Uppgjörið

Nanna frænka er fyrsti bloggarinn sem ég fór að fylgjast með.  Hún gerir upp árið við áramót.  Ég hef ákveðið að herma eftir henni.  Hér er uppgjör mitt á árinu sem er að líða.

Ég fór í fjarnám í KHÍ til að taka kennsluréttindi fyrir framhaldsskóla.  Þar kynntist ég nýju skemmtilegu fólki og lærði margt og mikið, til dæmis að blogga.  Ég kynntist einnig ýmsu nýju um sjálfa mig, t.d. að ég get alveg lært ennþá.  Það var skemmtileg og uppörvandi uppgötvun.

Ég fór í tvær utanlandsferðir á árinu, sú fyrri var til Gautaborgar með tveimur vinkonum mínum að hitta þá þriðju.  Þar spiluðum við gömlu menntaskólavinkonurnar bridds í þrjá daga, sigldum um Gautaborgarskerjagarð og skoðuðum Gautaborg og nágrenni.  Skemmtileg ferð í alla staði. Hin utanlandsferðin mín var til London með fjölskyldunni.  Ég hef gert grein fyrir henni að einhverju leiti á þessu bloggi.  Sú ferð var skemmtileg og lærdómsrík.   Báðar þessar ferðir pantaði ég á sjálf að öllu leyti á netinu.  Var að einhverju leiti smeyk við þessa aðferð en hef lært af þessari reynslu minni að þessi aðferðafræði gengur upp.  Hef einsett mér að nýta þessa kunnáttu og reynslu á nýja árinu.

Þar sem sumarið var svo gott hér á suðvesturhorninu þá vorum við meira hér heima við en vanalega.  Við fórum því sjaldan norður þetta árið.   Er þegar farin að hlakka til að komast norður næsta vor.

Börnin tóku út sinn þroska á árinu, sonurinn fór í gagnfræðaskóla sem var töluvert stökk fyrir hann sem virðist ætla að ganga ágætlega hjá honum.  Dóttirin eignaðist kærasta sem var ný reynsla fyrir foreldrana sem þeir eru ennþá að vinna úr.

Ég byrjaði að blogga hér á moggablogginu í júní.  Ég hef bloggað samtals um 50 blogg. Ég fór yfir bloggið mitt og sorteraði það í flokka.  Oftast hef ég bloggað um mig og mína og um tónlist.  Það hefur komið sjálfri mér nokkuð á óvart hvað mér finnst gaman að því að blogga.

Og eitt enn.  Ég setti mér það markmið á árinu að hætta að vera með yfirdrátt hjá bankanum mínum.  Því markmiði náði ég og er stolt af því.   

Gleðilegt nýtt ár. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband