Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Alþjóðlegi hláturdagurinn
3.5.2008 | 08:20
er á morgun sunnudag þykist ég hafa séð einhversstaðar. Ég er vön að segja að Ásta Valdimarsdóttir, hláturkennari sé vinkona mannsins míns, en hún er nú reyndar ágætis vinkona mín líka. Ásta kenndi Gunnari söng í Söngskólanum í Rekjavík hérna á hinni öldinni og hafa þau haldið góðu sambandi síðan. Þegar hún Ásta kom forfrömuð í hláturfræðum hingað til Íslands fyrir nokkrum árum síðan þá bauð hún okkur fjölskyldunni á hláturnámskeið sem hún var með í Norræna húsinu. Okkur frannst þetta svona svolítið skrítið en af því okkur líkar svo vel við Ástu og höfum fulla trú á því að hún tæki ekki upp einhverja dellu þá mættum við á námskeiðið fjölskyldan og prófuðum að hlæja undir leiðsögn Ástu í takt við klapp og nokkrar mismunandi hláturgerðir. Það er svona karlahlátur, konuhlátur, í-hí-hí hlátur ha- ha -ha -hlátur - o.s.frv. ekki ósvipað laginu hans Ómars Raganssonar í den. Okkur Jóhanni Hilmi fannst ljónahláturinn lang skemmtilegastur og getum við ennþá notað hann til þess að fara að hlæja þegar sá gállinn er á okkur.
Auðvitað líður manni dálítið sérkennilega að standa með einhverju ókunnugu fólki og vera að klappa og hlægja. En það vandist ótrúlega fljótt - og Ásta Valdimars er náttúrulega mjög flink í því að fá fólk til þess að hlægja. Það er gott að hlæja og örugglega mjög hollt. Það er líka frábært að vera bara að hlæja til þess eins að hlæja en vera ekki að hlæja að einhverjum eða einhverju öðru en hlátrinum sjálfum. Þetta er nefnilega alþjóðlegi hláturdagurinn en ekki alþjólegi aðhláturdagurinn.
Samstaða og samvinna
1.5.2008 | 08:45
Til hamingju með daginn. Baráttudagur verkalýðsins 1. maí er runninn upp. Það er hollt á slíkum degi að huga að því hverju samtakamáttur og samvinna getur áorkað. Mér finnst gildi samvinnu og samráðs oft vera vanmetin í samskiptum launþega og atvinnurekenda. Oft er einhver ákvörðun pressuð í gegn án nægjanlegs samráðs eða samvinnu við launþega og þá notuð margvísleg rök fyrir ákvörðunum svo sem hina ýmstu vinnutilskipanir og lagabálka. Oft geta launþegar ekkert annað gert en bitið í það súra epli sem að þeim er rétt. Slíkt skapar úlfúð og leiðindi sem kemur fram í slæmu vinnuumhverfi. En hingað til hefur það ekki þótt góð lexía að breyta vinnufyrirkomulagi hjá einhverri starfsstétt með þeim hætti að kjör starfstéttarinnar versni. Ef breyta verður vinnufyrirkomulagi þá verður að ganga þannig í þau mál að kjörin versni ekki við nýtt og betra fyrirkomulag. Því þá er viðbúið að launþegi grípi til sinna ráða, saman eða einn og sér. Samstaða launþega þegar slík staða er komin upp er þá miklu heillavænlegri til árangurs en sundrung. Sameinaðir stöndum vér sundraðir föllum vér, gömul sannindi og ný.