Að rækta sínar eigin kartöflur
29.3.2008 | 09:12
Við hjónin höfum ræktað okkar eigin kartöflur frá okkar fyrstu tíð. Við höfum leigt garðland uppí Skammadal það sem við höfum sett niður kartöflur á hverju vori síðan við hófum búskap. Fyrstu árin fóru í það að læra á þessa ræktun ekki síst hvernig hagstæðast væri að standa að henni þannig að sem minnsti tími fari í hana. Eftir bráðum tuttugu ára reynslu erum við orðin nokkuð góð í kartöfluræktinni og erum búin að finna út hvernig okkur finnst hagstæðast og best að stunda hana. Núna í lok mars erum við ennþá að borða okkar eigin kartöflur og eigum eitthvað eftir af uppskeru haustsins. Við erum svo heppin að fá að geyma kartöflurnar í kartöflugeymslu hjá frænda Gunnars, en það er að mínu mati eitt af aðalatriðunum við kartöfluræktunina - að hafa góða kartöflugeymslu.
Ég hef orðið vör við það að fólki finnst það frekar fyndið að við séum að standa í þessum kartöflubúskap við hjónin. Ég hef haft á tilfinningunni að þetta bardús okkar þyki sérviskulegt, hallærislegt og jafnvel molbúalegt. Kannski hefur mér eitthvað sárnað þetta viðhorf sem lýsir sér í þessum hugleiðingum hjá mér núna. Skal ekki um það segja en eitt get ég sagt - bestu kartöflur í heimi eru mínar eigin ræktuðu kartöflur úr Skammadal.
Þegar okkar kartöflur eru uppurnar, sem er yfirleitt svona um miðjan júni þá geri ég á hverju ári heiðalega tilraun til að kaupa þær kartöflur sem þá standa neytendum til boða. Á hverju ári kemst ég að þeirri niðurstöðu að þær kartöflur séu vondar. Því kaupi ég helst aldrei neinar kartöflur úr búð nema bökunarkartöflur á grilltímabilinu. Og þess vegna hef ég ekki orðið vör við að kartöflur hafi núna hækkað um tæp 25% í búðunum.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.