Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
Hvarfshnjúkur
19.5.2008 | 18:19
Hvarfshnjúkur gnæfir yfir Syðra-Hvarfi í Svarfaðardal eða nánar tiltekið í Skíðadal þar sem Gunnar maðurinn minn ólst upp. Við vorum ekki alveg sammála í gær um hæðina á Hnjúknum, sem er yfirleitt nefndur svo í daglegu tali fyrir norðan. Ég taldi Hnjúkinn um 1200m háan en Gunnar taldi hann vera 800m. Það taldi ég utansveitarkonan að gæti ekki verið rétt hjá sveitardrengnum, fjallið væri mun hærra en það. Jæja ég hef gert könnun á netinu sem leiðir í ljós að Hvarfshnjúkur er 1035m hár. Ég vissi það að hann væri allavega yfir 1000m hár. Syðra-Hvarf er í 80m hæð þannig að þaðan er djúgt að fara á topp.
Þau eru nefnilega há fjöllinn í Svarfaðardal og í Skíðadal, Rimar sem eru fyrir aftan Hnjúkinn eru 1300m en hæsti tindurinn er Dýjafjallshnjúkur sem er 1456m og er innaf dal við bæinn Klængshól.
Oft og iðulega hef ég áformað það þar sem ég sit í stofunni minni hér í Reykjavík að nú skuli ég drífa mig af stað og klífa amk. Hnjúkinn næsta sumar og etv. eitt eða tvö fjöll í viðbót. Ég hef meira að segja keypt mér gönguskó því ekki gengur maður Hnjúkinn á Ekkó skóm það er ljóst. Fjallgöngustuðið hefur hins vegar látið bíða eftir sér þegar ég dvel í Dalnum væna. Ég hef yfirleitt svo rosalega margt skemmtilegt að gera alltaf þegar ég er þar stödd að ég hef aldrei neinn tíma í fjallgöngur og kemst ekki af stað. En núna t.d. þar sem ég pikka þetta inn í tölvuna finnst mér alveg upplagt að drífa mig á Hnjúkinn í sumar. Sjáum svo hvað setur. Kannski ég lækki væntingarnar aðeins og reyni að komist uppá brún en þangað hef ég einu sinni farið en brúnin sést á meðfylgjandi mynd, og er kannski í 400 - 500m hæð og í gamla daga voru nú kýrnar reknar þangað uppeftir á hverjum degi. En að fara uppá brún er þó betra en að gera ekki neitt í fjallgöngumálunum, einhvern veginn er ég á þeirri skoðun þessa stundina. Stefni ákveðið á brúngöngu í sumar.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fé og frami
17.5.2008 | 08:39
Í blaðinu 24 stundir í dag á blaðsíðu 18 er lítil frétt í kafla blaðsins sem ber nafnið Fé og frami. Í henni greint frá því að raunveruleg ástæða fyrir því að konur í Bretlandi þéna minna en karlar sé sú að þær sinni frekar heimilisstöfum en karlarnir. Barneignir hafa minni áhrif á laun.
Mér finnst þessi könnun og þessar niðurstöður athygliverðar. Miðað við upplýsingarnar í 24 stundum var fylgst með 5000 breskum fjölskyldum í 15 ár þannig að hér er ekki um einhverskonar skyndi - slembi - fimm mínútna símtalskönnun að ræða heldur áralangar rannsóknir. Sem leiðir semsagt í ljós að giftar konur og konur í sambúð verja u.þ.b. 12 tímum á viku í heimilssstörf en karlar 4-5 tímum. Einhleypar konu verja að meðaltali 7 tímum í heimilisstörf en ekki kemur fram í fréttinni hve löngum tíma að meðaltali einhleypir karlar verja til heimilisstarfa.
Einfalt reiknidæmi sýnir að með því að stofna heimili með öðrum aðila bæta konurnar á sig 5 tíma vinnu við heimilisstörf. Mér finnst það verulega sorglegt að þær þurfi virkilega að bæta svona mikilli vinnu á sig við heimilisstörf bara með því að fara í sambúð með öðrum aðila. Með þáttöku á vinnumarkaði vinnur meðalkonan frá kl. 9 á morgnana stanslaust til kl. 8 á kvöldin ef heimilisstörfin eru aðeins unnin hversdags.
Það sér það hver maður að hver meðalkona hefur ekki mikinn þrótt eða kraft né getu eftir slíka meðaltörn að meðaltali allt árið um kring til þess að vera að standa í því að bæta við sig enn meiri vinni á vinnumarkaði ef hún þarf ekki nauðsynlega hvað þá að fara að standa í eltingarleik við frægðina. Niðurstaða könnunarinnar er að glíma kvennana í sambúð við innkaupapokann, þvottakörfuna og pönnuna gerir það að verkum að konur ná hvorki jafn miklu fé né frama og karlarnir sem þær eru í sambúð með.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Maísólin
15.5.2008 | 07:27
gefur mér orku, það er ekki spurning. Settist út á svalir með kaffibolla í síðdegismaísól í gær og áður en ég vissi af var ég komin út í garð vopnuð skóflu og farin að berjast við tvær runnarætur sem lágu út í hlaðna haunvegginn en það að laga hann er eitt af garðverkum sumarsins. Þar sem ég var að bjástra við ræturnar þá birtust systurnar á loftinu, önnur á hjóli en hin á bíl og þær voru svo áhugasamar með að hjálpa við rótarbaráttunna að áður en varði var björninn unninn og ræturnar lágu í valnum.
Þarf að verða mér út um þökur í dag einhversstaðar í borginni, veit ekki hvar hægt er að nálgast slíkt það þarf töluvert að endurnýja grasið og laga til meðfram beðum. Ef verður aftur svona frábær maísól seinni partinn í dag þá er aldrei að vita hverju verður áorkað í henni blessaðri.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Matarholan
14.5.2008 | 07:06
Það er víða að finna matarholur fyrir fyrirtækin af ólíklegustu gerðum. Ég lagði á mig núna í morgunsárið að kíkja á þetta frumvarp fjármálaráðherra sem er núna í umfjöllun í þinginu. Ég skil þetta frumvarp þannig að fella eigi niður skatt af arði félaga af hlutabréfakaupum. Það finnst mér dálítið einkennileg ráðstöfun. Mér finnst að ríkið hafi staðið sig mjög vel í því að lækka skatta á fyrirtæki en ekki staðið sig eins vel í að lækka skattaálögur á einstaklinga. En þegar ég les umsögn með frumvarpinu þá kemur fram að hér virðist vera um skatt að ræða sem fyrirtækin geta síðan frestað í það óendanlega að greiða í ríkissjóð??
-----
Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
----Í skattskilum lögaðila kemur ekki fram hversu stór hluti tekna er vegna söluhagnaðar og liggur því ekki fyrir hversu mikill skattur er greiddur af honum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið eru líkur á að skatturinn skili fremur litlum tekjum bæði vegna þess að í reynd er hægt að fresta skattlagningunni óendanlega og vegna þess að mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til landa sem ekki skattleggja söluhagnað.---
------
Ef ég skil þetta rétt þá eru semsagt núna í gildi lög um skatt um söluhagnað af hlutabréfakaupum félaga sem eru þannig að hægt er að fresta skattlagningu óendanlega og því hefur ríkissjóður ekki haft neinar skatttekjur af þessum hagnaði félaga. Því er talið réttara að hreinlega fella þennan skatt niður. Afar sérkennilegt mál í alla staði, en mjög skiljanlegt að enginn greiði skatt sem hægt er að fresta greiðslu á í það óendanlega - það er ljóst.
Hamfarir
13.5.2008 | 07:47
Það er lítið lát á hamförum í heiminum þessa dagana. Mér leist ekkert á blikuna þegar fyrstu fréttir komu af jarðaskjálftanum í Kína því stax var hann áætlaður um 7,8 -7,9 stig á richterskvarða. Ég var í gærkvöldi að sýna Jóhanni Hilmi hvernig richterskvarðinn er uppbyggður og við tókum einn skrans á því hvað er lógarítmiskt fall. Það er dálítið erfitt að átta sig á því hve orkan stækkar gríðarlega sem losnar við hvert stig sem ofar dregur í kvarðanum. Því er oft notað útskýringingarnar um hversu slæmar afleiðingar jarðskjálfta af þessari og þessari stærð geta orðið. Ekki ósvipað og útskýringar á vindhraða sem ég lærði einhvern tímann og fannst mjög skemmtilegar. Flagg bærist í vindi og allt það.
En aftur að Kína og jarðskjálftanum þar. Ég sá að enska wikipedia var þegar búin að setja upp síðu um jarðskjálftann. Þar er ýmiss fróðleikur svo sem um staðsetningu skjálftans en ég var að vona þegar fyrstu fréttir af skjálftanum bárust að hann hefði verið einhvers staðar í strjálbýli. Sem sýnir best vankunnáttu mína á Kína - er slíkur staður sé til í því fróma landi? Kannski í fjöllunum einhvers staðar. En skjálftinn var ekki í neinu strjálbýli því miður.
Stærð skjálfta sem er 7,9 er hægt að gera sér í hugalund með því að skoða eftirfarandi útskýringar í wikipedia á kvarðanum: 7.0-7.9 Major Can cause serious damage over larger areas. 8.0-8.9 Great Can cause serious damage in areas several hundred miles across.
Ég hef áður bloggað um upplifun mína af Skagafjarðarskjálftanum 1963. Stærð hans var um 7 stig en upptök skjálftans var útá firðinum Skaga. Dalvíkurskjálftinn árið 1934 var 6,4 stig á richter en upptök hans var eiginlega beint á Dalvík. Ég hef þessar upplýsingar úr þessu riti. Í þeim skjálfta urðu mjög miklar skemmdir á húsum á Dalvík og í Svarfaðardal en þó mest á Dalvík. Ég fann þessar upplýsingar á netinu um 17. júní skjálftann árið 2000, stærð hans hefur verið 6,5 stig. Þá urðu þó nokkrar skemmdir á húsum á Suðurlandinu.
Hér á Íslandi eru hús hönnuð og byggð til þess að standast ákveðnar hönnunarforsendur varðandi lárétta krafta. Ég þekki ekki til kínverskra álagsstaðla og hönnunarforsendna fyrir byggingu mannvirkja. En þessi jarðskjálfti í Kína var mjög stór og því ljóst um leið og fyrstu fréttir komu að þarna hefðu orðið rosalegar hamfarir og með hrikalegum afleiðingum eins og fréttir frá Kína bera með sér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pabbi og tæknin
11.5.2008 | 13:33
Pabbi minn málar vatnslitamyndir og semur ljóð sem hann setur á myndirnar. Hann gaf mér í jólagjöf myndina sem ég set hér inn að gamni þó myndartakan hafi ekki tekist sem skyldi með þessu flassljósi sem kemur á myndina. Myndin er af Tindastól og á henni er síðan þessi vísa:
Tindastóll áfram eins og þú sérð,
óbreyttur getur staðið.
Þessvegna líka ég vanda verð
vísuna mína á blaðið.
Myndirnar hans pabba eru mjög fínar að mínu mati og aðrir eru mér sammála. Pabba finnst best að mála myndirnar úti í náttúrunni þar sem litir, birta og skuggar eru beint í æð. En það hefur ekkert viðrað sérlega vel til útivatnslitamálunar í Skagafirðinum upp á síðkastið. En nú hefur karl faðir minn tekið tæknina í sína þágu. Hann fer út með nýju digitalmyndavélina hennar mömmu og finnur góðan stað í firðinum Skaga með málaravænu útsýni. Byrjar á því að mynda og mynda og að myndatöku lokinni þá er hægt að byrja á myndinni á staðnum ef veður leyfir. Síðan er haldið heim á Krókinn og myndirnar hlaðnar inní tölvuna. Þá getur listmálarinn séð mótívið í tölvunni og haldið áfram með myndina í stað þess að reyna að klára hana eftir minni. Tóm snilld segir faðir minn.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Snjór og hálka
10.5.2008 | 09:45
Gunnar hringdi norður í Svarfaðardal í gærkvöldi og náði í Óskar bónda í Dæli. Þá var snjókoma í Dalnum væna. Maður sér á vefmyndavélum Vegagerðarinnar að það er kuldalegt um að lítast á fjallvegum fyrir norðan. Ég man eftir því að hafa verið í fermingu í dalnum sem var haldin um 10 júní og það snjóaði nóttina fyrir ferminguna það mikið að það varð hvítt niður að á. Hitastigið fermingardaginn var um plús 4 gráður á Celsíus. Eða eins og einn íbúi á Kópaskeri sagði við mig þegar ég var í heimsókn það eitt sumarið: Hitastigið hér á Kópaskeri þetta sumarið er búið að vera eins og maður vill hafa kjörhitastig í ískápnum sínum. Í kringum fjórar gráðurnar. Svona getur norðanáttin verið erfið við norðlendinga, eins og sunnanáttin er góð og yndisleg.
Fyrsta sumarferð okkar í ár í Dalinn væna verður farin í tengslum við sautjándajúní jublíem bóndans. Það er nú meira en mánuður þangað til þannig að ég er ekkert farin að örvænta með að snjóa hafi eitthvað leyst þegar við mætum á svæðið. En áttin hefur verið full norðanstæð sem af er vorinu. Og ekki hjálpar það til þegar heldur áfram að snjóa si svona öðru hvoru.
Vespers, Rachmaninoff
9.5.2008 | 09:51
Set hér inn sjötta hlutann af þessu frábæra verki, Vespers eftir Sergei Rachmaninoff þessi hluti er:
6 hluti: Богородице Дево, радуйся - Rejoice, O Virgin
Hér er þessi Maríuhylling flutt af rússneskum söngvurum og fundið af youtube. Gunnar er búinn að kaupa miða handa okkur á tónleikana með Módettunni í Hallgrímskirkju á mánudaginn - hlakka til, hlakka til.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrift
6.5.2008 | 21:06
Sat áðan og stytti ermar í kápu sem mér hefur áskotnast og festi tölur og hlustaði um leið á Kastljósið þar sem rætt var um sóun okkar Íslendinga. Mér fannst ég á þeirri stundu vera einmitt eitt stykki gott exemplar um þriftuga konu þar sem ég var þá að laga til kápu þannig að hún geti nýst mér. Mér fannst einhvern veginn eins og orðið þrift og að vera þriftug þýddi að vera nýtin og fara vel með en þar sem ég var ekki alveg pottþétt á þessu hjá mér þá fór ég og gáði í íslensku orðabókina og þar segir: Þrift - þriftar KV velmegun, velgengni, gengi.
Þannig að eitthvað hefur nú skilningur minn skolast til en ég er samt eitthvað svo pottþétt á að hafa heyrt þetta notað sem jákvæð lýsing á einstaklingi sem fer vel með það sem honum áskotnast og nýtir vel hlutina án þess að vera nirfill eða nískur. Ég hef þá skoðun á sjálfri mér að ég sé hvorki nirfill né nísk en þriftug er ég. Þetta kvöldið að minnsta kosti.
Hagaskóli 50 ára
5.5.2008 | 19:17
Í ár eru 50 ár frá því að Hagaskóli hóf starfsemi í núverandi húsnæði og verður haldin afmælishátið af þessu tilefni í lok maí. Það hafa verið einhverjar hugmyndir á lofti hjá nemendum og starfsmönnum með hvaða hætti afmælishátíðin á að fara fram. En fyrst þarf að takast á við vorprófin sem eru framundan en að þeim loknum ætla nemendur og starfsmenn að taka höndum saman og hefja undirbúning afmælishátíðarinnar. Ég vona og er næsta viss um að bæði undirbúningur og framkvæmd afmælis verður bæði skemmtilegur, lærdómsríkur og gefandi fyrir þá aðila sem að málum koma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)