Útúrdúr
18.7.2008 | 07:12
er lítil mjög skemmtileg bókaverslun á Njálsgötunni. Anna Líndal, Bjarki Bragason og Hildigunnur Birgisdóttir voru í gær með opið hús í Útúrdúr í tilefni af því að þau hafa sett hluta af sýningunni Greinasafn sem þau voru með í Safnasafninu á Svalbarðsströnd upp í bókabúðinni. Einnig voru þau að kynna útkomu bókverksins Greinasafns. Svona kynnti Anna Líndal þennan viðburð í tölvupósti sem ég fékk frá henni:
- FJÖLFELDIN HEIM - loksins í útúrdúr!
Greinasafn / Branch Collection, bókverk eftir Önnu Líndal, Bjarka Bragason og Hildigunni Birgisdóttur kom út núna í sumar þegar sýningin Greinasafn opnaði í Safnasafninu. Bókin er 56 síður og sækir formið í biblíumyndabækur. Í verkinu er ferli sýningarinnar frá hugmynd að fullmótaðri sýningu rakið í máli og myndum. Hugarheimum Greinasafnsins eru gerð góð skil og í bókinni kristallast grunnþættir sýningarinnar; söfnun, rannsóknir, og það flæði sem slíkt myndar og myndast í. Í útúrdúr verða einnig fjöldi fjölfelda sem voru stór hluti af sýningunni í Safnasafninu.
Ég fór sólskininu í gær á kynninguna í Útúrdúr. Það eru fínar pælingar hjá listafólkinu, Hildigunnur er með þúfuspegúlasjónir sem mér fannst skemmtilegar, Bjarki var m.a. með nýja sýn á Káranhjúkadæmið og Anna Líndal var með fjölfeldispælingu sem mér fannst flottar. Hún var með fjölfeldi af tvinnakeflum með vafinni nál á sem mér finnst minna mig á kólibrífugl á kefli sem ég varð mjög hrifin af og gæti hugsað mér að eignast. Ég er mjög hrifin af verkum Önnu Líndal og á eina mynd eftir hana. Einnig leist mér vel á þúfustimpilinn hennar Hildigunnar og prufusettið af Kárahnjúkum eftir Bjarka. Í þetta sinn keypti ég bara eitt eintak af bókinni Greinasafni eftir þau þrjú og hélt síðan heim í yndislegum síðdegisgróðraskúr.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:59 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.