Hvarfshnjúkur

Hvarfshnjúkur

Hvarfshnjúkur gnæfir yfir Syðra-Hvarfi í Svarfaðardal eða nánar tiltekið í Skíðadal þar sem Gunnar maðurinn minn ólst upp.  Við vorum ekki alveg sammála í gær um hæðina á Hnjúknum, sem er yfirleitt nefndur svo í daglegu tali fyrir norðan.  Ég taldi Hnjúkinn um 1200m háan en Gunnar taldi hann vera 800m.  Það taldi ég utansveitarkonan að gæti ekki verið rétt hjá sveitardrengnum, fjallið væri mun hærra en það.  Jæja ég hef gert könnun á netinu sem leiðir í ljós að Hvarfshnjúkur er 1035m hár.   Ég vissi það að hann væri allavega yfir 1000m hár.  Syðra-Hvarf er í 80m hæð þannig að þaðan er djúgt að fara á topp.

Þau eru nefnilega há fjöllinn í Svarfaðardal og í Skíðadal, Rimar sem eru fyrir aftan Hnjúkinn eru 1300m en hæsti tindurinn er Dýjafjallshnjúkur sem er 1456m og er innaf dal við bæinn Klængshól.

Oft og iðulega hef ég áformað það þar sem ég sit í stofunni minni hér í Reykjavík að nú skuli ég drífa mig af stað og klífa amk. Hnjúkinn næsta sumar og etv. eitt eða tvö fjöll í viðbót.  Ég hef meira að segja keypt mér gönguskó því ekki gengur maður Hnjúkinn á Ekkó skóm það er ljóst.  Fjallgöngustuðið hefur hins vegar látið bíða eftir sér þegar ég dvel í Dalnum væna.  Ég hef yfirleitt svo rosalega margt skemmtilegt að gera alltaf þegar ég er þar stödd að ég hef aldrei neinn tíma í fjallgöngur og kemst ekki af stað.  En núna t.d. þar sem ég pikka þetta inn í tölvuna finnst mér alveg upplagt að drífa mig á Hnjúkinn í sumar.  Sjáum svo hvað setur.  Kannski ég lækki væntingarnar aðeins og reyni að komist uppá brún en þangað hef ég einu sinni farið en brúnin sést á meðfylgjandi mynd, og er kannski í 400 - 500m hæð og í gamla daga voru nú kýrnar reknar þangað uppeftir á hverjum degi.  En að fara uppá brún er þó betra en að gera ekki neitt í fjallgöngumálunum, einhvern veginn er ég á þeirri skoðun þessa stundina.  Stefni ákveðið á brúngöngu í sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband