu tilfelli oft með nýju tónlistina, mér finnst hún oft æðisleg eftir að hafa hlustað nokkrum sinnum. En að jólalögunum útvarpsins þá er ljóst í mínum huga að þarna eru margar yndislegar perlur. Og spennandi að sjá hvað gerist um hver jól, hvort ný stjarna sé fædd eður ei.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leyndardómar rafmagnsins
14.12.2007 | 09:37
Gamall félagi minn úr verkfræðinni Guðmundur Ásmunds sagði einhvern tímann við mig þegar ég var að spyrja hann nánar út í leyndardóma rafmagnsins að menn væru ekkert allt of vissir um margt varðandi rafmagnið. Þetta væri semsagt ekki mjög nákvæm fræði. Menn vissu nokkurn veginn hvernig rafmagnið hegðaði sér svona yfirleitt og gætu út frá því gert ráð fyrir því hvernig það ætti að haga sér. En rafmagnið ætti síðan til að gera eitthvað annað og þá væri eina ráðið að bregðast við þeirri hegðan í hvert sinn. Mér fannst þetta merkilegt - að með allri þessari rafvæðingu þá væru menn ekki búnir að ná betri tökum á rafmagninu en þetta. Nú er ég orðin margreynd í afskiptum mínum við rafmagnið. Og mín reynsla er sú að ef eitthvað rafmagnstæki er að stríða manni þá er það oft lausnin að taka tækið alveg úr sambandi og hafa það rafmagnslaust í amk. 10 mínútur og stinga því þá aftur í samband.
Heimasíminn hjá pabba og mömmu fór í klessu um daginn. Hann virkaði allt í einu þannig að mamma heyrði ekkert í símanum en þeir sem hringdu í þau heyrðu í þeim. Þannig hélt mamma heilan dag að einhver símahrekkir væru í gangi því enginn var í símanum. Hinu megin heyrði maður hins vegar í foreldrunum diskútera fram og aftur að nú gerðist þetta aftur og enginn væri í símanum osfrv. Jæja eftir að búið var að koma skilaboðum til þeirra um það að síminn væri bilaður upphófst mikið bauk hjá þeim að reyna að laga símann. Í gærmorgun hringdi ég norður og þá svaraði mamma eins og símsvari í símann - Síminn er bilaður hringdu í gemsann minn. Ég hringdi í gemsann og mamma sagðist að heimasíminn væri bilaður og ekkert gengi að fá hann í lag. Taktu hann úr sambandi við rafmagnið og láttu hann bíða þannig í 10 mínútur - settu hann aftur í samband og athugaðu hvort það dugi ekki - var mitt ráð við vandanum. Mömmu fannst þetta ekkert sérstaklega gott ráð, sagðist vera bún að taka hann úr sambandi. En gerðir þú það í 10 mínútur - nei það hafði hún ekki gert. Hún var vantrúuð á þetta sú aldraða en ætlaði samt að prófa. Ég fékk síðan símaskilaboð frá henni seinna um daginn - prófaði þitt ráð og síminn er kominn í lag.
Ég held þegar svona lagað gerist að það sé það vegna þess að það sé eitthvað villuráfandi rafmagn inná rafmagnstækjunum. Þá þarf amk. 10 mínútna sambandsleysi við rafmagn til þess að hreinsa tækið. Afrafmagna tækið - eitt af leyndardómum rafmagnsins.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rjúpa var það heillin
4.12.2007 | 20:38
Hringdi norður í foreldrana á laugardagsmorguninn til að kanna hvernig þau hefðu staðið sig í rjúpnaveiðinni á rjúpnaveiðitímabilinu. Ekki nógu gott sagði mamma sem er fylginautur pabba á sumum rjúpnaveiðiferðum hans. Pabbi þinn er bara búinn að veiða eina rjúpu - síðan kom mikil upptalning á hálku og vondu veðri og almennu rjúpuleysi sem hafði hamlað rjúpuveiði fjölskylduföðursins þetta árið. Það hefur verið lítið um rjúpu í Skagafirðinum þetta árið skilst mér á foreldrum mínum, reyndar lenti mamma í því að reka upp nokkrar rjúpur þegar hún var á sinni daglegu heilsubótargöngu uppí fjall. En þar má ekki skjóta rjúpur. Einhvern tímann voru einhverja sögusagnir um það þarna fyrir norðan að tiltekinn rjúpuveiðimaður ætti það til að fara uppí fjallið fyrir ofan Krókinn og reka upp rjúpurnar sem þar kúrðu á friðuðu svæði upp fyrir fjallgirðinguna. Sagan segir að þá hafi verið brugðið á það ráð að banna líka rjúpuveiðar fyrir ofan fjallgirðinguna. Pabbi og mamma koma hvergi nærri í þessari sögu, sel hana ekki dýrari en ég keypti en pabbi samdi vísu um aumingja rjúpnaveiðimanninn sem mátti eftir þessar trakteringar bara skjóta rjúpuna ef hún sat á fjallgirðingunni. Verst að ég á svo erfitt með að muna vísurnar réttar og pabbi tekur mig þvílíkt í bakaríið ef og þegar ég fer vittlaust með vísur að ég er löngu hætt að reyna það. En við fáum rjúpu í jólamatinn því þau pabbi og mamma fengu til viðbótar rjúpur hjá góðum vini sínum fyrir norðan. Og líka gæs.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mosi og steinar
10.11.2007 | 08:39
Ég var fjórtán ára þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda. Þá fór ég til Bandaríkjanna í vist til Jóu frænku. Ég lenti um kvöld á Kennedy flugvelli og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað mér fannst skrítið að það var myrkur en samt hlýtt og líka síðan lyktin af loftinu. Hún var vond og skítin.
Sonur minn 13 ára fór í fyrsta sinn til útlanda núna um daginn þegar við fórum til London. Nú hefur hann séð heilmikið í sjónvarpinu og á internetið hvernig útlönd eru þannig að ég var að spá í það hvort útlönd kæmu honum eitthvað á óvart og þá á hvern hátt. Ég er búin að spyrja hann að því. Og hvað kom syni mínum á óvart í útlandinu Englandi? Jú þar var hvað trén voru stór og mörg og að hann sá hvergi mosa eða steina.
Þegar ég ítrekaði spurninguna um hvað hefði komið honum mest á óvart með útlöndin þá svaraði hann því til að það sem kom honum mest á óvart var hvað útlöndin voru mikið öðruvísi en Ísland.
Það gæti verið seinna meir að sonur minn átti sig á því að það eru ekki útlöndin sem eru öðruvísi en Ísland. Það er Ísland sem er örðuvísi en útlöndin.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ber ber ber - skagfirsk aðalbláber
25.8.2007 | 08:37
Ég fékk aðalbláber úr Laxárdalnum í Skagafirði í gær. Pabbi og mamma týndu þau í sólskini um daginn. Samkvæmt Svönu frænku þá eru ber sem týnd eru í sólskini sætari og betri en ber týnd í rigningu eða skýjuðu veðri. Svana frænka veit sínu viti varðandi mat og hún er fjölfróð um allt sem viðkemur berjum. Bestu berin í heimi samkvæmt hennar bókum eru úr Þingeyjarsýslum. Berin frá pabba og mömmu týnd í sólskini í Laxárdal í Skagafirði eru með því besta sem ég hef fengið. Við borðuðum berin eins og sælgæti beint með engum sykri né rjóma. Þetta var örugglega einn lítri sem þau komu með og hann var kláraður snarasta í gær. Og þar sem eru svo mikil andoxunarefni í berjunum sem eru svo góð fyrir frumurnar í manni, sbr. sér færslu mína áður, þá finn ég núna í morgunsárið hvað mér líður vel í skrokknum. Ég hef ekki rætt sérstaklega við stofnfrumuna mína eins og konan sem kom fram í sjónvarpinu í vetur, hef ekki reynt það reyndar, en ég núna finn ég bara hvað frumurnar mínar allar saman eru sprækar af þessu yndislega aðalbláberjaáti mínu í gær.
Besta sælgæti í heiminum - íslensk aðalbláber týnd í sólskini.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ísland er landið
19.7.2007 | 08:54
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pétur frændi
6.7.2007 | 07:49
Um daginn var hátíð í Kópavoginum af tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því að Hulda Jakobsdóttir varð bæjarstjóri í Kópavogi. Ég ætlaði að reyna að tengja inná þá frétt en fann hana ekki á mbl.is. Ég komst heldur ekki á hátiðina/fundinn sem ég hefði gjarnan viljað vera því ég tel sögu Kópavogs mjög merkilega og þær áherslur sem þar voru lagðar. Þar var t.d. fljótt mjög mikil áhersla á skóla og leikskólamál.
Ég er með skátenginu í fólk sem á ættir sýnar að rekja til Marbakka. Pétur Þórs frændi minn giftist Huldu Finnbogadóttur og bjó með henni í nokkur ár á Marbakka. Ég áttaði mig seint á tenginunni enda prófessor og sveimhugi hvað margt varðar. Ég hafði átt í samskiptum við Elínu Smára sem er dóttir Huldu því við höfðum í sambandi við vinnu okkar haldið fundi víða um landið. Pétur varð semsagt stjúpi hennar.
Pétur Þórs frændi minn var sérstakur karakter. Hann var svona hlýr töffari. Ég man eftir ættarmóti sem haldið var í Fljótunum árið 2000, þá sat Pétur úti í sólinni og analyseraði ungviðið í fjölskyldunni. Ég varð mjög ánægð þegar hann sagði við mig að strákurinn minn væri mikið í mína ætt - einhvern veginn gladdi það mig mikið.
Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)