Peysufatadagur

upphluturKvennaskólans í Reykjavík er í dag.  Dansfélagi dótturinnar kom og náði í hana kl. átta í morgun.  Elinborg Hulda, dóttir mín er í upphlut sem ég á en sá upphlutur á sér nokkra sögu.  Ömmur mínar tvær, amma Ása og amma Gunna notuðu báðar mikið íslenska  þjóðbúninginn og þær áttu báðar bæði upphlut og peysuföt.  Amma Ása notaði töluvert það sem hún kallaði fljótbúninginn, en þá fór hún bara í þjóðbúningapilsið sitt og var síðan í svartri gollu og hafði sjalið yfir öllu saman.  Þá sást ekki að hún var hvorki í þjóðbúningapeysunni né upphlutnum innan undir.  Amma Gunna var öllu hátíðlegri í sinni umgengni um búninginn og man ég ekki eftir því að hún hafi nokkurn tímann notað slíkan fljótbúning.  Alltaf ef eitthvað markvert var í gangi hjá fölskyldunni og á hátíðisdögum fóru ömmur mínar í íslenska þjóðbúninginn.

Þegar farið var yfir bú ömmu Gunnu við lát hennar kom í ljós að hún hafði átt þjóðbúninga eða búningasilfur handa dætrunum sínum.  Mamma og móðursystur mínar hafa hins vegar ekki haft áhuga á því að eiga né skarta slíkum búningum.  Mamma mín arfleifði mig því af því búningasilfri sem féll í hennar skaut.  Ég fékk þar með silfurmyllur, beltissylgju og silfurhólk.  Með þetta silfur í farteskinu dreif ég mig siðan á námskeið í þjóðbúningasaumi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, þar sem ég saumaði minn upphlut með mikilli hjálp og aðstoð hennar Vilborgar, sem kenndi námskeiðið þegar ég fór.  En mig vantaði borða á upphlutinn og ég vildi bara balderaða borða og alltaf jafn bjartsýn fór ég á námskeið í baldýringu.  Þvílikt mál að baldera - það gékk ekki vel hjá mér og mér tókst ekki að klára borðana mína.  Mamma tók því þá ákvörðun þegar ég varð fertug að gefa mér í afmælisgjöf balderaða borða á  upphlutinn minn. 

Þar með var upphluturinn minn kominn og verð ég að segja að dóttirin var bara nokkuð fín í morgun í  upphlut móður sinnar og með gamla svarta sjalið hennar ömmu Ásu.  Ég virðist vera eitthvað hrædd um það, því ég sagði amk. fjórum sinnum við hana Elínborgu Huldu þar sem hún sveif á vit peysufatadagsins -  þú verður að passa sjálið -    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband