20 ár - postulínsbrúðkaup
16.7.2008 | 07:46
Við eigum afmæli í dag Gunnar og ég. Í dag eru 20 ár síðan við giftum okkur í kirkjunni á Völlum í Svarfaðardal. Samkvæmt upplýsingum á brúðkaupsvefnum er það postulínsbrúðkaup. Brúðkaupsdaginn okkar þann 16. júlí 1988 skein sól í heiði í Skíðadal og Svarfaðardal. Það var mjög heppilegt því við vorum með veisluna heima í Syðra-Hvarfi í vélageymslunni og það hefði verið óþægilegra ef hefði verið mikil rigning og/eða kalt á giftingardeginum. Sr. Jón Helgi Þórarinsson gaf okkur saman en þá var hann prestur á Dalvík. Kirkjukór Svarfdæla söng og Ólafur Tryggvason var organisti. Öllum viðstöddum, vinum, vandamönnum og kór var boðið í kaffiveislu beint eftir brúðkaupið sem haldin var í vélageymslunni á Syðra-Hvarfi í Skíðadal. Ég held að u.þ.b. 80 manns hafi komið í kaffiveisluna hjá okkur. Kaffibrauðið var allt heimagert. Í veislunni spilaði Jón Helgi á gamalt orgel sem var staðsett í vélageymslunni og pabbi flutti okkur brúðhjónunum brúðkaupskvæði.
Eftir kaffisamsæti fóru heimamenn heim til sín en aðkomufólkið settist út í brekkuna við Lambatúnið og þar var setið dágóða stund í sól og sumaryl gítar dreginn fram og sungið og sungið. Síðan höfðum við mat fyrir aðkomufólkið, lax sem pabbi hafði veitt og heimareykt hangikjöt frá tengdapabba. Fínn dagur og nú eru semsagt tuttugu ár síðan. Við vorum sammála um það hjónin í gærkvöldi þegar Gunnar spurði mig hvort ég vissi hvaða dagur yrði á morgun að þessi tími hefur verið ótrúlega fljótur að líða. Einnig finnst okkur báðum það eilítið skringilegt að það séu virkilega 20 ár síðan við giftum okkur - eða eins og Gunnar missti út úr sér í gærkvöldi - ótrúlegt -
Athugasemdir
Hjartanlega til hamingju með það, bæði tvö.
Nanna Rögnvaldardóttir, 16.7.2008 kl. 09:03
Takk, takk -
Guðrún S Hilmisdóttir, 16.7.2008 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.