Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Kaffivélin mín

er komin úr viðgerð.  Þetta er alveg einstök expressó kaffivél sem ég fékk líka í fertugsafmælisgjöf eins og hústjaldið mitt góða.  Það er eitthvað sigti í kaffivélinni sem stíflast og þá kemur ekkert vatn kaffimeginn.  Ég get ekki hreinsað eða lagað þetta sigti sjálf heldur verð að fara með vélina í viðgerð.  Þetta er annað sinn á ferlinum sem sigtið stíflast en núna var kaffivélin smá tíma í viðgerðinni og kom það til sumarfrí hjá mér með ferðalögum og fjarveru frá höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef saknað kaffivélarinnar minnar þessar vikur sem hún var ekki hér til staðar.  Mér finnst nú samt eitthvað dálítið dekadent að vera að sakna kaffivélar, mikið lúxusvandamál þar á ferð.  En ég er með aldrinum farin að hafa miklu ákveðnari smekk fyrir kaffi.  Ég hef líka minnkað kaffidrykkjuna mikið og þar sem kaffikvótinn hefur verið minnkaður þá vil ég bara nota þann litla kvóta til að drekka almennilegt gott kaffi.  Sem er hreinlega einna best úr kaffivélinni minni verður að játast.  Og þar með ætla ég að fá mér annan bolla af Cappochino kaffi svona snemma morguns í tilefni af því að 12 ára kaffivélin er komin heim úr viðgerð eldspræk.


Vegbúi

Ég og við höfum verið miklir vegbúar þessu síðustu tíma.  Höfum brunað fram og tilbaka um landið þvers og kruss, lengst farið suður að Skógum og austur í Borgarfjörð eystra.  Annars keyrt mest norður og suður aftur og aftur eins og gengur hjá okkur. 

Vorum að koma suður í dag eftir stuttann skrepp á Krók þar sem foreldrarnir komu úr berjamó með 8 lítra af svörtum aðalbláberjum.  Mikil berjaspretta í Skagafirðinum.  Fórum síðan áfram í Dalinn væna og týndum þar einnig ber en ég held að berjasprettan þar sé ekki alveg komin eins langt og í Skagafirði.  Það var kaldara vorið held ég og snjórinn lengur í dalnum.  En það er alveg hægt að týna og við komum heim með þrjá til fjóra lítra.

Við kíktum aðeins á Fiskidaginn mikla niðrá Dalvík í dag áður en við brunuðum hingað suður.  Á Dalvík var múgur og margmenni og mikið um að vera, þetta er annað sinn sem við förum á Fiskidaginn og það virðist alltaf vera sól og fallegt veður á þessum degi.  Uppá sviði var nýr kvennakór hjá þeim á Dalvík ég man því miður ekki nafnið á kórnum en þær sungu nokkur lög og mér leist bara bærilega á þær.  Fyrsta lagið þeirra var Vegbúinn eftir K.K.


Merkingar orða

Út af pælingum mínum um merkingar orða og mun á þeim vegna Verslunarmannahelgarvísunnar í gær sendi heimsóknarvinur síðunnar þessa vísu núna í kvöld:

Mér finnst á meiningarþrasið

mætti ögn betur líta.

Kannski má kúka á grasið

en klárlega ekki - -

        gera eitthvað sem er dónalegt.


Verslunarmannahelgarkvæði

Ég er í einhverju basli með bloggsíðuna mína.  Setti inn nýja toppmynd fyrir þá gömlu sem datt út þegar Moggabloggið fór í vesen um daginn.  En stillingarnar hafa eitthvað misfarist við það og núna er bloggsíðan mín eitthvað skrítin.  Jæja, ég vona bara að hún hressist með tímanum, er amk. búin að taka út nýju toppmyndina fyrst hún virðist gera síðunni svona mikinn grikk.

Heimsóknarvinur síðunnar sendi inn eftirfarandi Verslunamannahelgarkvæði í tilefni helgarinnar sem er að bresta á:

Gleðin með grastorgið

Gefðu mér Vallash í glasið

Guð minn hvað þetta er smart.

Nú getum við migið í grasið

grjótið var kalt og hart.

Eftirorð.  Heimsóknarvinurinn sagði að ef ég vildi vera kurteis þá mætti ég nota orðið pissað í stað migið.  Ég verð að játa að ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri merkingarmunur á þessum tveimur orðum hélt þau væri svona jafnrétthá eða þannig.  Ég lét heimsóknarvininn ráða för með vísuna, hún er hans.    


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband