Gliðnun hjá hinu opinbera
12.9.2008 | 07:05
Það er mjög merkilegt að spá í öll þau orð og orðasamsetningar sem notaðar eru þegar fjallað er um launamun kynjanna. Ótrúlega margir telja að það sé enginn launamunu á milli kynja. Meðallaun kvenna í öllum starfstéttum sé lægri en karla, það sé jú rétt en en það séu skýringar á því. Skýringarnar eru þær að konur séu verr menntaðar en karlar, vinni styttri vinnutíma en karlar, velji sér lægri launaðar starfsgreinar en karlar, konur séu ekki jafn duglegar að krefjast hærri launa en karlar, séu ekki jafn duglegar að fá hærri og betri launaðri stöður og karlar og konur séu ótryggari starfskraftar en karlar og svo má lengi telja. Því sé það í raun eðlilegt að karlar hafi hærri meðallaun en konur og í raun konunum sjálfum að kenna að þær hafi ekki sömu meðlalaun og karlar.
Til að reyna að komast til móts við þessa umræðu hefur verið búið til fyrirbærið óútskýrður launamunur. Þá á að vera búið að meta ýmsa áðurnefnda þætti inn í reiknimódelið. Mér hefur svo sem fundist ágætt að menn séu eitthvað að reyna að bæta umræðuna með því að koma með slíkar reikningskúnstir því það er náttúrulega ekkert hægt að ræða málin um launamun kynjanna við fólk sem heldur því fram að það sé enginn slíkur launamunur á Íslandi. Ég er samt ekki viss, þó umræða sé góð þá verð ég að segja að þessi umræða gengur hvorki lönd né strönd. Konur einfaldlega lægra metnar ern karlar í þessu þjóðfélagi. Það er augljóst og sést svart á hvítu á mun á kjörum kvenna og karla. Allt sparital og hjal um jafnrétti kynjanna er aðeins á orði hjá forsvarsmönnum þjóðarinnar og atvinnulífs. Upp á borðum er annað. Þar viðgengst sprungulaust misrétti.
Og nú er komið enn eitt orðið varðandi launamuninn - gliðnun. Nú hefur orðið gliðnun á kynbundnum launamun hjá hinu opinbera. Og Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra er með þrjár nefndir á sínum snærum sem hafa nú fengið það viðbótarverkefni að skoða hvað það er í hinu opinbera kerfi sem orsakar þessa gliðnun. En á meðan nefndirnar eru að störfum þá skjögra sængurkonurnar heim með nýfæddu börnin sín sex klukkustundum eftir að hafa komið þeim í heiminn. En það ástand hlýtur að lagast því nú er búið að kæra ljósmæður fyrir að hafa sagt upp störfum. Það hlýtur að vera hægt að kæra þær inn á sjúkrahúsin aftur því eins og komið fram hjá formanni samninganefndar ríkisins að samninganefnd ríkisins hafi ekki breytt um skoðun síðan árið 1962. Þannig að ekki fer nefndin að semja um einhverja sérleiðréttingu launa hjá slíkri kvennastétt sem ljósmæðrastéttin er.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.