Gangastúlkan

Ég vann eitt sumar á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki sem gangastúlka.  Ég var á þeim tíma eitthvað að spá í að læra að verða sjúkraþjálfari eða eitthvað annað heilsutengt.  Tók þá skynsömu ákvörðun að reyna að fá einhverja vinnu á sjúkrahúsi til þess að prófa hvernig mér líkaði vinna á slíkum stað.  Pabbi minn fór af stað og bað Sæmund Hermanns á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki um vinnu fyrir mig.  Það tókst og sumarið sem ég var átján ára vann ég sem gangastúlka á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki.  Fyrsta morguninn sem ég mætti var ég sett nýgræðingurinn í að hjálpa til við að baða mann sem hafði dottið af hestbaki og lá rúmfastur.  Það fannst mér erfitt.  En erfiðasta verkið sem ég fékk sem gangastúlka var að hreinsa upp ælu.  Það er mér næsta ógerlegt verð ég að játa og ég kvaldist þvílíkt ef ég varð að stunda slíkt hreinsunarverk.

Í nótt vöknuðum við upp við það að sonurinn þrettán ára kallar fram- ég var að æla.  Faðir hans fór strax á stjá en móðirinn kúrði sig smá stund undir sænginni og herti upp hugann.  Sonurinn hafði fengið svo hastalega ælupest að hann rétt náði að setjast upp áður en spýjan kom.  Koddinn, sængin, lakið, rúmið já já allt undir lagt.  Sem betur fer er Gunnar nokkuð harður af sér í æluhreinsunum og hann náði að græja heilmikið áður en mér tókst að hafa mig framúr og í slaginn.  Ég setti öll rúmfötin strax í þvottavél þótt klukkan væri þrjú um nótt og ákvað að hitt fólkið í húsinu yrði bara að þola það þótt ein þvottavél færi í gang um miðja nótt.  Pilturinn hefur verið heima í dag og ekkert ælt meira.  Mér hefur hins vegar ekkert liðið allt of vel í allan dag hvort sem það er vegna æluhreinsunarstarfa eða eitthvað annað. 

Og til að hafa það á hreinu þá ákvað ég strax haustið eftir gangastúlkusumarið mitt að ég skyldi horfa í aðrar átt eftir framtíðarstörfum en til heilsugeirans.  Ég væri einfaldlega ekki nógu hörð af mér til þess að geta unnið svo vel væri við þau störf sem þar þarf að vinna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband