Seglagerðin Ægir
15.7.2008 | 07:06
Ég varð hálf spæld í útilegunni okkar um daginn. Tjaldið mitt, sem ég fékk í fertugsafmælisgjöf frá krökkunum í háskólabekknum mínum var bilað. Við höfðum ekki tjaldað tjaldinu í tvö ár þegar við fórum í útileguna um daginn. Þegar við vorum búin að tjalda og ég ætlaði að renna upp rennilásnum á ytra tjaldinu þá kom í ljós að hann var bilaður. Ég tosaði og tosaði og endaði sá tosugangur hjá mér með því að ég sleit rennilásinn. Við höfðum verið svo heppin að tjalda rétt miðað við vindátt þannig að það kom ekki að sök um nóttina þótt tjaldið væri opið. En ég var spæld yfir því að fína hústjaldið mitt sem er búið að þjóna okkur dyggilega í tólf ár væri etv. orðið ónýtt.
Ég fór í könnunarleiðangur um tjöldin hjá krökkunum um daginn og komst að því að ef ég ætlaði að fá mér 5-6 manna braggatjald kostaði slíkt tjald u.þ.b. 50 þúsund krónur. Mér leist í raun mjög vel á þessi nýju tjöld sem eru fáanleg á markaðnum núna en var samt spæld yfir því að gamla góða hústjaldið mitt úr tjalddúk og alles frá Tékklandi að ég held væri etv. ónýtt.
Strax á mánudaginn var fyrir viku síðan þegar heim var komið með bilaða tjaldið hringdi ég í Seglagerðina Ægi og spurðist fyrir um það hvort þar væri gert við rennilása í hústjöldum. Stúlkan í símanum hélt nú það þannig að ég dreif tjaldið þangað í viðgerð. Ég náði síðan í tjaldið mitt út viðgerðinni í gær - kominn nýr flottur hvítur rennilás á gamla góða þunga hústjaldið mitt og viðgerðin kostaði aðeins þrjú þúsund krónur. Mér finnst það vel sloppið fyrir að taka langan bilaðan rennilás úr, og sauma nýjan fínan langan rennilás í tjaldið aftur með tvöföldum saum og mjög góðum frágangi.
Flokkur: Í umræðunni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.