Osanna in excelsis

Jæja þá er tónleikadagurinn runninn upp bjartur og fagur.  Tónleikarnir verða í Lanholtskirkju og hefjast klukkan þrjú.  Mikið meistarastykki hér á ferð, H moll messa Bachs bæði flottir kórkaflarnir og svo eru aríurnar margar hverjar undur fagrar.  Kammersveit Jón Leifs Kammerata spilar á tónleikunum og þar er valinn maður í hverju rúmi að mínu mati amk.  Það hafa orðið breytingar á sóloistunum okkar, komin nýr sópran í málið sem söng með miklum glæsibrag á æfingunni í gær. Hálsbólga og veikindi eru að hrjá söngfólkið sem er ekki gott en það er þó bót í máli að það er hægt að ná í fólk með stuttum fyrirvara til að bjarga málum.  Þetta er mikil tónlistarmessa sem verður flutt í Langholtskirkju í dag og ég hvet alla að drífa sig á tónleikana.

Kór:

Osanna in excelsis.
Dýrð sé Guði í upphæðum  

 


H moll messa Bachs

 

 Jæja þá er alveg að koma að flutningi kórs Vox academica á H moll messu Bachs en með kórnum á þessum tónleikum verður einvalalið einsöngvara, þau Hlín Pétursdóttir Behrens, sópran, Ingunn Ósk Sturludóttir, mezzósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Jóhann Smári Sævarsson og Agúst Ólafsson bassar. Kammersveitin Jón Leifs Camerata leikur með kórnum nú sem svo oft áður, en stjórnandi er Hákon Leifsson.

Tónleikarnir verða í Langholtskirkju þann 16. maí n.k. klukkan 15:0.

Það var kóræfing með hljómsveitinni í Langholtskirkju á þriðjudaginn.  Hljómsveitin raðast þannig niður að flauturnar eru beint fyrir framan okkur í fyrsta sópran.  Og í þessum kafla, Qui tollis peccata mundi þá hófu þær upp mikið flautuspil sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir að væri í kaflanum.  

Svo hvet ég alla til að koma á þessa tónleika og láta þessa fallegu tónlist lyfta sér upp.

Kór:

Qui tollis peccata mundi, miserere nobis. Qui tollis peccata mundi, suscipe deprecationem nostram.
Þú sem burtu ber syndir heimsins, miskunna þú oss. Þú sem burtu ber syndir heimsins, heyr bæn vora.


Hjólað í vinnuna

nei ekki ég - ég fæ að hafa fjölskyldubílinn.  Fyrir nokkrum árum síðan þá var ég að spá í það hvort við ættum að fá okkur annan bíl fjölskyldan en bóndinn sló þær pælingar út af borðinu og hefur staðið sig vel í því að hjóla í vinnuna.  Það er aðeins ef er mikill snjór og hálka sem hann fær far með frúnni í vinnunna.  Á mínum námsárum í Danmörku hjólaði ég út um allt þótt ég hafi ekki nema einu sinni hjólað alla leið upp í Lyngby þar sem Danski Tækniháskólinn er. 

Í gær var ég á leið heim úr vinnunni á Sæbrautinni á mínum fjölskyldubíl og þá var fríður flokkur hjólreiðamanna á ferð á göngustígnum við Sæbrautina.  Ég held að þar hafi verið á ferð fólk að hjóla heim úr vinnunni en ég spurði þau nú svo sem ekki.  En þarna á Sæbrautinni í gær í voreftirmiddagssólinni fékk ég svona flash back til minna Kaupmannahafnarára við að sjá þennan hjólreiðamannaflokk. Því í Kaupmannahöfn er eiginlega aldrei bara einn hjólreiðamaður á ferð.  Þar eru hjólreiðamenn yfirleitt alltaf í hópum.  Það er hið besta mál ef slíkir hjólreiðahópar eru að fæðast hér í borg.


Dóttir uppí skuld

Þessi frétt hér á ruv vakti athygli mína í gær.  Þar er semsagt greint frá því að karlamaður í Saudi Arabíu hafi sett 8 ára gamla dóttur sína uppí skuld sína við annan karlmann.  Dóttirin er 8 ára gömul en karlinn sem fékk stúlkuna uppí skuldina að verða fimmtugur.  Foreldrar stelpunnar eru fráskildir en pabbinn hafði forráð og yfirráð yfir stelpunni og því var honum algjörlega leyfilegt borga skuld sína með þessari dóttur sinni.  Móðir telpunnar fór tvisvar með mál fyrir dómstólum í Saudi Arabíu til að ógilda þetta hjónaband þessarar 8 ára gömlu stelpu og bráðum fimmtugskarlsins án árangurs.  En svo fóru alþjóðleg mannréttindasamtök á kreik og voru með eitthvað múður út í þetta ráðslag.  Sem endaði með því að þessi átta ára stelpa er núna orðin fráskilin 8 ára stelpa.

Það fylgir ekki þessari frétt hvort þetta hjónaband hafi verið consumated eins og það heitir á enskunni.  Veit ekki alveg núna í morgunsárið hvaða íslenska orð er best fyrir þetta enska orð sem oft er notað í amríkunni sem skilnaðarsök.  Það er að hjónabandið hafi aldrei verið consumated eða að aldrei hafi farið fram nein mök í hjónabandinu.  Var það ekki notað sem skilnaðarsök í einni Íslandsögunni þarna með karlinn sem hafði sofði hjá drottingunni í Svíþjóð og fór síðan heim aftur til Íslands og drottningin var ekkert ánægð með þetta og lagði á hann þær álögur að hann myndi aldrei aftur geta haft mök við aðrar konur?  Minnir það allavega.  En það kemur semsagt ekki fram í þessari frétt þetta hvort einhver mök hafi verið í þessu hjónabandi 8 ára gömlu stelpunnar og fimmtugskarslins.  Né heldur hvernig staðan er núna varðandi þessa skuld hjá pabbanum og núna fyrrverandi tengdasonar hans.

 


Rafmagnsbílablogg

Það er margt skrýtið og ekki skemmtilegt sem hefur komið fram á þessum síðustu og verstu en eina hugmynd líst mér mjög vel á.  Það er þessi rafmagnsbílahugmynd sem einhver amrískur kall kom með í síðustu viku.  Þessi karlmaður var sum sé mjög hissa á því að hér á þessu sjálbæra orkuríka landi væri ekki sjálfrennandi rafmagnsbílar út um allt.  Þetta er náttúrulega hárrétt hjá þessum kalli.  Auðvitað eigum við hér á Íslandi að gefa bensíneyðandi jeppabeljum langt nef og aka um á rafmagnsbílum.  Síðan á Orkuveitan og Landsvirkjun að veita milljarðafaldann afslátt á rafmagnsverðinu á nóttunni og þá verður hægt að hlaða bílaflota landsmanna ódýrt eða kannski bara ókeypis.  Rafmagnið rennur hvort sem er lítið nýtt fram og til baka um línurnar á nóttunni og  miklu betra að nota það til að hlaða batteríin.

Ég er hissa á því að enginn stjórnmálaflokkanna hafi tekið þetta þjóðþrifamál uppá sína arma.  Nú eru erfiðir tímar og atvinnuþref og þessi þjóð er svo gjörsamlega komin á hausinn að það hálfa væri nóg. Við verðum að hætta öllum innflutningi til landsins til þess að geta borgað skuldir okkar og þá á auðvitað að stöðva alveg innflutning á bensíni og olíjum.  Ég gæti trúað því að við yrðum að fara út í hvalveiðar til þess að reyna að vinna olíjur og eldsneyti úr hvalfitunni til þess að setja á fiskiskipaflotann og bátana.  Flugvélarnar verður að kyrrsetja það er ekki til peningur fyrir eldsneyti á þá flugvélabensínháka.  Flytja þarf út alla bensínspúandi jeppa og flutningabíla og senda með skipinu til baka alla þá rafmagnsbíla sem hægt er.  Nú eða reyna að venda þessum bensínbeljum yfir í rafmagnsbíla, það hlýtur að vera einhver möguleiki á slíkum venderingum.  Áfram rafmagnsbílar á Íslandi - veljum íslenskt.  


Adagio fyrir strengi

Heyrði þessa fallegu tónlist hér í morgunsárið í útvarpinu mínu og ákvað að deila henni með öðrum þetta er Adagio fyrir strengi eftir Samuel Barber og hérna er verkið flutt af BBC hljómsveitinni undir stjórn Leonard Slatkin á minningartónleikum fyrir þá sem létust 11. september 2001.  Mikill tregi í þessu.


Vatnajökull

Ég gerði mér grein fyrir því hvað það er allt stórt og mikilfenglegt við Vatnajökul þegar Magnús Tumi skýrði út fyrir mér stærðina á síðasta gosi í Grímsvötnum sem var árið 2004.  Þá var þvermálið á goskatlinum  1 kílómeter.  Það er rosalega stór gosgígur að mínu mati og ég fattaði stærð og stöðu Vatnajökuls og þessara gosstöðva undir jöklinum þarna í stofunni á Tómasarhaganum.

Ég hef hugsað mér það að komast einhvern tímann þarna uppá þennan merkilega jökul okkar Íslendinga, Vatnajökul og skoða gripinn.  Einu sinni var pælingin að fá mér jeppa um sextugt og fara þá að keyra um hálendið og jöklana.  Anna Líndal sem hefur mikið verið á ferð um fjöll og jökla með sínum manni telur að það sé fullseint hjá mér, ég skuli fara fyrr af stað.  Við sjáum til.

En varðandi Vatnajökul og hversu merkilegur hann er þá er það gaman að því að hann hljóti alþjóðlega viðurkenningu sem skaðræðisstaður og merkilegur sem slíkur á alþjóðavísu.  Vér Íslendingar hljótum að gleðjast yfir því.  Í umfjöllun dómnefndar? á Discovery heimasíðunni um Grímsvötn segir meðal annara um jökulhlaupin -  you don´t want  to be araound for að jökulhlaup.  En eftir stóra gosið í Gjálp 1996 biðu menn og biðu eftir jökulhlaupinu sem átti að koma í kjölfarið.  Eitthvað var fréttamönnum farið að leiðast biðin og sumar farnir að efast um að það yrði nokkuð jökulhlaup en Magnús Tumi hélt kúlinu og sagði í einu viðtali sem ég sá í sjónvarpinu mínu - vatnið kemur - það verður jökulhlaup.


mbl.is Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorjafndægur

og lóan bara mætt til Hornafjarðar.  Það er ágætis sautjándijúní veður úti og maður verður skemmtilega bjartsýnn á að vorið sé að koma.  Það er gallinn á mars þetta með að það geta komið svona góðir dagar og maður verður glaður innanumsig og heldur að veturinn sé eitthvað að láta undan.  Veturinn er náttúrulega að láta undan en það geta komið kaldir og leiðinlegir dagar enn þá og páskahret og hvað veit ég.  En það er ágætt að njóta þessarar marssælu þegar hún gefst og muna bara að fara ekki í vont skap þegar hvessir og kólnar á nýjan leik.

 Ég horfði á Jon Stewart í the Daily show á norska sjónvarpinu í gær.  Þetta var þátturinn þar sem hann fékk Cramer fjármálasnillinginn og ráðgjafann úr Mad Money í heimsókn.  Linkur á samtalið er hérna.  Mér fannst sannast að segja óþægilegt að sjá Cramer engjast eins og maðkur á öngli í þættinum þegar hann var að reyna að finna einhver svör við beittum spurningum og athugasemdurm Jons.  Lokaorðin í þættinum voru reyndar með þeim betri en þá segir Jon Stewart við áhorfendur - Trúið mér, það var jafn óþæginlegt að taka þetta viðtal við Cramer eins og það var að horfa á viðtalið.   Mæli með því að menn skoði þessi samskipti þeirra. 


Frænka og frændi

Kraginn virðist vera staðurinn þar sem hlutirnir eru að gerast.  Frænka mín Katrín Júlíusdóttir gefur kost á sér í annað sæti Samfylkingarinnar.  Frændi minn Andrés Magnússon geðlæknir til aðgreiningar frá öðrum Andrésum Magnússonum þessa lands hefur tekið þá ákvörðun að bjóða sig fram á lista Vinstri grænna í kraganum.  Ég fann ekki út í hvaða sæti frændi minn er að bjóða sig í, kannski bara í fyrsta sætið?

Ég fór í smá leit á internetinu hér í morgun til að kanna stöðu þessa nýjasta frambjóðanda í mínum ættboga á netinu.  Það verður að játast að frændi hefur ekki haslað sér neinn völl þar.  Hann er ekki að blogga, er ekki búinn að koma sér upp heimasíðu og er ekki á fésbókinni.  Andrés minn ég held að þú verðir að hysja upp um þig brækurnar og setja sjálfan þig út á netið.  Ég tel það næsta víst að það nægi ekki til að ná brautargengi í forvali að sjást í sjónvarpinu eða vera á fundum.     


Kosningar

Þá eru kosningar framundan og frambjóðendur farnir að gefa sig fram.  Allir þeir frambjóðendur gefa á þessum hveitbrauðsdögum upp þau mál og stefnur sem viðkomandi stendur fyrir.  Það er allt gott og blessað og ekki nema gott eitt um það að segja.  Hins vegar hefur allt of oft illa farið fyrir öllum þessum góðu einstaklinsmiðuðu framboðsstefnum viðkomandi einstaklinga þegar og ef hann verður þeirra gæfu aðnjótandi að hljóta brautargengi til að setjast inn á hið háa Alþingi.  Þá taka þar við völd önnur sjónarmið og annað föruneyti en það sem var uppá teningnum í prófkjörs og kosningaslagnum.

Því þegar þú ert kominn inn fyrir dyr Alþingis sem kjörinn alþingismaður stjórnmálaflokks þá átt þú að hlýða stefnu flokksins hvað sem tautar og raular.  Hvað sem þú sem einstaklingur hafði þig í frammi í þinni kosningabaráttu, þá skiptir það engu.  Allir þeir alþingismenn sem nú sitja á þingi hafa allir sem einn verið vel brennimerktir af þessari flokkshollustu.  Eitthvað svo haltu kjafti og vertu sæt - legt að mínu mati.  Ég vona að ég sem kjósandi fái eitthvað mun betra val til að kjósa í komandi alþingiskosningum en ég hef haft síðustu kosningar.  Einnig finnst mér það vera grundvallaratriði að þeir flokkar sem bjóða sig fram til Alþingis gefi það upp í kosningabaráttunni með hvaða flokkum öðrum þeir vilji fara í stjórn.  Þetta gagna óbundinn til kosninga - bull - er eitt ógæfuspilið í spilastokk okkar lands.  Mig langar ekkert til þess að vera sífellt að kjósa einhverskonar dulbúinn framsóknarflokk.  Nei takk fyrir.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband