Bræðslan 2008
29.7.2008 | 16:53
Jamms þá er fjölskyldan búin að fara á Borgarfjörð eystra og taka þátt í Bræðslunni 2008. Það var mikið fjör og mikið stuð. Við fjölskyldan mættum í bræðsluskemmuna klukkan korter í átta og náðum við þrjú stæði í þriðju röð frá sviðinu og fórum ekkert þaðan alla tónleikana til þess að missa ekki þann góða stað. Unga parið sá um sig sjálft og var meira á einhverju randi inn og út en þau sögðust þó hafa náð ágætis staðsetningu þegar Eyvör byrjaði að spila.
Klukkan tuttugu mínútur yfir ellefu þegar Damien Rice var búinn að kyrja nokkur lög var ég orðin þreytt í fótum og eitthvað farin að þjást af loftleysi og hita. Ég spurði þá kallana mína tvo hvort við ættum að færa okkur eða etv. fara út. Nei, þeir héldu nú ekki þannig að við stóðum áfram sem fastast út alla tónleikana - sem ég var mjög ánægð með að við skyldum endast til að gera. En eftir tónleikana sem enduðu klukkan korterítólf höfðum við aðeins krafta til að staulast heim í tjald og misstum því af eldhúspartýinu þar sem Eyvör spilaði en þangað fór unga parið okkar. Einnig misstum við af því þegar Damien Rice fór að spila úti í brekkunni um nóttina. En við vorum og erum alsæl með Bræðsluna 2008.
Það var mjög gaman að hlusta á allt það listafólk sem þarna kom fram, það var hvert með sínu lagi eins og gengur. Eyvör var mjög góð og Damien Rice er mun betri live en á plötum eða í sjónvarpi. Mér fannst mun meiri kraftur í honum si svona heldur en maður verður var við á upptökum. Það voru mörg mjög góð lög sem hann flutti þarna en jafnvel finnst mér þetta lag sem ég fann á youtube vera með þeim betri þetta kvöld. Þetta er lag sem Damien Rice sagði þarna um kvöldið hafa hafa samið um fjórtán ára aldurinn og fjallar um ákveðið athæfi sem hann þá stundaði nokkuð grimmt.
Myndband af flutningnum á Bræðslunni er komið á youtube -
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.