Í um 20 km NV af Gjögurtá
8.4.2008 | 07:24
er jarðskjálftahrina í gangi. Samkvæmt upplýsingum um jarðskjálfta á heimasíðu Veðurstofunnar mældust margir skjálftar þarna í gær. Eitthvað hafa umbrotin dottið niður í nótt. Það hlýtur að vera rætt um málið við Ragnar Skjálfta um þessi umbrot og hvað þau þýða en hann er fluttur norður í Svarfaðardal.
Mér er mjög minnistætt þegar Óskar í Dæli sagðist sem barn hafa verið mjög hræddur við jarðskjálfta og snjóflóð. Ég hef aldrei verið hrædd við jarðskjálfta en ég man eftir mjög stórum skjálfta sem var á Húsavík. Held jafnvel að hann sé kallaður Húsavíkurskjálftinn, er samt ekki viss. Fólk þusti út úr húsunum sínum svo mikill var skjálftinn og ég man að mér fannst það merkilegt að sjá fólkið úti í myrkrinu í náttfötunum. Annað sem mér fannst merkilegt voru hljóðin sem fylgdu skjálftanum. Það voru nefnilega einhver einkennileg urghljóð sem komu úr jörðinni að því mér fannst. En ég var svo mikill krakki að í minningunni fannst mér þetta meira merkilegt allt þetta hafarí heldur en að ég hafi eitthvað orðið hrædd við skjálftann. Snjóflóð voru ekki rædd mikið á Húsavík í gamla daga og ekki var mikið um það umræðuefni í Borgarnesinu. En fólkið í Skíðadal þekkir til þeirra hörmunga sem snjóflóð og jarðskjálftar geta valdið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Manst þú bara ekki eftir Skagafjarðarskjálftanum 1961? Það er sennilega stærsti skjálfinn sem fundist hefur á Húsavík fyrir utan Kópaskersskjálftann.
Hólmdís Hjartardóttir, 8.4.2008 kl. 07:34
Ó jú er búin að komast að því að þessi tiltekni jarðskjálfti sem ég man eftir hefur fengið heitið Skagafjarðarskjáftinn í fræðunum og reið yfir 28. mars 1963. Brá mér aðeins í þingeysku ættirnar mínar þegar ég ákvað í gær að hann hlyti að vera kenndur við Húsavík, verð að játa það.
Guðrún S Hilmisdóttir, 8.4.2008 kl. 15:45
Já einmitt 63. Það datt niður stór mynd af vegg heima á Húsavík.
Hólmdís Hjartardóttir, 9.4.2008 kl. 01:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.