Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Í boltanum

Ég las þessa mannlýsingu nú í morgun.  Með klikkað keppnisskap og gríðarlegan metnað.  Nú hef ég ekkert á móti því að menn hafi keppnisskap og metnað og séu á fullu í boltanum.  Hins vegar er ér ég löngu orðin dauðþreytt á þessu keppnisskapmenntaliteti og íþróttahugarfari sem margir hverjir hafa fært yfir á almenn samskipti fólks í leik og starfi.   

Það er aðalmálið í íþróttaleik að vinna leikinn og vera bestur en það er ekkert verra að að hafa gaman af því að spila leikinn.  Það getur líka skipt mann sjálfan máli sem persónu að vita það að maður hafi rétt við og fari eftir reglunum en hafi ekki brotið viljandi á einhverjum og komist upp með það.  Mér finnst hins vegar lífið sjálft vera flóknara fyrirbæri en íþróttaleikur þó mér sýnist að allt of margir séu haldnir þeirri blindu að telja sig vera í einum allsherjar eilífum íþróttaleik.  Það er varasamt að hugsa bara um það að ,,vera bestur" komast á toppinn, halda með sínu liði og að enginn sé annars bróðir í leik - nó matter what.  Í íþróttaleikjunum er mikið um tæklingar sem geta verið varasamar og ég fæ ekki betur séð en þessi eilífi íþróttakappleikur sé farinn að taka sinn toll í samfélaginu og fólk liggi misbrotið og tognað út um víðan völl.  Mér hefur alltaf fundist gaman af íþróttum og styð þær heils hugar.  Hins vegar væri óskandi að menn hefðu þroska til þess að sjá hvenær hægt er að yfirfara íþróttandann með sínu klikkaða keppinsskapi og gríðarlega metnað yfir í lífið og tilveruna sjálfa og hvenær ekki. 


Þorrablót

jonshusÉg hef engan áhuga á Þorrablótum.  Mér finnst matur sá sem er borinn á borð á slíkum samkomum vondur og sé því ekki tilgang í því að fara mæta í slíkar matarveislur.  Ég hef reyndar farið á eitt skemmtilegt Þorrablót.  Það var í Jónshúsi einhvern tímann á hinni öldinni þegar ég var að nema í Kóngsins Kaupmannahöfn.  Þá var okkur Íslendingunum sem höfðu áhuga á að mæta á Þorrablótið troðið inní salinn í Jónshúsi og var svo sannalega þétt setinn bekkurinn.  Ég man að þrengslin voru slík að erfitt var að komast að matarborðinu og yfirleitt að hreyfa sig eitthvað úr stað.  Það er kannski þess vegna sem þetta var svona skemmtilegt?  Árið eftir var breytt til og blótið haft í sal út í bæ þar sem var nóg pláss.  Það var ekki nándar eins skemmtilegt og hef ég lítið eða bara ekkert mætt á slíkar samkomur síðan. 

Veður og veður

Tengdapabbi heitinn dreymdi fyrir veðri.  Draumarnir voru alltaf tengdir heyforða fyrir veturinn, ég er búin að gleyma þessu en mig minnir að það hafi verið þannig að ef hann dreymdi mikið hey væri það fyrir miklum snjó.  Tengdamamma sagði við mig um daginn að Sigurjón hefði dreymt fyrir snjó og snjó fyrir þennan vetur.  Nú hefur ekki verið mikill snjór fyrir norðan það sem af er þessum vetri hingað til og fyrir viku síðan var mjög gott veður fyrir norðan og ágæt færð þó að það hafi verið mikil hálka.  En nú virðist snjórinn sem Sigurjón minn dreymdi fyrir vera mættur á svæðið.  Eins gott að vera ekki á ferðinni þarna fyrir norðan þennan laugardaginn.

Tengdapabbi

Sigurjón Sigurðsson,

Fæddur: 04.03.1925 Látinn: 06.01.2008

Jarðaður frá Dalvíkurkirkju: Laugardaginn 12.01.2008.

Erum nýkomin úr ferð norður í land á jarðaför tengdaföður míns.  Færðin var ágæt, veðrið mjög gott og komu mjög margir á jarðaförina sem var falleg.  Hér er tengill á minningargreinina um Sigurjón Sigurðsson, heiðursmann sem kenndi mér eitt og annað til dæmis að njóta náttúrunnar.  Hann var yndislegur maður sem gaf mér margt.  

 

 


Bókin

Við fórum um daginn í bókabúð að skila bók og hafði ég aðallega áhuga á því að fá mér fulgabók í staðinn fyrir ,,auka" jólabókina sem hafði áskotnaðst fjölskyldunni um jólin.  Þar sem við erum að skoða úrvalið á staðnum þá er sonurinn allt í einu dottinn í bók við eitt borðið og er í vandræðum með að hlægja ekki upphátt.  Móðurinni leist svona og svona á þessa tilteknu jólabókalesningu og við skunduðum heim með fræðibækur sem voru móðurinni að skapi.

Bókin í bókabúðinni vakti aftur á móti svo mikinn áhuga hjá drengnum að hann óskaði sérstaklega eftir því seinna að við keyptum handa honum þessa tilteknu bók.  Í Smáralind í gær þá spurðumst við fyrir um hana í Pennanum og komumst að því að hún var uppseld í Pennanum í Smáralind, þrjár voru eftir niðrí Austurstræti og sjö í Pennanum í Hallamúla.  Þarna virðist því vera mikið raritet í uppsiglingu.  En okkur tókst að lokum að kaupa síðasta eintakið í Office 1. 

Seint í gærkvöldi var ég vakin upp af værum blundi við hlátur yngri kynslóðarinnar hér á bænum.  Það var bersýnilegt að hinn ískaldi húmor Hugleiks Dagsonar höfðaði til þeirra.  Bókin virðist svo sannalega vera þeim að skapi. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband