Hlaupársdagur
29.2.2008 | 08:09
Dagurinn í dag hlaupársdagur er sérstakur aukadagur fyrir okkur öll. Um daginn las ég í blöðunum að í dag ættu alls 204 Íslendingar afmæli. Ég hefði haldið að þeir væru fleiri. Einfalt reiknidæmi út frá fjölda Íslendinga og fjölda daga á ári gefur: 300.000/365 = 821,9 eða hækkað upp og jafnað þá eiga að jafnaði 822 Íslendingar afmæli á degi hverjum.
Nú er það þekkt að börnin fæðast ekki jafnt yfir árið og dreifast alls ekki jafnt yfir dagana nema síður sé. Einhvern tímann sá ég mannfjöldapælingar og dreifingu fæðingardaga Íslendinga yfir mánuðina og mig minnir endilega að haustmánuðirnir eigi þar vinninginn þ.e. að fleiri Íslendingar séu fæddir í september - nóvember en önnur misseri. Ég þarf að kanna þetta betur einhvern tímann, mér mér finnst gaman að spá í svona hluti, við mannskepnan höldum að við höfum svo mikla stjórn en við erum seld ýmsum náttúrulegum kröftum þótt að við teljum annað.
Ég þekki persónulega tvo Íslendinga sem eiga afmæli í dag, það er Einar B. Pálsson, verkfræðingur sem er 96 ára gamall sem kenndi mér í háskólanum í den og síðan fröken Rakel Grímsdóttir sem er 16 ára gömul og dóttir Dóru og Gríms. Samkvæmt mínum útreikningum miðað við að 204 Íslendingar eigi afmæli á hlaupársdegi þá þekki ég persónulega semsagt tæplega 1% af íslenskum afmælisbörnum dagsins í dag. Ef ég yfirfæri þessa þekkingaprósentu yfir á aðra daga ársins þá ætti ég að meðaltali að þekkja 8 Íslendinga sem ættu afmæli á hverjum degi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.