Norðangarri í garði

Það gengur mikið á hér við norðurhlið hússins   Í fyrsta lagi er svakalega kalt þarna úti núna.  Í öðru lagi eru nágrannarnir búnir að láta fella tvö stór aspartré sem voru við lóðamörkin og skyggðu bæði á þeirra hús og á okkar garð.  Það mættu fimm vaskir piltar frá einhverju garðfyrirtæki og í gang fóru keðjusagir og hviss pó eftir nokkuð puð og mikinn keðjusagarsöng lágu aspirnar í valnum.  Dálítið merkilegt að spá í hve stuttan tíma það tók að saga niður þann árafjöldavöxt.  Ég held að aspir séu ekki góð garðtré í svona litlum görðum eins og eru í þessum húsum okkar á þessum slóðum.  Aspir þurfa mikið pláss þegar þær vaxa og dafna og taka mikið til sín bæði rótarkerfið og krónan.  Þær þurfa því miklu meira pláss en til staðar fyrir slíkan gróður í meðal reykvískum garði.  Því skil ég vel að nágrannar mínir sem voru hættir að fá sól á svalirnar sínar hafi tekið þá ákvörðun að láta fella aspirnar. 

Þannig að nú verður sól lengur í norðurgarðinum mínum þetta sumarið en hingað til síðan ég flutti í þetta hús og er ég ánægð með það.  Í þessum hluta garðsins er oft mjög gott á morgnana á sumrin áður en hafgolan kemur.  En núna þessa stundina er þarna ískalt og hvasst og bara sunnlenskur norðangarri.  En þeir feðgarnir láta það ekki á sig fá.  Fermingardrengurinn ákvað nefnilega að fá að kaupa trampólín fyrir hluta af fermingarpeningunum og studdi móðirinn það heilshugar.  Fjárfest var í trampólíni í dag með öryggisneti og alles og eru þeir núna úti að bauka við að reyna að setja dýrindið saman.  Það gengur frekar hægt en þeir jaxlast þetta piltarnir.  Ég aftur á móti hlakka til að fá að prófa að hoppa á trampólíninu.  Það var keypt með extra góðri dempun þannig að það á alveg að þola mig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband