Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Kál og púrra

Ég dreif í því í gær að fara í Mörkina í Blesugróf og fjárfesta í salatplöntum, púrru og dilli.  Nú á að prófa sig í matjurtaræktinni þetta sumarið.  Ég fékk mér þrjar jarðaberjaplöntur, dill og graslauk í fyrra.  Jarðaberjaplönturnar eru komnar á gott skrið og líka graslaukurinn.  Dillið lifði ekki af veturinn.  Í fyrrasumar settu systurnar uppi niður alls kyns salöt og kál í öllum stærðum og gerðum og litum i matjurtagarðinn sem er hérna við suðausturhorn hússins.  Um sumarið varð þetta hið fallegasta og litríkasta kál sem var líka bragðgott.  Ég fékk nokkrum sinnum að grípa nokkur salatblöð til að drýgja salatskammtinn hjá mér.

Ég sá það semsagt í fyrra hvað þetta er stórsnjallt fyrirbrigði svona kálgarður í garðinum og hef núna fjárfest í amk. eftirfarandi plöntum:

Venjulegt blaðsalat, klettasalat, sinnepssalat (spennandi, veit ekkert hvernig það bragðast), fjólublátt krumpusalat nafnlaust, og eitt enn salat grænt, nafnlaust líka.  Svo fékk ég mér líka fjórar púrur að gamni og síðan náttúrulega dillið.  Samkvæmt veðurspánni á rigningin að fara að hætta og sólin að fara að skína núna seinni partinn.  Þannig að þá er bara að hætta internetróli og drífa sig út í garð.


Stríð og friður

 

Ég er á póstlistanum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Einhvern tímann í vetur kom póstur um það að það kæmi rússi í heimsókn til að stjórna hljómsveitinni í rússnesku verki.  Ég ákvað með det samme  að kaupa miða.  Rússar eru náttúrlega bara flottir og þeir hafa betri skilning á sinni músík en aðrir.  Sem er bara rétt og skiljanlegt.  Allavega fórum við hjónin í gær á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Gennadi Rodestvenski.  Fyrst spilaði eiginkona stjórnandans Viktoaria Postnikova einleik í píanókonsert 24 í C moll eftir Mosart. Mósart hefur virkað á mig sem svona léttur og skemmtilegur og kannski þess vegna hafði ég mjög gaman af þessum píanókonserti hans Mosart því þar kvað við annan tón.  Því þessi píanókonsert verandi í  í moll og allt það er tregafullur og dapur á sinn hátt þótt þar séu kraftmiklir kaflar í bland.  Viktoria hefur sérstaklega lag að spila létt á píanóið sem ég hef ekki heyrt hjá öðrum einleikurum.  Mér fannst það áberandi í uppklappslaginu sem var mjög fallegt hjá henni.  

 

Eftir hlé komu síðan Rússarnir í öllu sínu veldi.  Það var gaman að fylgjast með stjórnandanum benda svona hist og her sem var þó algjörlega ekkert hist og her.  Og fylgjast með hljómsveitinni en stjórnandinn hafði þau algjörlega á sínu bandi og í sínu valdi allan tímann.  Mér fannst mjög áberandi að stjórnandinn vildi fá þögn hér og þar og þá bara algera þögn sem virtist vera erfitt fyrir hljómsveitina að ná.  Mér finnst þetta trennd einmitt vera áberandi í þessu gamla myndbandi sem er af þessum frábæra stjórnanda að stjórna verki eftir annað rússneskt tónskáld en í gær.  Rosalega skemmtilegur stjórnandi hér á ferð sem hafði hljómsveitina algjörlega með sér sam mér fannst líka gaman að sjá því allir í hljómsveitinni voru bara að fylgjast með því hvað hann var að benda og gera.  Bara frábært en fyrst og fremst var það náttúrulega tónarnir og hljómarnir sem hvefldust yfir mann þannig að fyrst og fremst að það náttúrulega tónskáldinu að þakka. Sem hann benti á í lokin.  Það  eru þau sem eru að gera þetta allt mögulegt.  Frábærir tónleikar í alla staði.


Til hamingju Ísland

með annað sætið, rosalega flott hjá okkar fólki sem stóð sig eins og hetjur.  Ég er mjög ánægð með Eurovision þetta árið, var mjög hissa á því að við skildum lenda í örðu sæti, átti ekki von á því en vonaði alltaf að við yrðum í topp tíu.  Mér fannst þau öll mjög flott en auðvitað er það lagið og Jóhanna sem eiga vinninginn hvað okkur varðar.  En Alexander var mjög pottþéttur og flottur með álfasöguna sína og á sigurinn skilið.


Osanna in excelsis

Jæja þá er tónleikadagurinn runninn upp bjartur og fagur.  Tónleikarnir verða í Lanholtskirkju og hefjast klukkan þrjú.  Mikið meistarastykki hér á ferð, H moll messa Bachs bæði flottir kórkaflarnir og svo eru aríurnar margar hverjar undur fagrar.  Kammersveit Jón Leifs Kammerata spilar á tónleikunum og þar er valinn maður í hverju rúmi að mínu mati amk.  Það hafa orðið breytingar á sóloistunum okkar, komin nýr sópran í málið sem söng með miklum glæsibrag á æfingunni í gær. Hálsbólga og veikindi eru að hrjá söngfólkið sem er ekki gott en það er þó bót í máli að það er hægt að ná í fólk með stuttum fyrirvara til að bjarga málum.  Þetta er mikil tónlistarmessa sem verður flutt í Langholtskirkju í dag og ég hvet alla að drífa sig á tónleikana.

Kór:

Osanna in excelsis.
Dýrð sé Guði í upphæðum  

 


H moll messa Bachs

 

 Jæja þá er alveg að koma að flutningi kórs Vox academica á H moll messu Bachs en með kórnum á þessum tónleikum verður einvalalið einsöngvara, þau Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Ingunn Ósk Sturludóttir, mezzósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Jóhann Smári Sævarsson og Agúst Ólafsson bassar. Kammersveitin Jón Leifs Camerata leikur með kórnum nú sem svo oft áður, en stjórnandi er Hákon Leifsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju þann 16. maí n.k. klukkan 15:0.

Það var kóræfing með hljómsveitinni í Langholtskirkju á þriðjudaginn.  Hljómsveitin raðast þannig niður að flauturnar eru beint fyrir framan okkur í fyrsta sópran.  Og í þessum kafla, Qui tollis peccata mundi þá hófu þær upp mikið flautuspil sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að væri í kaflanum.  

Svo hvet ég alla til að koma á þessa tónleika og láta þessa fallegu tónlist lyfta sér upp.

Kór:

Qui tollis peccata mundi, miserere nobis. Qui tollis peccata mundi, suscipe deprecationem nostram.
Þú sem burtu ber syndir heimsins, miskunna þú oss. Þú sem burtu ber syndir heimsins, heyr bæn vora.


Hjólað í vinnuna

nei ekki ég - ég fæ að hafa fjölskyldubílinn.  Fyrir nokkrum árum síðan þá var ég að spá í það hvort við ættum að fá okkur annan bíl fjölskyldan en bóndinn sló þær pælingar út af borðinu og hefur staðið sig vel í því að hjóla í vinnuna.  Það er aðeins ef er mikill snjór og hálka sem hann fær far með frúnni í vinnunna.  Á mínum námsárum í Danmörku hjólaði ég út um allt þótt ég hafi ekki nema einu sinni hjólað alla leið upp í Lyngby þar sem Danski Tækniháskólinn er. 

Í gær var ég á leið heim úr vinnunni á Sæbrautinni á mínum fjölskyldubíl og þá var fríður flokkur hjólreiðamanna á ferð á göngustígnum við Sæbrautina.  Ég held að þar hafi verið á ferð fólk að hjóla heim úr vinnunni en ég spurði þau nú svo sem ekki.  En þarna á Sæbrautinni í gær í voreftirmiddagssólinni fékk ég svona flash back til minna Kaupmannahafnarára við að sjá þennan hjólreiðamannaflokk. Því í Kaupmannahöfn er eiginlega aldrei bara einn hjólreiðamaður á ferð.  Þar eru hjólreiðamenn yfirleitt alltaf í hópum.  Það er hið besta mál ef slíkir hjólreiðahópar eru að fæðast hér í borg.


Dóttir uppí skuld

Þessi frétt hér á ruv vakti athygli mína í gær.  Þar er semsagt greint frá því að karlamaður í Saudi Arabíu hafi sett 8 ára gamla dóttur sína uppí skuld sína við annan karlmann.  Dóttirin er 8 ára gömul en karlinn sem fékk stúlkuna uppí skuldina að verða fimmtugur.  Foreldrar stelpunnar eru fráskildir en pabbinn hafði forráð og yfirráð yfir stelpunni og því var honum algjörlega leyfilegt borga skuld sína með þessari dóttur sinni.  Móðir telpunnar fór tvisvar með mál fyrir dómstólum í Saudi Arabíu til að ógilda þetta hjónaband þessarar 8 ára gömlu stelpu og bráðum fimmtugskarlsins án árangurs.  En svo fóru alþjóðleg mannréttindasamtök á kreik og voru með eitthvað múður út í þetta ráðslag.  Sem endaði með því að þessi átta ára stelpa er núna orðin fráskilin 8 ára stelpa.

Það fylgir ekki þessari frétt hvort þetta hjónaband hafi verið consumated eins og það heitir á enskunni.  Veit ekki alveg núna í morgunsárið hvaða íslenska orð er best fyrir þetta enska orð sem oft er notað í amríkunni sem skilnaðarsök.  Það er að hjónabandið hafi aldrei verið consumated eða að aldrei hafi farið fram nein mök í hjónabandinu.  Var það ekki notað sem skilnaðarsök í einni Íslandsögunni þarna með karlinn sem hafði sofði hjá drottingunni í Svíþjóð og fór síðan heim aftur til Íslands og drottningin var ekkert ánægð með þetta og lagði á hann þær álögur að hann myndi aldrei aftur geta haft mök við aðrar konur?  Minnir það allavega.  En það kemur semsagt ekki fram í þessari frétt þetta hvort einhver mök hafi verið í þessu hjónabandi 8 ára gömlu stelpunnar og fimmtugskarslins.  Né heldur hvernig staðan er núna varðandi þessa skuld hjá pabbanum og núna fyrrverandi tengdasonar hans.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband