Mosi og steinar
10.11.2007 | 08:39
Ég var fjórtán ára þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda. Þá fór ég til Bandaríkjanna í vist til Jóu frænku. Ég lenti um kvöld á Kennedy flugvelli og það fyrsta sem ég tók eftir var hvað mér fannst skrítið að það var myrkur en samt hlýtt og líka síðan lyktin af loftinu. Hún var vond og skítin.
Sonur minn 13 ára fór í fyrsta sinn til útlanda núna um daginn þegar við fórum til London. Nú hefur hann séð heilmikið í sjónvarpinu og á internetið hvernig útlönd eru þannig að ég var að spá í það hvort útlönd kæmu honum eitthvað á óvart og þá á hvern hátt. Ég er búin að spyrja hann að því. Og hvað kom syni mínum á óvart í útlandinu Englandi? Jú þar var hvað trén voru stór og mörg og að hann sá hvergi mosa eða steina.
Þegar ég ítrekaði spurninguna um hvað hefði komið honum mest á óvart með útlöndin þá svaraði hann því til að það sem kom honum mest á óvart var hvað útlöndin voru mikið öðruvísi en Ísland.
Það gæti verið seinna meir að sonur minn átti sig á því að það eru ekki útlöndin sem eru öðruvísi en Ísland. Það er Ísland sem er örðuvísi en útlöndin.
Flokkur: Ég og mínir | Breytt 30.12.2007 kl. 11:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.