Tjaldstæðafælni
16.8.2008 | 14:29
Mér finnst fínt að sofa í tjaldi svona nótt og nótt. Við notum tjaldið okkar og förum í útilegur þegar okkur hentar og eftir því sem vindar blása á sumrin. Hins vegar er í seinni tíð farin að hrjá mig ákveðin tjaldstæðafælni. Síðasta tjaldútilega mín á skipulagt tjaldstæði var fyrir þremur eða fjórum árum en þá hittumst við hópur á tjaldstæðinu í Húsafelli. Tjaldstæðið var fullbókað þá helgi og margt um manninn. Mér blöskraði alveg umferð bíla um tjaldstæðið. Sífellt var eins og einhver þyrfti að vera að ná í eitthvað sem vantaði eða vera að fara í sund eða eitthvað. Og alltaf keyrt af stað á bílnum en alls staðar voru lítil börn út um allt á tjaldstæðunum að leika sér. Sem betur fer gerðist ekkert en mér fannst þetta hreinlega mjög óþægilegt. Um nóttina tók síðan við mikill söngur í öllum hitörunum í fellihýsunum allt í kringum okkur. Ekki mikil friðsæld sem var ríkjandi í þeirri útilegu.
En svo heyrði ég um enn nýja græju sem Íslendingar eru farnir að hafa með í útileguna. Samverkakona mín fór á tjaldstæði sem eru við Hítarvatn og tjaldaði þar. Stuttu frá voru saman þrjár fjölskyldur með þrjú fellihýsi og rafstöð. Um kvöldið var rafstöðin sett í gang til þess að börnin sem voru með í för gæti farið í tölvuleiki eða horft á DVD. Ég hef ekki lent í að tjalda nálægt svona græjuvæddu fólki en tjaldstæðafælnin lagast ekki mikið við þessa frásögn.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.