Furðustrendur

Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að Skagafjörðurinn sé mikil perla.  Lengi vel fannst mér eins og hann nyti ekki nægilega sannmælis né vinsælda hjá ferðamannaiðnaðinum.  Mér fannst eins og öllum ferðamönnum væri beint til Akureyrar og á Mývatn og á alla fallegu staðina í Þingeyjarsýslu með fullri virðingu fyrir þeim.  En í firðinum Skaga er nefnilega margt hægt að skoða og gera - sagan drýpur þar af hverju strái, hægt að fara í siglingu út í Drangey og Málmey, skoða fjöll og firnindi ef menn vilja, nú og svo eru það ísbirnirnir og allt það.  Vissulega hefur á siðustu árum ýmislegt gerst í Skagafirðinum til að nýta betur þau tækifæri sem fjörðurinn býður uppá til afþreyingar fyrir ferðamenn.  Þar má nefna flúðasiglingarnar í Jökulsánum, Vesturfarasetrið á Hofsósi og nýja skíðaaðstaðan í Tindastól svo fátt eitt sé nefnt. Svo er alltaf sól í Blönduhlíðinni en því halda þeir fram sem þar búa.

Pabbi og mamma eru Húsvíkingar og tifuðu þar um fjöll og firndindi í leit að berjum þegar þau bjuggu á því svæði og áttu fullt af leyniberjastöðum.  Þau hafa nú fundið hina ýmsustu berjaleynistaði í Laxárdal og uppí fjalli við Sauðárkrók og hafa nú fyllt frystikistuna sína af svörtum aðalbláberjum.  Nú í morgunsárið les ég það síðan í blaðinu að við Héraðsvötn séu Furðustrendur þar sem eru hvít krækiber og íslensk villt jarðaber.  Hann leynir nefnilega svo á sér Skagafjörðurinn.  Alltaf eitthvað nýtt og nýtt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Furðuströnd er nú ekki eini staðurinn í Skagafirði þar sem villijarðarber finnast. Þau vaxa til dæmis í Djúpadalsárgili. Náðu að vísu sjaldan að þroskast þegar ég átti heima í Dal. Hvítum krækiberjum man ég aftur á móti ekki eftir.

Nanna Rögnvaldardóttir, 28.8.2008 kl. 14:15

2 Smámynd: Guðrún S Hilmisdóttir

Já heitir umræddur staður Furðuströnd - ég var ekki viss.  Ég hef aðeins fundið villijarðaber í berjalandi sem er nálægt Hítarvatni og aldrei komist í tæri við hvít krækiber.

Guðrún S Hilmisdóttir, 28.8.2008 kl. 18:08

3 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þetta er nú ekkert afskaplega fornt örnefni. Jón Ósmann ferjumaður reisti kofa þarna við ósinn og kallaði hann Furðuströnd og það festist svo við svæðið þarna í kring. Jón orti vísu sem er svona:

Starir hissa og hrein mín önd

hrafnar og rissur krunka

fjallgrimm vissa á Furðuströnd

fallega pissar Brúnka. 

Nanna Rögnvaldardóttir, 28.8.2008 kl. 18:58

4 Smámynd: Guðrún S Hilmisdóttir

Tær snilld --

Guðrún S Hilmisdóttir, 29.8.2008 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband