Þrift
6.5.2008 | 21:06
Sat áðan og stytti ermar í kápu sem mér hefur áskotnast og festi tölur og hlustaði um leið á Kastljósið þar sem rætt var um sóun okkar Íslendinga. Mér fannst ég á þeirri stundu vera einmitt eitt stykki gott exemplar um þriftuga konu þar sem ég var þá að laga til kápu þannig að hún geti nýst mér. Mér fannst einhvern veginn eins og orðið þrift og að vera þriftug þýddi að vera nýtin og fara vel með en þar sem ég var ekki alveg pottþétt á þessu hjá mér þá fór ég og gáði í íslensku orðabókina og þar segir: Þrift - þriftar KV velmegun, velgengni, gengi.
Þannig að eitthvað hefur nú skilningur minn skolast til en ég er samt eitthvað svo pottþétt á að hafa heyrt þetta notað sem jákvæð lýsing á einstaklingi sem fer vel með það sem honum áskotnast og nýtir vel hlutina án þess að vera nirfill eða nískur. Ég hef þá skoðun á sjálfri mér að ég sé hvorki nirfill né nísk en þriftug er ég. Þetta kvöldið að minnsta kosti.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.