Heimilin eiga að spara

Núna er það ráðið við efnahagsvandanum heyri ég í fréttum.  Mér finnst allavega að nóg sé komið af erlendum skuldum sem einhverjir aðrir en ég hafa tekið þótt að mér sýnist svo að mér sé núna ætlað að borga fyrir þau lán sem voru tekin án þess að ég væri spurð sérstaklega. 

Ég heyrði þessa reynslusögu hjá vinkonu minni í fyrrasumar.  Þau hjónin höfðu farið á einhver fellihýsasölustað á föstudagseftirmiddegi til að láta laga eitthvað dims í fellihýsinu sínu.  Þar sem þau bíða þarna eftir þjónustu þá svifur inn á staðinn ung íslensk vísitölufjölskylda, pabbi, mamma og tvö börn.  Vísitölufjölskyldan unga ætlaði að drífa sig af stað í útilegu þessa helgi sem var að byrja en vantaði til þess fellihýsi sem átti að kaupa þarna á staðnum.  Þau skoðuðu úrvalið og tóku ákvörðun um hvaða fellihýsi þau vildu.  Síðan átti að borga.  Þá drógu þau upp kortin og upp hófust símhringingar og tilraunir að posastraui.  Til að gera langa sögu stutta þá endaði mál ungu vísitölufjölskyldunnar með þeim hætti að ekkert kortafyrirtæki vildi lána þeim og enginn banki.  Þau fengu ekkert hjólhýsið og vinkona mín sagði að þau hefðu nú verið frekar fúl yfir því og börnin vonsvikin. Unga vísitölufjölskyldan virtist ekki gera sér nokkra grein fyrir fjárhagsstöðu sinni.  Þau voru með nokkur kort á takteinum og voru í þjónustu við nokkra banka.  Þeim fannst sjálfsagt að þau gætu keyrt af stað með þriggja milljón króna fellihýsi eftir korters dvöl og skoðun í versluninni. En lausafjárstaða þeirra og fjárhagsstaða var með þeim hætti að enginn vildi lána þeim lengur.

Ég held að þessi tiltekna unga vísitölufjölskylda sé ekkert einsdæmi um hegðun okkar Íslendinga síðustu misserin.  Verst finnst mér hvað fyrirtæki og bankar hafa valsað um eins og vísitölufjölskyldan unga og tekið lán á lán ofan án nokkurrar fyrirhyggju.  Nú er komið að því að þeirra kortafyrirtæki og bankar hafa skrúfað fyrir lánin.  Lánastoppið er kallað lausafjárskortur og einhverjum öðrum fallegum orðum og við blasir efnahagskreppa.  En eitt ráðið í þeirri efnahagskreppu er semsagt að heimilin eigi að spara.  Það getur svo sem vel verið að það sé ágætis ráð í sjálfu sér og að betra sé seint en aldrei.  Finnst samt að það hefði átt að fá fyrirtækin til að spara sér lántökur fyrir langa löngu síðan. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband