Vetrarþjónusta
5.4.2008 | 08:39
Ég er búin að vera á ráðstefnu Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu síðustu daga en hún var haldin á Akureyri. Prófaði reyndar sjálf á eigin skinni að keyra afleggjara heim að einum bæ í Skíðadalnum þar sem ekki er nein vetrarþjónusta frá Vegagerðinni. Þvílíkur munur það var alveg ótrúlegt fannst mér þessu malbiksbarni. Leiðin frá Akureyri heim að afleggjaranum var næsta snjólaus, en þegar ég kom að Skíðadalsafleggjaranum þá var komin dálítil snjókoma, einnig smá skafrenningur þannig að skyggnið fór minnkandi. En það var ekki neinn snjór að ráði á veginum og allt í góðum gír að því mér fannst. Síðan kem ég að afleggjaranum að Syðra-Hvarfi og brá í brún. Þar voru töluverðir ruðningar við veginn heim að bænum og farið að skafa í ruðninginn. Ég setti nú samt bílaleigubílinn í fyrsta gír og tók ákvörðun að reyna við afleggjarann. Mér fannst í raun ótrúlegt að það gæti verið svo mikill munur á færðinni frá því að vera að keyra eftir næsta snjólausum aðalvegi að fara yfir á heimreið sem væri ófær. Til að gera langa sögu stutta þá komst ég hálfa leið að bænum, ákvað að fara ekki lengra á bílaleigubílnum, tókst að snúa honum við og gékk töluverða leið heim að bænum. Þegar ég var þangað komin og búin að fá gott kaffi og meðlæti hjá tengdamömmu þá hringdi ég í svila minn til að fá aðstoð við að komast aftur út á veg. Ég var nefnilega með það á hreinu að ég kæmist ekki upp stóra brekku sem er á þessari leið. Hann Ingi Björn, svili minn kom síðan á jeppanum og aðstoðaði mig upp stóru brekkuna og keyrði á undan mér niður á aðalveginn.
Enn og aftur þá verð ég að segja að ég varð mjög undrandi á því hvað afleggjarinn var illfær. Það hafði snjóað um síðustu helgi blautum snjó og þá hafði afleggjarinn verið ruddur og voru ruðningarnir eins og stórar klakabrynjur sitt hvoru meginn við veginn. Síðan bara snjóaði og snjóaði og renndi og renndi og allur sá snjór og renningur datt niðrá veginn á milli ruðninganna.
Ég var mjög heppin að lenda ekki í neinu brasi, ég komst yfir versta hjallann og mér tókst að snúa bílaleigubílnum við. En þvílíkur munur á vegi sem er uppbyggður og með vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og heimreið að bæ þar sem ekki er um slíka þjónustu að ræða. Og hvað getur snjóað mikið á stuttum tíma í Skíðadalnum. Dal einn vænan ég veit, en eins og tengdamamma mín sagði við mig - Guðrún mín, þú hefur svo lítið þekkt dalinn væna í vetrarbúningi, þú ert svoddan sumarbarn hérna í dalnum. Það er svo sannalega satt en núna er ég reynslunni ríkari.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:52 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.