Karlar eru körlum bestir

Til hamingju með þennan merkisdag 19. júní Íslendingar.  Í ár eru 93 ár síðan konur fengu kosningarétt.  Það voru miklar baráttukonur sem komu þessu máli í höfn með hjálp karlanna sem höfðu völdin í sínum höndum og það voru bara karlarnir sem gátu komið málinu í höfn.  Konur höfðu engan rétt né möguleika á einu né neinu í því efni nema reyna af öllum mætti að hafa áhrif á karlanna og hvetja þá til góðra verka. 

Þrátt fyrir að nú séu 93 ár liðin frá þessum merka tímapunkti í Íslandssögunni eru völdin enn í karlahöndum og þeir sem ráða og stjórna.  Konurnar eru þó komnar á kantinn en ekki meira en svo.  Þar hafa þær fengið að sitja og komast hvorki lönd né strönd fyrir körlunum þrátt fyrir góða tilburði og nokkrar skyndisóknir.  Kaup og kjör kvenna á Íslandi og möguleikar þeirra til áhrifa hvort sem er í stjórnmálum eða í atvinnulífi er ekki jöfn á við möguleika karlanna.  Það er dálítið gott hjá Jóhönnu Sigurðardóttur í einhverju blaðanna í dag þetta með að það sé ekki rétt að klifa alltaf á þessu gamla góða - konum séu konum verstar heldur sé það réttara að segja -  karlar eru körlum bestir.  Það er alveg rétt hjá henni því eins og í gamla daga þegar það voru bara karlarnir sem gátu veitt konunum réttindi til þess að fá að kjósa þá er það í höndum karla að mjög miklu leiti að jafna stöðu karla og kvenna á Íslandi. 

En ég vildi óska að þær konur sem hafa fengið að komast út á fótboltavöll stjórnmálanna og til valda og standa út á vellinum í liðinu með körlunum væru öflugri málsvarar kvennabaráttunnar á Íslandi.  Ég vildi óska að þær væru jafn öflugar og konurnar voru fyrir 93. árum síðan að hafa áhrif á karlana sem þær eru með í liði að hvetja þá til góðra verka.  Því þær eru þó með strákunum í liðinu en ekki á áheyrendapöllunum eins og konurnar voru fyrir 93. árum síðan.  En ég vildi líka óska að konur væru hreinlega öflugri hver og ein.  Því það er alveg ljóst að það fæst ekki jafnrétti á Íslandi með því lagi að konurnar sitji prúðar á kantinum og bíði eftir því að körlunum þóknist að rétta þeim jafnréttið.  Því verður ekki náð nema með því að konur sæki fram sínkt og heilagt.

Svo að lokum af því að mér finnst því miður ekki í sjónmáli að jafnrétti verði náð í bráð á Íslandi þá ætla ég að skrifa hér kafla upp úr bók Bríetar Héðinsdóttur, Strá í hreiðrið, bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, byggð á bréfum hennar sem kom út árið 1988:

En vissulega er brotið í blað í íslenskri kvennasögu strax 1915 - stór áfangasigur í baráttunni við bókstaf laganna.  Eðlilegt var að honum skyldi fylgt eftir með baráttu fyrir leiðréttingar á fleiri lagaákvæðum.  En - eins og Bríet skrifar ári seinna:,,Langt er eftir að aðaltakmarkinu sé náð.  Sú hugsjón er eins og sjóndeildarhringurinn:  Því lengra sem við göngum því fjær sýnist hann."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband