Vigdís Finnbogadóttir
3.6.2008 | 06:55
Ég kom við í Melabúðinni á leiðinni heim í gær úr vinnunni til að kaupa áburð fyrir sumarblómin mín. Ég taldi auðsýnt að þeim veitti ekki af einhverri hressingu eftir austanrokið á sunnudaginn. Þegar ég kom að kassanum hitti ég þar fyrir aðra mömmu úr bekknum hans Jóhanns Hilmis og við fórum að ræða nýliðinn vetur og bekkinn í Hagaskóla og annað sem hafði gerst um veturinn. Við höfðum um margt að ræða og okkur leiddist ekkert en eitthvað gékk þetta erfiðlega á kassanum og eftir smá stund fórum við að athuga hvað tefði afgreiðsluna. Fyrir framan kassann stóð ljóshærð glaðleg kona sem bað okkur afsökunar á þessari bið sem hún væri valdur að. Þarna var komin fyrrverandi forseti vor Vigdís Finnbogadótir.
Vigdís sagðist hafa heyrt á tal okkar tveggja og við ræddum smá stund málin og á þessari litlu stund kom Vigdís að áhyggjum sínum af unga fólkinu okkar og þróun íslenskrar tungu. Ég áttaði mig á því í gær þarna við kassann í Melabúðinni hvað ég er hrifin af Vigdísi Finnbogadóttur. Ég var mjög ánægð með hana sem forseta á sinni tíð, fannst hún alltaf standa sig mjög vel og ég fann í gær hvað ég er ánægð með hana enn þann dag í dag.
Hafði lúmskt gaman af því þegar ég uppgötvaði að þarna stóð ég við kassann í Melabúðinni með eitt sólskinsbros á andlitinu yfir því að vera að tala við Vigdísi Finnbogadóttur - hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég væri svona mikill Vigdísar aðdáandi. Stundum kemur maður sjálfum sér á óvart.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.