Leyndardómar rafmagnsins

Gamall félagi minn úr verkfræðinni Guðmundur Ásmunds sagði einhvern tímann við mig þegar ég var að spyrja hann nánar út í leyndardóma rafmagnsins að menn væru ekkert allt of vissir um margt varðandi rafmagnið.  Þetta væri semsagt ekki mjög nákvæm fræði. Menn vissu nokkurn veginn hvernig rafmagnið hegðaði sér svona yfirleitt og gætu út frá því gert ráð fyrir því hvernig það ætti að haga sér.  En rafmagnið ætti síðan til að gera eitthvað annað og þá væri eina ráðið að bregðast við þeirri hegðan í hvert sinn.  Mér fannst þetta merkilegt - að með allri þessari rafvæðingu þá væru menn ekki búnir að ná betri tökum á rafmagninu en þetta.  Nú er ég orðin margreynd í afskiptum mínum við rafmagnið.  Og mín reynsla er sú að ef eitthvað rafmagnstæki er að stríða manni þá er það oft lausnin að taka tækið alveg úr sambandi og hafa það rafmagnslaust í amk. 10 mínútur og stinga því þá aftur í samband. 

Heimasíminn hjá pabba og mömmu fór í klessu um daginn.  Hann virkaði allt í einu þannig að mamma heyrði ekkert í símanum en þeir sem hringdu í þau heyrðu í þeim.  Þannig hélt mamma heilan dag að einhver símahrekkir væru í gangi því enginn var í símanum.  Hinu megin heyrði maður hins vegar í foreldrunum diskútera fram og aftur að nú gerðist þetta aftur og enginn væri í símanum osfrv.  Jæja eftir að búið var að koma skilaboðum til þeirra um það að síminn væri bilaður upphófst mikið bauk hjá þeim að reyna að laga símann.  Í gærmorgun hringdi ég norður og þá svaraði mamma eins og símsvari í símann - Síminn er bilaður hringdu í gemsann minn.  Ég hringdi í gemsann og mamma sagðist að heimasíminn væri bilaður og ekkert gengi að fá hann í lag.  Taktu hann úr sambandi við rafmagnið og láttu hann bíða þannig í 10 mínútur - settu hann aftur í samband og athugaðu hvort það dugi ekki - var mitt ráð við vandanum.  Mömmu fannst þetta ekkert sérstaklega gott ráð,  sagðist vera bún að taka hann úr sambandi.  En gerðir þú það í 10 mínútur - nei það hafði hún ekki gert.  Hún var vantrúuð á þetta sú aldraða en ætlaði samt að prófa.  Ég fékk síðan símaskilaboð frá henni seinna um daginn - prófaði þitt ráð og síminn er kominn í lag. 

Ég held þegar svona lagað gerist að það sé það vegna þess að það sé eitthvað villuráfandi rafmagn inná rafmagnstækjunum.   Þá þarf amk. 10 mínútna sambandsleysi við rafmagn til þess að hreinsa tækið.  Afrafmagna tækið - eitt af leyndardómum rafmagnsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband