Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Sumarsólstöður

Í dag eru sumarsólstöður.  Ég les það á wikipediu að orðið vísar til þess að sólin stendur kyrr, þe. hættir að hækka eða lækka á lofti.  Ég skoða stundum á þessa síðu hjá Veðurstofunni sem sýnir sólarganginn hvern dag og hvernig sólin skín á jörðina.  Sólin verður hæst á lofti hér í Reykjavík kl. 13:30 í dag en ekki lítur vel út allavega á þessari stundu hvort maður fær að sjá til hennar blessaðrar á þeirri stundu.

Ár hvert á sumarsólstöðum er haldið mikið partý við Stonehenge.  Ég sé á netinu að það var metþátttaka í ár, talið að allt að 36 þúsund manns hafi verið þar.  Ég finn ekki upplýsingar um hvort þar sást til sólar við sólarupprás í morgun.  


Músaskítur

Það er skrítið að koma að húsi sem stendur eitt og sér í víðáttu Dalsins eina og verður að sjá um sig sjálft.  Við reynum hjónin að búa vel um litla húsið á hverju sumri þegar við kveðjum Dalinn.  Hingað til hefur allt gengð eins og í sögu.  Húsið litla staðið á sínum stað eins og ekkert mikið hafi gerst síðan síðast þó að hafi gengið á él og norðan hörkur.  Kannski smá ryk hér og þar og flugnaskítur í gluggum.

Núna brá örðuvísi við.  Mýs höfðu fattað húsið littla á grundinni og látið til sín taka.  Reyndar höfum við tvö lítil hús og mýsnar höfðu komist inní geymsluhúsið.  Þar hefur semsagt verið fjör í vetur, þar fannst poki með grasfræjum sem músum finnst bersýnilega mikið varið í.  Sá poki var nagaður í tætlur og lágu leyfar hans og fræjanna um allt gólf í geymslunni ásamt hinu ýmsasta öðru dóti sem músunum fannst einhvern veginn spennandi að naga.  Þar var á ferð til dæmis vatnsveitan mín, hamar og annað smálegt.

Ég sé algjörlega núna hvað við höfum verið heppin hingað til að lenda ekki í þeim músunum.  Því þær virðast vera ótrúlega fimar að komast hvað sem er.  Ég var allan tímann sem ég hreinsaði út geymsluskúrinn dauðhrædd um að finna dauða mús eða finna lifandi mús.  En þrátt fyrir það allt saman og að finnast þetta hinir mestu skúrkar og nagdýr dauðans er eitthvað samt lifandi við það að það skuli vera nagdýr lifandi í Dalnum væna sem láta sér ekki bankahrun eða annað fyrir brjósi brenna.  Náttúran sér um sig svo skrítið sem það er.


Frægir fótboltamenn

Dóttir mín vinnur á veitingastað.  Á föstudagskvöldið var hún að vinna og það kvöld voru sex hollenskir karlmenn við hennar borð.  Þetta voru kurteisustu menn og allt gékk bara ágætlega.  Við annað borð sátu Íslendingar og þegar líða tók á kvöldið þá segir einn þeirra við dóttur mína - veistu ekki hver þetta er þarna við borðið?  Þetta er hann Kallipalli - dóttir mín man ekki einu sinni nafnið  - hann er aflveg oboðslega frægur og flinkur fótboltamaður.  Þú ættir að fá hjá honum eiginhandaráritun.

Dóttir mín hugsað sig um smá stund, svona hvort hún ætti að gera það.  Biðja um eiginhandaráritun.  En hún fattaði strax að það yrði bara hallærislegt.  Í fyrsta lagi þá vissi hún ekkert hver þeirra sexmenninganna þessi frægi Kallipalli var.  í öðru lagi veit hún lítið um fótbolta og hafði enga vitneskju um flinkheit mannsins.  Í þriðja lagi vissi hún ekkert hvað hún ætti að gera við slíka eiginhandaráritun.  Svo hún ákvað bara að láta það vera og láta Hollendingana í friði.  Þetta sýnir svona í hnotskurn hve mikið við fylgjum með fótboltanum hérna á heimilinu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband