Matsalarmálun

Ég hlustaði í smá stund í gærkvöldi á stjórnmálamann í sjónvarpinu mínu sem gerði samansemmerki yfir kjarasamningi ljósmæðra um daginn og að skipper á bát færi að mála matsalinn á skipinu í ólgusjó.  Mér finnst þetta dálítið merkileg niðurstaða hjá þessum stjórnmálamanni.  Ég veit ekki betur en að alþingismenn hafi fengið dágóðar launabætur um daginn, notabene án þess að þurfa að fara í verkfall né hafa fyrir þeirri matsalarmálun á nokkurn hátt.  Ég veit vel að þeir mega ekkert fara í verkfall grey fólkið en ég verð nú bara líka að benda á að þar sem Alþingi starfar aðeins um fjóra mánuði á ári, eða eru það kannski fimm, þá yrði maður etv. lítið var við það að alþingismenn færu yfirleitt í verkfall.  En þeir fengu nú úthlutað launahækkun um daginn og sú launahækkun var afturvirk meira að segja.  Af hverju má ekki bera þá launahækkun við matsalarmálun?  En þetta var útúrdúr. 

Það mun semsagt sliga þennan þjóðardall okkar Íslendinga að ríkið var nauðbeygt til að semja um 18%-23% hækkun til ljósmæðra.  Ég man eftir svipuðum röksemdum þegar Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók á sig rögg og hækkaði laun hjá starfsmönnum leikskóla hjá Reykjavíkurborg.  Þá komu fram stjórnmálamenn í sjónvarpið mitt og lýstu því yfir að þessi gjörningur konunnar myndi steypa landinu í glötun.  Mín skoðun er sú að það eru ekki laun til handa láglaunastéttum eða launahækkun til handa kvennastétta ríkisins sem hafa sligað þjóðardallinn.  Þar hafa aðrir þættir eins og máttleysisleg efnahagsstjórn og frjálshyggjufjármálamarkaður gert margfalt meiri óskunda en launahækkun ljósmæðra.  Held að kallinn í brúnni ætti að hætta að velta sér uppúr fimmkallinum sem renna nú til ljósmæðra eftir síðustu kjarasamninga og snúa sér að því reyna að stemma stigu við þeim milljarðatugina sem hafa runnið viðstöðulaust til forstjóranna og lánaspegúlantanna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband