Magni og táningarnir
20.4.2008 | 08:11
Gærdagurinn var mikill tónlistardagur hjá mér og það sérstaka við daginn var að tónlistin var að miklu leiti flutt af táningum. Fyrst heyrði ég í unglingum úr Hagaskóla flytja lög úr uppfærslu þeirra á Bugsy Malone. Mér fannst þau standa sig prýðilega. Síðan brunuðum við í Hafnarfjörðinn að hlusta á afrakstur framhaldsskólakóramóts á tónleikum sem haldnir voru í Flensborgarskóla. Syninum leist nú ekkert á blikuna þegar við sáum tónleikaskrána en tónleikarnir byrjuðu klukkan hjálf fimm og samkvæmt dagskránni áttu þeir að standa til klukkan sjö. Það fannst Jóhanni Hilmi full mikið á sig lagt, þó hann vildi gjarnan hlusta á systur sína. Ég sagði við hann að við gætum alveg farið fyrr ef okkur leiddist mikið.
Til að gera langa sögu stutta þá leiddist okkur náttúrulega ekki neitt, mjög gaman á þessum tónleikum og mikil fjölbreytni og tónleikarnir stóðu samt til klukkan tíumínutur í sjö. En ég sem sérstakur Magna aðdáandi verð samt að segja að mér fannst rosalega gaman að því að hann kom þarna fram ásamt kór Fjölbrautaskóla Suðurlands en kórinn, ásamt hljómsveit og Magna eru að undirbúa Queen sýningu sem þau verða með í maí.
Lög þeirra Queen manna eru mjög flott og ekki heiglum hent að syngja lögin. En mér fannst flutningur laganna þriggja takast vel hjá kór, hljómsveit og Magna. Verður örugglega gaman að þessum fyrirhuguðu tónleikum þeirra í maí. Set hér inn eitt lagið sem þau voru með þarna.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.