Afmælisbörn
22.3.2008 | 21:21
Ég á afmæli í dag og ákvað núna rétt áðan að blogga afmælisblogg í tilefni dagsins. Sá í Fréttablaðinu í morgun að þýski leikarinn Bruno Ganz á einnig afmæli í dag.
Ég fór til Nurnberg fyrir tæpum tveimur árum og datt þá í töluverða Hitlers og nasistatímapælingar. Það var auðvitað út af staðnum Nurnberg sem var þeirra höfuðvígi. Einn daginn fór ég í skoðunarferð um Nurnberg og nágrenni. Í þeirri skoðunarferð var ég eini útlendingurinn allir hinir í um 60 manna hóp voru þjóðverjar. Ég átti ekki von á þessu þar sem ég var á alþjóðlegri ráðstefnu og hélt að fleiri útlendingar yrðu með í þessari skoðunarferð. Ég ákvað að láta á engu bera og þykjast alveg skilja þýskuna þótt það sé eldgömul svona og svona menntaskólakunnátta sem ég hef á því tungumáli.
Þegar líða tók að hádegi þá voru þjóðverjarnir farnir að uppgötva að það voru ekki bara þjóðverjar í ferðinni heldur væri einnig með í för einn lítill Íslendingur. Ég var töluvert hissa á því hvað þjóðverjarnir voru spenntir fyrir því að hitta fyrir Íslending og voru áfjáðir í það að fá skoða slíkan grip í návígi. Þarna voru m.a. hjón frá Hamborg og sagði konan við mig að hana hefði alltaf langað að hitta Íslending og hún hefði oft verið að spá í það þegar hún var um borð í flugvélum á ferðalögum erlendis að etv. væri Íslendingur um borð í vélinni. Og svo færi hún í skoðunarferð um Nurnberg og sæti þá allt í einu við hliðina á Íslendingi við hádegismatarborð.
Ég varð að játa að öll þessi athygli og þessar Íslendingapælingar þeirra þjóðverja sem voru í skoðunarferðinni þennan dag kom mér mjög á óvart. Ég reyndi mitt besta að gera þjóð minni gott til og að skemma eins lítið og mér var unnt fyrir þeim góðu og etv. smá ídaliseruðu hugmyndum sem þjóðverjarnir höfðu um Íslendinga.
Ég var orðin uppgefin þegar ég komst loks heim á hótelherbergi um kvöldið og kveiki á sjónvarpinu. Þar var þá staddur hann Bruno Ganz, sem á þá semsagt sama afmælisdag og ég og var að leika hann Hitler í myndinni Der Untergang. Ég tók þá ákvörðun þar sem ég væri orðin svo gegnsýrð af þýsku þá gæti ég alveg bætt við mig eins og einni þýskri bíómynd. Ég er síðan staföst í þeirri trú minni að þessi rúmlega hálfi þýski sólahringur hafi bætt heilmiklu við þýskukunnáttu mína og þá aðalega skilning minn á talaðri þýsku. Hvort ég skil hið talaða þýska orð rétt eður ei - det er et andet sporgsmal.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.