Snjór og hálka
10.5.2008 | 09:45
Gunnar hringdi norður í Svarfaðardal í gærkvöldi og náði í Óskar bónda í Dæli. Þá var snjókoma í Dalnum væna. Maður sér á vefmyndavélum Vegagerðarinnar að það er kuldalegt um að lítast á fjallvegum fyrir norðan. Ég man eftir því að hafa verið í fermingu í dalnum sem var haldin um 10 júní og það snjóaði nóttina fyrir ferminguna það mikið að það varð hvítt niður að á. Hitastigið fermingardaginn var um plús 4 gráður á Celsíus. Eða eins og einn íbúi á Kópaskeri sagði við mig þegar ég var í heimsókn það eitt sumarið: Hitastigið hér á Kópaskeri þetta sumarið er búið að vera eins og maður vill hafa kjörhitastig í ískápnum sínum. Í kringum fjórar gráðurnar. Svona getur norðanáttin verið erfið við norðlendinga, eins og sunnanáttin er góð og yndisleg.
Fyrsta sumarferð okkar í ár í Dalinn væna verður farin í tengslum við sautjándajúní jublíem bóndans. Það er nú meira en mánuður þangað til þannig að ég er ekkert farin að örvænta með að snjóa hafi eitthvað leyst þegar við mætum á svæðið. En áttin hefur verið full norðanstæð sem af er vorinu. Og ekki hjálpar það til þegar heldur áfram að snjóa si svona öðru hvoru.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.